Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. apríl 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Nú er tíminn til að lesa

Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 2. apríl 2020

Íslensk heimili takast nú á við breyttan veruleika. Margir hinna fullorðnu vinna heima samhliða því að sinna börnum dauðlangar aftur í skólann og á íþróttaæfingar. Sjaldan hefur verið eins mikilvægt að rækta líkama og sál, fara út að hlaupa, taka veirufrían klukkutíma eða lesa.
Það er nefnilega sumt sem breytist ekki og hefur fylgt þjóðinni frá örófi alda. Við erum bókaþjóð. Við skrifum, lesum og syngjum, oft til að komast í gegn um erfiðleika sem að okkur steðja. Við vitum hversu miklu máli skiptir að rækta þessa hefð, ekki síst í ljósi þess að lesskilningur er sérstaklega mikilvægur fyrir börn. Námsárangur þeirra til lengri tíma ræðst að miklu leyti af lesskilningi þeirra, sem eykst með ástundum. Hér gildir hið fornkveðna, að æfingin skapi meistarann.

Með lestri ræktar þjóðin einnig menningararf sinn. Hver bók tekur mann í manns eigið ævintýri. Hver blaðsíða eflir orðaforðann, kveikir nýjar hugmyndir, eykur skilning og veitir þannig betri aðgang að heiminum öllum. Þannig gegna íslenskir rithöfundar og þýðendur gríðarlega mikilvægu samfélagshlutverki. Það eru þeir sem bjóða okkur að ferðast um heiminn þar sem sitjum á sama stað með bók í hönd, í sóttkví eða samkomubanni. Það er þeim og blómlegri bókaútgáfu að þakka, að á mörgum heimilum eru bókahillur fullar af kræsingum fyrir lesendur á öllum aldri. Þar ægir saman Jóni Kalmann, Ævari vísindamanni, Steinunni Sigurðardóttir, Halldóri Laxness yngri og eldri, Guðrúnu Helgadóttur og öllum hinum frábæru rithöfundunum og skáldunum. Hvort sem lögreglumaðurinn Erlendur, grallarinn Fíasól, Bjartur í Sumarhúsum eða ungfrúin Hekla hafa fangað athygli okkar, þá veita þau frelsandi hvíld frá amstri og áhyggjum hversdagsins. Við þurfum á því að halda einmitt nú.

Allt ofangreint var hvatinn að nýju þjóðarátaki, sem mennta- og menningarmálaráðuneytið hleypti af stokkunum í gær undir yfirskriftinni Tími til að lesa. Heitið er dregið af þeirri staðreynd, að nú hafi margir meiri tíma en áður til að lesa og þörfin hafi sjaldan verið meiri á að rækta hugann með lestri af öllu mögulegu tagi. Við ætlum að lesa meira en nokkru sinni áður og skrá lesturinn á vefsíðuna timitiladlesa.is á hverjum degi til 30. apríl. Að átakinu loknu ætlum við að freista þess að fá árangurinn skráðan í heimsmetabók Guinness, líkt og sæmir bóka- og lestrarþjóðinni í norðri.

Nú þarf að virkja keppnisskapið, og ef vel tekst til gæti verkefnið orðið góður vitnisburður bókaþjóðarinnar Íslendinga um allan heim. Og nú, eftir lestur þessa pistils, getur þú bætt inn 5 mínútum inn á þitt nafn á vefnum timitiladlesa.is! Munum að þrátt fyrir frostið, þá er samt að koma vor – það birtir til. Áfram Ísland!

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta