Ísland í fremstu röð II
Í upphafi 20. aldarinnar stóð íslenska þjóðin á tímamótum. Hún stefndi að því að ráða sínum málum sjálf og framfarir í menntamálum voru nauðsynlegar til að þjóðin gæti staðið undir sjálfstæði sínu. Forystufólk þessa tíma var mjög meðvitað um mikilvægi menntunar enda hófst stórsókn í skólamálum með stofnun gagnfræðaskóla í þéttbýli og héraðsskóla í strjálbýli, Háskóli Íslands var settur á laggirnar 1911 og fræðslulög 1907. Með þessu hugarfari sóknar þurfum við að fara inn í 21. öldina. Menntun verður lykillinn að tækifærum framtíðarinnar og því tel ég nauðsynlegt að fara í þær umbætur og aðgerðir sem hér eru kynntar.
Hugarfar nemenda til menntunar
Jákvætt viðhorf til eigin getu hefur mikil áhrif á árangur. Þeir nemendur sem álíta að hæfileikar þeirra og hæfni séu föst stærð eru líklegri til þess að gefast upp á flóknari verkefnum og vilja forðast erfiðleika og áskoranir. Niðurstöður sýna að 73% íslenskra nemenda sem tóku þátt í síðustu PISA-könnunarprófunum eru með svokallað vaxtarviðhorf; þau trúa að með vinnusemi, góðum aðferðum og hjálp frá öðrum geti þau þróað hæfni sína og getu. Þetta hugarfar er bæði dýrmætt og gagnlegt því af því leiðir að auðveldara er að bæta árangur nemenda. Til að koma Íslandi í fremstu röð í menntamálum er brýnt að skoða alla þá þætti sem geta aukið möguleika hvers nemanda því allir geta lært, og allir skipta máli.
Fagráð stofnuð
Brýnt er að auka fagþekkingu og styðja við starfsþróun kennara í þeim efnum. Ég hef nú þegar skipað öflugt fagráð í stærðfræði og hyggst gera slíkt hið sama fyrir íslensku og náttúrufræði. Fagráðin verða skipuð okkar færasta fólki og er markmið þeirra að gera tillögur um eflingu námssviðanna, starfsþróun, námsgögn og aukna samfellu allra skólastiga. Fagráðin munu einnig vera Menntamálastofnun til ráðgjafar við mótun og útfærslu námsgagna, verkefna um eflingu náms- og kennsluhátta, starfsþróun og ráðgjöf í skólum.
Fjölgum tímum í náttúrufræði
Á Íslandi eru fæstar kennslustundir í móðurmáli á miðstigi grunnskóla miðað við hin norrænu löndin og því viljum við breyta líkt og fjallað var um í síðustu grein minni. Sama er að segja um náttúrufræði, Ísland er með fæstar kennslustundir af Norðurlöndunum í náttúrufræði á unglingastigi og ef við horfum lengra eru kenndir 160% fleiri tímar í náttúruvísindum á miðstigi í Eistlandi en hér á landi. Við ætlum að leggja aukna áherslu á mikilvægi þessara greina í viðmiðunarstundaskrá. Aðstæður til kennslu í náttúruvísindum hér á landi eru einstakar og brýnt að leita leiða til þess að nýta þau tækifæri betur til fræðslu fyrir nemendur í grunnskólum. Ísland hefur alla burði til að vera leiðandi á sviði náttúruvísinda enda eigum við vísindamenn á heimsmælikvarða, m.a. á sviðum jökla- og eldafjallarannsókna, hafrannsókna og loftslagsmála og það verður kappsmál okkar að fjölga starfandi kennurum í náttúrufræði. Aðgerðir sem miða að eflingu þessara greina hyggjumst við vinna í góðu samráði, ekki síst við nemendurna sjálfa.
Starfsþróun kennara og skólastjórnenda
Við horfum til þess að stórefla starfsþróun kennara og skólastjórnenda hér á landi með markvissum hætti í samstarfi meðal annars við Kennarasamband Íslands, kennaramenntunarstofnanir, skólastjórnendur og Samband íslenskra sveitarfélaga. Öflug starfsþróun kennara er grundvöllur framfara í menntakerfinu okkar og mikilvægur liður í því að gera starfsumhverfi kennara framúrskarandi. Ekki hefur legið fyrir sameiginleg framtíðarsýn á málefni starfsþróunar t.d. milli ólíkra skólastiga og rekstraraðila skóla en nú eru komnar fram tillögur í þá veru. Tillögurnar eru fjölbreyttar og tengjast m.a. ráðuneytinu, sveitarfélögum, menntun kennara og skólunum sjálfum. Það er mjög dýrmætt að fá þær til umfjöllunar og útfærslu, ekki síst í samhengi við ný lög um menntun og hæfni kennara og skólastjórnenda sem taka munu gildi í ársbyrjun 2020.
Eflum menntarannsóknir
Starfræktir eru margir sjóðir sem veita styrki til málefna sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Einnig er fyrir hendi Félag um menntarannsóknir (FUM) sem stendur fyrir umræðu um menntarannsóknir og kemur að útgáfu Tímarits um menntarannsóknir. Meðal markmiða félagsins er að efla þekkingu og færni félagsmanna til að leggja stund á rannsóknir á menntamálum og stuðla að útbreiðslu þekkingar á rannsóknum og þróunarstarfi. Breytingar á menntakerfi og menntastefna þurfa að byggjast á rannsóknum og því hyggjumst við leita leiða til að efla menntarannsóknir í samvinnu við háskóla, FUM, Kennarasambandið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Stefna stjórnvalda í vísindamálum í gegnum innlenda samkeppnissjóði þarf einnig að taka mið af áherslu á menntarannsóknir á Íslandi.
Íslenskan í sókn
Aðgerðaáætlun sem byggist á þingsályktun um hvernig efla megi íslensku sem opinbert mál hér á landi verður kynnt á næstu misserum. Meðal þeirra aðgerða sem þar eru sérstaklega tilgreindar eru mótun tillagna um stuðning við starfsemi skólabókasafna, þróun og aðgengi að rafrænu kennsluefni í íslensku, endurskoðun fyrirkomulags námsgagnagerðar og hvernig styrkja megi stöðu nemenda með annað móðurmál en íslensku og stuðla að jákvæðri umræðu og fræðslu í samfélaginu um fjölbreytileika tungumálsins. Þar er einnig fjallað um mikilvægi læsis og lesskilnings fyrir tungumálið okkar. Lesskilningur leggur grunn að öðru námi og markmið okkar er að leggja mun meiri áherslu á þjálfun hans í öllum námsgreinum því ef hugsun og skilningur á móðurmálinu er frjór og fjölbreyttur erum við betur í stakk búin til þess að læra og meðtaka aðra þekkingu.
Skýrara námsmat
Það er áherslumál okkar að efla námsmat og endurgjöf til nemenda og kennara. Ljóst er að miðla þarf betur til nemenda, foreldra og skólafólks hvernig haga skuli námsmati og notkun hæfniviðmiða í grunnskólum. Mikið er í húfi að allir geti nýtt sér þau og að framsetning þeirra og endurgjöf skóla sé skýr og skilvirk; þannig er líklegra að allir nái betri árangri í námi. Á næstunni munum við kynna tillögur sem að því lúta og niðurstöður könnunar sem gerð var á innleiðingu aðalnámskrár grunnskólanna. Einnig verða brátt kynntar tillögur starfshóps um markmið og hlutverk samræmdra könnunarprófa. Sú gagnaöflun og greiningarvinna sem hefur átt sér stað að undanförnu mun nýtast vel við að efla menntakerfið okkar. Fjölmargir hafa komið að þeirri vinnu og kann ég þeim góðar þakkir fyrir mikilvægt framlag.
Okkar bíða spennandi verkefni
Niðurstöður síðustu PISA-könnunar sýna okkur að meirihluti íslenskra nemenda hefur sterka hvöt til þess að ná góðum tökum á verkefnum, trú á getu sinni, þau setja sér metnaðarfull markmið, leggja mikið upp úr mikilvægi menntunar og eru líkleg til að klára háskólanám. Okkar bíða sannarlega spennandi verkefni og mörg þeirra eru vissulega flókin. En með réttu hugarfari og trú á verkefnunum sem fram undan eru mun árangurinn ekki láta á sér standa. Setjum markið hátt og vinnum að því saman að vegur þjóðarinnar og tækifæri séu tryggð. Styrkjum menntakerfið með markvissum aðgerðum sem tryggja að lífskjör og velsæld verði góð á 21. öldinni.