Vísindi fólksins í landinu
Hugmyndafræði lýðvísinda byggist á sjálfsprottnum áhuga almennings á að taka þátt í vísindum, oftast í sjálfboðaliðastarfi. Hugtakið er tiltölulega nýtt af nálinni en lýðvísindi á Íslandi hafa nú þegar skilað miklu til rannsókna. Gott dæmi um slíkt samstarf vísindamanna og almennings er starfsemi Jöklarannsóknafélags Íslands. Þetta samstarf hefur notið verðugrar athygli og eflt jöklarannsóknir á Íslandi. Sjálfboðaliðar á vegum félagsins hafa stundað mælingar á hopi og framskriði jökla frá miðri síðustu öld, og þannig safnað mikilvægum gögnum um áhrif loftslagsbreytinga á íslenska jökla um áratuga skeið.
Auk þess má nefna mörg dæmi um frjáls félagasamtök og félög aðstandenda sjúklinga sem hafa lagt mikið af mörkum til vísinda með því að safna fé og hvetja til umræðu um algenga jafnt sem sjaldgæfa sjúkdóma og þannig stutt dyggilega við og hvatt til rannsókna á þeim. Vísinda- og tækniráð hefur í stefnu sinni jafnframt lagt sterka áherslu á opin vísindi og miðlun vísindalegra gagna og niðurstaðna til samfélagsins. Þess má einnig geta að ný stefna ráðsins er nú í smíðum og mun birtast á vormánuðum. Þar er miðlun vísindastarfs og þátttaka almennings í vísindastarfi eitt af leiðandi stefum stefnunnar.
Það er hlutverk okkar sem störfum á þessum vettvangi, hvort sem það er við stefnumótun um vísindamál eða framkvæmd rannsókna, að virkja og efla þekkingu almennings á vísindastarfi og hvetja til samtals milli vísindamanna og borgaranna. Ég tel einnig mikilvægt að auka sýnileika lýðvísinda í vísindaumræðunni og hvetja til þátttöku almennings í vísindastarfi í breiðasta skilningi þess orðs.
Ísland stendur jafnframt framarlega í alþjóðlegu vísindasamstarfi og hafa stjórnvöld lagt áherslu á að bæta stoðkerfi rannsókna og vísinda enn frekar ásamt því að auka möguleika íslenskra vísindamanna í alþjóðlegu samstarfi. Íslenskir vísindamenn og stofnanir búa yfir dýrmætri reynslu og þekkingu á fjölmörgum sviðum. Það eru miklir hagsmunir fólgnir í því fyrir Ísland að taka þátt í alþjóðlegu vísindasamstarfi tengdu norðurslóðum.
Rannsóknir, vísindi og hagnýting hugvits eru forsendur fjölbreytts atvinnulífs, velferðar og styrkrar samkeppnisstöðu þjóða. Á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar og loftslagsbreytinga verða lýðvísindi þjóðum sífellt mikilvægari. Þau hvetja til læsis á vísindalegum upplýsingum, þjálfa gagnrýna hugsun og færa vísindin til fólksins í landinu. Einnig geta lýðvísindi vakið áhuga unga fólksins okkar á vísindum og starfsframa innan þeirra. Síðast en ekki síst eru lýðvísindi mikilvæg í að auka færni vísindamanna í að miðla upplýsingum um rannsóknir og niðurstöður þeirra til almennings og eins að hlusta á raddir hins almenna borgara um áherslur í vísindastarfi.