Átta milljarða kostnaður vegna eineltis
Unga fólkið okkar er farið að huga að skólavetrinum og kennarar og skólastjórnendur eru í óðaönn að undirbúa skólastarfið. Flestir hugsa til skólasetningar með ákveðinni tilhlökkun en því miður fylla þau tímamót suma nemendur bæði kvíða og óöryggi. Við vitum að líðan nemenda í íslenskum grunnskólum er almennt góð; samkvæmt könnun Rannsóknastofu í tómstundafræðum við Háskóla Íslands líður um 90% grunnskólanemenda vel eða þokkalega í skólanum en fyrir þá nemendur, og aðstandendur þeirra, sem ekki tilheyra þeim hópi skiptir slík tölfræði litlu.
Einn af þeim þáttum sem haft geta áhrif á vellíðan nemenda í skólum er einelti. Sýnt er að einelti getur haft áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu þolenda og neikvæð áhrif á sjálfsmynd og sjálfstraust. Þar getur skapast langvarandi vandi sem sumir vinna ekki úr fyrr en á fullorðinsárum. Í Svíþjóð hefur farið fram mat á kostnaði sem samfélagið verður fyrir vegna eineltis og var þar miðað við eitt ár af einelti og afleiðingar þess næstu 30 ár á eftir. Miðað við tíðni eineltis var þar áætlað að fyrir grunnskóla með 300 nemendur mætti búast við samfélagslegum kostnaði sem næmi rúmlega 50 milljónum króna. Ef þær tölur eru yfirfærðar á íslenskar aðstæður má ætla að heildarkostnaður samfélagsins vegna eineltis næmi allt að átta milljörðum króna yfir slíkt 30 ára tímabil. Það er því mikið í húfi fyrir samfélagið að vinna gegn einelti.
Skilningur á einelti og afleiðingum þess hefur aukist en það er staðreynd að allt of margir upplifa slíkt í okkar samfélagi, þótt tíðni eineltis í íslenskum skólum mælist lág í alþjóðlegum samanburði. Einelti felur í sér langvarandi og endurtekið ofbeldi og það fer mjög oft fram þar sem fullorðnir sjá ekki til. Þannig getur einelti verið atburðarás margra atvika sem hvert um sig virka ekki alvarleg en þegar heildarmyndin er skoðuð er raunin önnur. Einelti getur verið flókið og erfitt viðureignar en eitt mikilvægasta tækið gegn því eru forvarnir og fræðsla. Það er viðvarandi verkefni að halda góðum skólabrag og þar þurfa allir að leggjast á eitt; nemendur, starfsfólk og foreldrar. Einelti á aldrei að líðast, hjálpumst að við að uppræta það.