Aukin tækifæri fagmenntaðra
Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 28. nóvember 2019.
Mannauðurinn er okkar mikilvægasta auðlind. Lagabreyting um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi sem samþykkt hefur verið í ríkisstjórn og liggur nú fyrir á Alþingi er mikið heillaskref fyrir íslenskt atvinnulíf og fagfólk í lögvernduðum störfum.
Frumvarpið felur í sér að tekið verði upp evrópskt fagskírteini hér á landi sem mun auðvelda til muna viðurkenningu á faglegri menntun. Um er að ræða rafrænt skírteini sem staðfestir menntun umsækjanda og rétt hans til tiltekinna starfa í heimalandinu. Með fagskírteininu standa vonir til að hraða megi málsmeðferð við viðurkenningu faglegrar menntunar og gera afgreiðslu slíkra umsókna umtalsvert skilvirkari. Þá geta umsækjendur einnig aflað sér viðurkenningar til þess að sinna ákveðnum þáttum viðkomandi starfa. Þannig mun sveigjanleiki aukast en um leið er skýr áhersla á fagmenntun sem efla mun vinnumarkaðinn.
Með þessari lagabreytingu verða ekki grundvallarbreytingar á tilhögun viðurkenningar, réttur fólks til viðurkenningar er hinn sami og áður, en tekin eru skref til að tryggja að framkvæmdin verði einfaldari og skjótvirkari. Umrædd lagabreyting mun þannig einfalda og hraða afgreiðslu mála sem tengjast viðurkenningu starfsréttinda og stuðla að fleiri tækifærum. Áfram eru gerðar kröfur um menntun og hæfi, t.d. fyrir helstu heilbrigðisstéttir en mikill akkur er í því að þessi viðmið séu betur samræmd milli landa.
Frumvarpið er mikið framfaraskref fyrir nemendur í starfsnámi sem munu fá vinnustaðanám innan löggiltra starfsgreina viðurkennt milli landa. Þetta er enn einn liðurinn í því að efla starfsnám og forgangsraða í þágu þess. Þá er ennfremur fjallað um miðlun upplýsinga til innflytjenda um lögvernduð störf og skilyrði fyrir lögverndun starfsgreina í frumvarpinu.
Heimspekingurinn John Stuart Mill sagði: „Öll efling menntunar stuðlar að jöfnuði því að menntunin veitir aðgang að sama sjóði þekkingar og skoðana.“ Ljóst er að verulegar breytingar eru í vændum á vinnumarkaði vegna örra tæknibreytinga en þær fela í sér mikil tækifæri fyrir þjóðir sem forgangsraða í þágu gæða menntunar. Til að mæta þeim áskorunum þurfum við að huga vel að sveigjanleika og samspili vinnumarkaðarins og menntakerfisins, nálgast þau mál heildrænt og í virku samhengi við þróun þeirra annars staðar í heiminum.