Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. mars 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Mikilvægur stuðningur við námsmenn

Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 24. mars 2020

Samfélagið tekst nú á við krefjandi tíma, þar sem ýmsir upplifa óvissu yfir komandi vikum. Það á jafnt við um námsmenn og aðra, enda hafa takmarkanir á skólahaldi reynt á en líka sýnt vel hvers menntakerfið er megnugt. Leik- og grunnskólar taka á móti sínum nemendum og framhalds- og háskólar sinna fullri kennslu með aðstoð tækninnar.

Á vandasömum tímum er mikilvægt að tryggja vellíðan nemenda og sporna við brotthvarfi úr námi. Skólastjórnendur, kennarar, starfs- og námsráðgjafar og fleiri hafa þegar brugðist við og gripið til aðgerða til að halda nemendum virkum, til dæmis með hvatningar- og stuðningssímtölum, rafrænum samskiptum og fundum, þar sem því hefur verið komið við.

Fyrir nokkrum vikum ákvað stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna, í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneyti, að koma til móts við nemendur með því að taka til greina annars konar staðfestingu skóla á ástundun nemenda en hefðbundnum vottorðum um loknar einingar. Jafnframt var ákveðið að námsmenn gætu sótt um aukaferðalán vegna sérstakra aðstæðna sem gætu komið upp vegna faraldursins. Þessi fyrstu skref sýndu mikinn samstarfsvilja hjá LÍN. Um viku síðar varð ljóst að takmörkun á skólastarfi yrði enn meiri en upphaflega var ráðgert og aftur brást LÍN fljótt við, hækkaði tekjuviðmið, seinkaði innheimtuaðgerðum og breytti reglum við mat á undanþágum. Allt miðar þetta að því að sýna sveigjanleika og létta á áhyggjum námsmanna við fordæmalausar aðstæður.

Þessi viðhorf eru mjög anda frumvarps til nýrra laga um Menntasjóð námsmanna, sem miðar að því að bæta hag námsmanna. Frumvarpið er til meðferðar hjá Alþingi og verður væntanlega að lögum á þessu þingi. Það felur í sér grundvallarbreytingu á stuðningi við námsmenn, mun leiða til betri fjárhagsstöðu námsmanna og lægri skuldastöðu að námi loknu. Til dæmis fá foreldrar í námi fjárstyrk en ekki lán til að framfleyta börnum sínum. Jafnframt er hvati til bættrar námsframvindu, með 30% niðurfærslu á láni ef námi er lokið innan tiltekins tíma. Það stuðlar að betri nýtingu fjármuna, aukinni skilvirkni og þjóðhagslegum ávinningi fyrir samfélagið. Heimilt verður að greiða út námslán mánaðarlega og lánþegar geta valið hvort lánin séu verðtryggð eða óverðtryggð.

Öll þessi atriði leggja mikið á vogarskálarnar þegar kemur að því að styðja við námsmenn á erfiðum tímum. Nú þurfum við að gera það sem þarf, horfa fram á við og tryggja að námsstuðningur hins opinbera stuðli að jafnrétti til náms.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta