Sterkir fjölmiðlar skipta sköpum
Miklar breytingar hafa orðið á rekstrarumhverfi fjölmiðla með tilkomu samfélagsmiðla og nýrra miðlunarleiða. Flestir fjölmiðlar byggja afkomu sína á auglýsingum og áskriftum og þegar báðir tekjustraumarnir minnka verulega verður staðan erfið. Tekjusamdrátturinn er rakinn annars vegar til þess að sífellt stærri hluti auglýsinga er birtur á vefjum erlendra stórfyrirtækja og hins vegar aukins framboðs á ókeypis fjölmiðlaefni.
Stjórnvöld víða um heim hafa brugðist við þessari þróun með því að veita fjölmiðlum styrki eða bætt rekstrarumhverfi þeirra með öðrum hætti. Sömuleiðis hafa Norðurlandaþjóðir verið í fararbroddi í stuðningi við fjölmiðlun um áratuga skeið. Í upphafi miðaðist hann einkum að dagblöðum en hefur á síðustu árum einnig tekið til annarra tegunda fjölmiðlunar, svo sem netmiðla og hljóð- og myndmiðla.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram fyrirheit um að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Því hefur verið smíðað frumvarp þess efnis sem er í þinglegri meðferð. Markmið frumvarpsins er að efla stöðu íslenskra fjölmiðla með því að styðja við og efla útgáfu á fréttum, fréttatengdu efni og umfjöllun um samfélagsleg málefni. Til að ná því markmiði er gert ráð fyrir að heimilt sé að veita einkareknum fjölmiðlum fjárhagslegan stuðning sem felst í því að endurgreiða þeim hluta þess kostnaðar sem fellur til við að afla og miðla slíku efni.
Stuðningurinn verður annars vegar í formi endurgreiðslu á allt að 18% af launakostnaði viðkomandi fjölmiðils vegna ritstjórnarstarfa og hins vegar í formi 4% sérstaks stuðnings, sem einnig er miðaður við tiltekið hlutfall af launakostnaði. Einnig er gert ráð fyrir að endurgreiðsla til fjölmiðils geti ekki orðið hærri en 50 milljónir króna, en ekki er þak á sérstökum stuðningi sem miðast við 4% af framangreindum launakostnaði.
Vert er að taka fram að endurgreiðsluþáttur frumvarpsins er í anda annarra kerfa sem stjórnvöld hafa sett á laggirnar á síðustu árum til að styðja við menningu á Íslandi og nefni ég þar endurgreiðslur er varðar kvikmyndir, hljóðritun og bókaútgáfu. Einnig má nefna styrki til nýsköpunarfyrirtækja. Hér er um að ræða endurgreiðslu á kostnaði úr ríkissjóði til einkaaðila hvort heldur í menningar- eða í nýsköpunarstarfsemi. Ég vonast til þess að sá stuðningur sem frumvarpið gerir ráð fyrir geri fjölmiðlum kleift að efla ritstjórnir sínar, vera vettvangur skoðanaskipta og tjáningarfrelsis og með þeim hætti rækja hlutverk sitt sem einn af hornsteinum lýðræðisins.
Mál þetta hefur verið á döfinni í mörg ár en því hefur ávallt verið ýtt til hliðar. Nú hlakka ég til að fylgja þessu frumvarpi eftir því það er heillaspor fyrir íslenska fjölmiðlun í heild sinni.