Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. ágúst 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Mikilvægasta starfið

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 27. ágúst 2019.

Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og það kerfi er borið uppi af kennurum sem með sínum störfum leggja grunn að annarri fagmennsku í samfélaginu. Rúmlega 550 nýnemar hófu nám sitt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands í vikunni, en kennaranám er einnig í boði við þrjá aðra háskóla hér á landi. Umsóknum um kennaranám fjölgaði verulega milli ára, alls um rúmlega 200 á landinu öllu. Hlutfallslega var aukningin mest hjá Listaháskóla Íslands þar sem umsóknum um nám í listkennsludeild fjölgaði um 170% milli ára, en umsóknum um grunnnám í grunnskólakennarafræðum við Háskóla Íslands fjölgaði um 45%. Karlkyns umsækjendum fjölgar í þeim hópi en um helmingi fleiri karlar sóttu um grunnskólakennaranám í Háskóla Íslands en í fyrra og þrefalt fleiri í nám í leikskólakennarafræðum. Þá fjölgaði einnig umsóknum um nám leiðsagnakennara. Það er mér mikið fagnaðarefni að vísbendingar eru um að aðgerðir sem við réðumst í sl. vor til þess að fjölga kennurum séu þegar farnar að skila árangri.

Auk mikillar fjölgunar umsókna um kennaranám er staðfest að vel gekk að útvega kennaranemum á lokaári launaðar starfsnámsstöður. Til þess að mæta áskorunum framtíðarinnar þurfum við enn fleiri fjölhæfa og drífandi kennara og það er einkar ánægjulegt að fleiri íhugi nú að starfa á þeim vettvangi.

Það er forgangsmál okkar að efla starfsumhverfi kennara hér á landi og auka gæði skólastarfs. Í því tilliti munu ný lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik, grunn og framhaldsskóla taka gildi í janúar á næsta ári. Með þeim er lögfestur hæfnirammi um menntun og hæfni kennara og skólastjórnenda, í takt við alþjóðlega þróun, sem lýsir betur þeirri hæfni sem kennarar þurfa að búa yfir til samræmis við þá ábyrgð sem felst í starfi þeirra. Lögin eru mikilvægt skref í þá átt að tryggja betur réttindi og starfsöryggi kennara óháð skólastigum og sveigjanleika innan skólakerfisins.

Frumvarpið eykur ennfremur ábyrgð skólastjórnenda til þess að velja inn þá kennara sem búa yfir þeirri hæfni, þekkingu og reynslu sem þeir leitast eftir hverju sinni. Þannig er stuðlað að aukinni viðurkenningu á störfum kennara og faglegu sjálfstæði þeirra sem aftur verður til þess að efla skólaþróun og fjölga tækifærum fyrir skólafólk.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta