Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. júlí 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Vestnorrænt tungumálasamstarf

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 1. júlí 2019.

Mennta- og vísindamálaráðherra Færeyja, Hanna Jensen, heimsótti Ísland í nýliðinni viku. Það var sérlega ánægjulegt að hitta samstarfsráðherrann frá Færeyjum og við áttum uppbyggilegan fund þar sem fram komu ýmsar hugmyndir um frekara samstarf á milli landanna. Okkur er báðum umhugað um stöðu og þróun okkar móðurmála, íslenskunnar og færeyskunnar. Bæði tungumál standa frammi fyrir sömu áskorunum vegna örrar tækniþróunar.

Markvissar aðgerðir
Íslensk stjórnvöld geta miðlað miklu til annarra þjóða þegar kemur að því að snúa vörn í sókn fyrir tungumálið. Í þessu samhengi höfum við kynnt heildstæða áætlun sem miðar að því að styrkja stöðu íslenskunnar og vitundarvakningu um hana undir yfirskriftinni Áfram íslenska! Nýverið náðist sá ánægjulegi áfangi að Alþingi samþykkti samhljóða þingsályktunartillögu mína um eflingu íslensku sem opinbers máls á Íslandi. Megininntak hennar verða aðgerðir í 22 liðum sem snerta m.a. skólastarf, menningu, tækniþróun, nýsköpun, atvinnulíf og stjórnsýslu.

Íslenskan gjaldgeng í stafrænum heimi
Hanna Jensen var mjög áhugasöm um máltækniáætlun íslenskra stjórnvalda. Með þeirri áætlun vilja íslensk stjórnvöld tryggja að íslenskan verði gjaldgeng í stafrænum heimi, rafrænum samskiptum og upplýsingavinnslu sem byggist á tölvu- og fjarskiptatækni. Ákveðið hefur verið að efna til formlegs samstarfs ríkjanna, þar sem ríkin deila sinni reynslu og þekkingu á sviði máltækni. Aukinheldur samþykkti Alþingi einnig á dögunum þingsályktunartillögu um samstarf vestnorrænu landanna, Íslands, Færeyja og Grænlands, á sviði tungumála og þróunar þeirra í stafrænum heimi. Þar er lagt til að fulltrúar landanna taki saman skýrslu um stöðu og framtíðarhorfur tungumálanna þriggja ásamt yfirliti um máltæknibúnað sem til staðar er fyrir hvert málanna.

Stöndum með móðurmálunum
Það ríkir mikil pólitísk samstaða um að vekja sem flesta til vitundar um mikilvægi þess að efla móðurmálið. Við getum, hvert og eitt okkar, tekið þátt í að þróa tungumálið okkar, móta það og nýta á skapandi hátt. Það er ánægjulegt að við getum lagt okkar af mörkum á þeirri vegferð til frændþjóða okkar – því öll eigum við það sammerkt að vilja að móðurmálin okkar dafni og þróist til framtíðar.
Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta