Öflugt laganám grunnstoð öflugs réttarkerfis
Við endurreisn þjóðríkisins var Íslendingum afar mikilvægt að landið væri stjórnarfarslega sjálfstætt. Árið 1919 tóku Íslendingar æðsta dómsvald þjóðarinnar í sínar hendur og Hæstiréttur Íslands tók til starfa 16. febrúar 1920. Með því voru öll skilyrði þjóðríkis uppfyllt. Laganemar hafa lengi litið á 16. febrúar sem hátíðisdag, enda markaði hann heimkomu íslenska dómsvaldsins. Á morgun er því dagur laganema, en í þetta sinn er hann sérlega merkilegur í ljósi aldarafmælis Hæstaréttar.
Hér á landi tók Lagaskólinn til starfa árið 1908 eftir rúmlega hálfrar aldar baráttu Íslendinga fyrir því að lagakennsla flyttist frá Danmörku til Íslands. Lagaskólinn starfaði í þrjú ár en enginn brautskráðist þó frá skólanum þar sem nemendur gengu inn í Lagadeild Háskóla Íslands við stofnun hans árið 1911.
Lögfræðimenntun hefur gjörbreyst síðan þá. Fjölbreytni í laganámi hefur aukist með tilkomu nýrra háskóla og samkeppni skóla á milli sem bjóða upp á framsækið og áhugavert laganám. Breytileikinn er jákvæður enda er mikilvægt að nemendur hafi val og jöfn tækifæri til náms. Það er ein af grunnforsendum réttláts samfélags.
Réttarkerfið okkar og íslenskt laganám styður einnig við og stuðlar að vexti móðurmálsins. Þegar Lagaskólinn var settur skorti íslenska tungu mörg meginhugtök lögfræðinnar. Nú rétt fyrir áramót var aftur á móti rafrænu lögfræðiorðasafni hleypt af stokkunum og gert aðgengilegt á vefsíðu Árnastofnunar. Það mun án efa nýtast komandi kynslóðum.
Frumvarp um Menntasjóð námsmanna er nú í höndum þingsins og það felur í sér grundvallarbreytingu á stuðningi við námsmenn. Frumvarpið miðar að því að jafna stuðning og dreifingu styrkja ríkisins til námsmanna sem taka námslán. Sérstaklega er hugað að hópum sem búa við krefjandi aðstæður, s.s. einstæðum foreldrum, fjölskyldufólki og námsmönnum utan höfuðborgarsvæðisins.
Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur starfað í yfir fimmtíu og átta ár og er sjóðurinn í góðu ásigkomulagi. Sú staða skapar kjöraðstæður til kerfisbreytinga, sem námsmenn hefur lengi dreymt um. Þeir hafa um áratuga skeið barist fyrir betri kjörum, auknum réttindum og jöfnum tækifærum til náms. Með fyrirhugaðri breytingu viljum við auka gagnsæi, fyrirsjáanleika og skipta gæðum með réttlátari hætti milli námsmanna.
Með stofnun Hæstaréttar fyrir hundrað árum voru mörkuð tímamót. Dómsvald fluttist heim og rétturinn hefur haldið vel á því í heila öld. Skrefin sem þá voru stigin skildu eftir sig gæfuspor og urðu haldreipi í samfélagsþróun sem er um margt einstök. Aukin velsæld og réttlæti haldast í hendur og okkur ber að skapa aðstæður, þar sem fólk fær jöfn tækifæri til að rækta hæfileika sína. Í þeirri vegferð er jákvætt hugarfar þjóðarinnar besta veganestið.