Fjárfest til framtíðar
Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 22. október 2019.
Staða ríkissjóðs er sterk, hagvöxtur hefur verið mikill á Íslandi síðustu ár og atvinnuleysi lítið í alþjóðlegum samanburði. Heildarskuldir ríkisins hafa lækkað mjög hratt frá fjármálahruni; þær voru um 90% af landsframleiðslu en eru nú um 30%. Stöðugleikaframlög, aðferðafræði við uppgjör föllnu bankanna og öguð fjármálastjórn síðustu ára hafa átt ríkan þátt í því að þessi hagfellda staða er uppi í ríkisfjármálum. Hrein erlend staða, erlendar eignir þjóðarbúsins umfram erlendar skuldir, hefur þó aldrei verið betri. Staðan var jákvæð um tæplega 630 ma.kr. eða 22% af landsframleiðslu í lok annars ársfjórðungs þessa árs og batnaði um 10 prósentur á fyrri hluta ársins.
Þrátt fyrir góð teikn ríkir töluverð óvissa um innlenda efnahagsþróun á komandi misserum bæði af innlendum orsökum og sakir aukinnar óvissu um alþjóðlegar hagvaxtarhorfur og þróun á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Ríkisfjármálin taka mið af þessari stöðu og stefnt er að því að afgangur af heildarafkomu ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu verði að lágmarki í jafnvægi árin 2020 og 2021, en afgangur verði um 0,3% árið 2022. Brýnt er að mæta þörfum efnahagslífsins til samræmis við breyttar horfur án þess þó að vikið verði tímabundið frá fjármálareglum um afkomu og skuldir eins og lög um opinber fjármál heimila. Vegna góðrar stöðu ríkisfjármála verður til svigrúm sem veitir stjórnvöldum tækifæri til að vinna gegn niðursveiflu með öflugri opinberri fjárfestingu og ráðast í ýmsar innviðafjárfestingar á næstu misserum. Spá Seðlabanka Íslands gerir ráð fyrir að fjárfestingar hins opinbera aukist á næstu árum.
Meðal innviðafjárfestinga sem tengjast mennta- og menningarmálaráðuneytinu má nefna byggingu Húss íslenskunnar sem nú er í fullum gangi, byggingu félagsaðstöðu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja, viðbyggingu við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, uppbyggingu við Menntaskólann í Reykjavík og við menningarhús á Sauðárkróki og Egilsstöðum. Meðal annarra mikilvægra fjárfestingaverkefna má einnig nefna máltækniáætlun stjórnvalda. Margar þessara framkvæmda eru löngu tímabærar og markmið þeirra allra að efla menntun og menningu í landinu.