Lýðheilsa snertir okkur öll
Þjóðin stendur nú frammi fyrir mikilli áskorun. Allir hafa þurft að breyta hegðun sinni og venjum. Fullorðnir vinna heima, skólahald barna er með skertum hætti og sum börn læra í fjarkennslu. Dagarnir líða hægt, áhyggjurnar eru víða miklar og álagið eykst. Aldrei fyrr hefur verið eins mikilvægt og nú að við stöndum saman og hlúum hvert að öðru. Hver og einn þarf að rækta líkama og sál. Nú skiptir öllu máli að efla lýðheilsu Íslendinga.
Viðmót Íslendinga í faraldrinum er aðdáunarvert. Umburðarlyndi og baráttuvilji er allt umlykjandi. Fólk fer í göngutúra eða út að hlaupa, en fylgir sóttvarnaleiðbeiningum vel. Líkamsræktartæki eru víða uppseld og fjarþjálfun hefur sjaldan verið jafn vinsæl. Þjóðin virðist einhuga um að hlúa vel að líkamlegri heilsu og efla hana enn frekar. Nú þegar hefðbundið íþróttastarf hefur verið fellt niður er jafnframt afar mikilvægt að virkja börnin okkar í hreyfingu. Rannsóknir hér á landi hafa einmitt sýnt að íþróttir eru mikilvægar í uppeldi barna og ungmenna. Einnig hefur verið sýnt fram á sterkt samband á milli aukinnar hreyfingar og frammistöðu í námi.
Áframhaldandi hvatning og vitundarvakning um heilsueflingu er því okkur öllum mikilvæg. Við ættum að nýta öll slík tækifæri, ekki síst þegar þau sameina okkur og henta öllum aldurshópum. Nýtt verkefni mennta- og menningarmálaráðuneytis er einmitt eitt slíkt tækifæri. Verkefnið „Tími til að lesa“ á vel við þessa dagana. Nú er nægur tími til að lesa góðar bækur, lesa með börnunum eða hlusta á hljóðbók. Með lestrinum ræktar þjóðin menningararf sinn, styður við skapandi stétt rithöfunda og skálda. Því meira sem við lesum því betra! Munum svo að skrá þetta allt niður á vefsíðunni www.timitiladlesa.is og setjum heimsmet í lestri!
Snör viðbrögð listamanna hafa einnig gert mikið til að létta lund landans. Leiksýningar eru komnar inn á stofugólf, tæknin gerir okkur kleift að kíkja rafrænt í söfn landsins og sköpunargleði Íslendinga blómstrar sem aldrei fyrr. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Harpa sjá fyrir reglulegu tónleikastreymi og Helgi Björns skemmtir landanum á laugadagskvöldum. Allt þetta veitir kærkomið frí frá áhyggjum og amstri dagsins. Allt þetta helst því í hendur við að efla og bæta lýðheilsu landsmanna.
Á erfiðum tímum reynist einnig gott að líta yfir farinn veg og þakka fyrir það sem er jákvætt. Við erum heppin að búa á landi sem er ríkt af gæðum. Land víðernis og náttúruauðlinda, hreinleika og heilbrigðis, fegurðar og gróðursældar. Nú sannast enn og aftur mikilvægi sjálfbærar matvælaframleiðslu. Íslenskur landbúnaður er þar lykillinn að velgengni. Við göngum iðulega að honum sem sjálfsögðum hlut og njótum heilnæmra afurða hans. En það er ekki sjálfgefið að hafa aðgang að matvælum í hæsta gæðaflokki þar sem sýklalyf eru notuð í mun minni mæli en í samanburðarlöndunum. Án landbúnaðarins væri hér lítil sem engin matvælaframleiðsla. Án hans væri ekkert íslenskt kjöt, engin íslensk mjólk, ekkert íslenskt grænmeti. Hrein og næringarrík fæða sem okkur Íslendingum býðst stuðlar enn fremur að bættri lýðheilsu. Nú þegar erfiðleikar steðja að hvet ég ykkur til að hafa þetta ofarlega í huga. Sjálf er ég þakklát fyrir þetta góða samfélag sem við eigum saman.