Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. apríl 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Sterkt íslenskt samfélag sem fjárfestir í framtíðinni

Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 11. apríl

Dugnaður og þrautseigja eru meginstyrkleikar þjóðarinnar. Ljóst er að formæður og -feður hafa oft á tíðum þurft að beita miklu hugviti til að lifa af erfiða tíð og náttúruhamfarir. Eiginleika og þekkingu þjóðarinnar þurfum við að rækta, nýta vel tímann á næstu misserum og styðja við mannauðinn okkar, svo við komum sterk út úr núverandi aðstæðum. Um alla veröld er fólk að fást við farsótt og hvernig verja megi heilbrigði þjóða. Þessi orrusta mun taka tíma en öllu máli skiptir hvernig við verjumst veirunni og hvernig við styrkjum viðnámsþrótt samfélagsins. Íslenskt samfélag hefur alla burði til að standa sterkt ef forgangsraðað er á réttan hátt.

Alþjóðahagkerfið á tímum farsóttar
Alþjóðahagkerfið verður fyrir miklum búsifjum vegna COVID-19. Slökkt hefur verið tímabundið á hagkerfum veraldarinnar vegna farsóttarinnar. Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) telur að heimshagvöxtur dragist saman um 2% á mánuði, þegar algjört samkomubann er í gildi. Samdráttur í landsframleiðslu margra ríkja samkvæmt OECD eru um 15-30% og er ólíkur eftir samsetningu hagkerfa.
Áfallið er af þrennum toga. Eftirspurnaráfall, þar sem eftirspurn eftir vörum og þjónustu hefur hrunið á tímum samkomubanns. Framboðsáfall vegna þess að hin alþjóðlega virðiskeðja hefur rofnað og að lokum fjármálakerfisáfall vegna þeirrar umfangsmiklu óvissu sem hvílir á fjármálamörkuðum. Hrávöruverð hefur hrunið og endurmat á áhættu á sér stað eru fylgifiskar ástandsins. Fjármagnsflæði milli ríkja hefur stóraukist og fjárfestar leita í öryggi. Nýmarkaðsríki upplifa mikinn fjármagnsflótta með þeim afleiðingum að gjaldmiðlar þeirra veikjast og skuldastaða versnar.

Þessi þróun gerir það að verkum að tugir ríkja leita eftir fjárhagsaðstoð til að halda hagkerfi sínu gangandi. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum hefur aukist gríðarlega á stuttum tíma og nú blasa við atvinnuleysistölur sem hafa ekki sést síðan í kreppunni miklu. Velferðarsamfélögin á Norðurlöndunum sýna styrk sinn í þessu áfalli, þar sem heilbrigðiskerfið og atvinnuleysistryggingar grípa fólkið. Þessi kerfi eru að sanna gildi sitt og sátt ríkir innan samfélaganna um að náð sé utan um borgara með þessum hætti. Niðursveiflan verður meiri hjá þeim ríkjum sem hafa ekkert slíkt öryggisnet.

Ísland er sjálfbært
Ísland er lítið og tillögulega opið hagkerfi sem hefur reitt sig á utanríkisviðskipti til að auka hagsæld sína. Alþjóðaviðskipti eru mikilvægari smærri hagkerfum en stórum og því verðum við að einblína á að allar viðskiptaleiðir séu sem greiðastar. Landsframleiðslan er að taka á sig högg en mun rétta úr kútnum. Einkaneysla minnkar verulega á tímum samkomubanns, samneyslan eykst umtalsvert sem viðbragð hins opinbera og svo er verið að auka fjárfestingar. Hins vegar eru viðskiptahættir að taka breytingum, þar sem vöruviðskipti eiga sér stað í auknum mæli í gegnum tækni og neyslumynstur er að breytast. Viðskiptajöfnuðurinn tekur tímabundið breytingum vegna farsóttarinnar. Á þessari stundu vitum við ekki hversu lengi þessar aðstæður vara. Mikill afgangur hefur verið á viðskiptajöfnuði, hrein erlend staða er jákvæð og gjaldeyrisvaraforðinn er mjög myndarlegur. Vegna aðstæðna munu heildargjaldeyristekjur þjóðarbúsins dragast saman tímabundið, en á móti mun innflutningur á þjónustujöfnuðinum líka minnka. Vegna þessa þurfum við að tryggja að vöruviðskipti við okkar helstu viðskiptaríki séu sem greiðust.

Það er okkar gæfa, að hérlendis eru framleidd til útflutnings hágæða matvæli og eftirspurn er viðvarandi. Það skapar meira jafnvægi í greiðslujöfnuði þjóðarbúsins en annars væri. Eðli faraldursins sem skekur heimsbyggðina er þess eðlis, að fólk flytur hana milli landsvæða og ríkja. Við þurfum að búa okkur undir það, að þjónustujöfnuðurinn verði fyrir tímabundnu áfalli. Við verðum að leggja ríka áherslu á innlenda ferðaþjónustu sem hefur allar forsendur til að blómstra enda er búið að fjárfesta ríkulega í henni með innviðum og þekkingu. Um leið og birtir til munum við sjá ferðaþjónustuna blómstra aftur. Ísland hefur upp á mikið að bjóða og við erum gestrisin þjóð.

Staða þjóðarbúsins hagfelld í upphafi farsóttar
Áður en farsóttin geisaði var ljóst að slaki hafði myndast í hagkerfinu og höfðu stjórnvöld þá þegar gripið til aðgerða til að örva hagkerfið og leyfa sveiflujöfnun þess að virka. Nú hefur hið opinbera, ríkisvald og sveitarfélög, tilkynnt um umfangsmiklar aðgerðir til viðbótar til að mæta þeim áskorunum sem blasa við. Staða ríkissjóðs í upphafi farsóttar var sterk, þar sem hrein skuldastaða var um 20% af landsframleiðslu. Til samanburðar er skuldastaða Ítalíu vel yfir 120%. Skuldasamsetningin er einnig hagfelld, þar sem erlendar skuldir eru hlutfallslegar lágar. Það sama má segja um fjármálakerfið sem er fjármagnað að mestu með innlendum sparnaði, eiginfjárstaðan er sterk og lausafjárstaðan rúm. Fjármálakerfið hefur verið styrkt með þjóðhagsvarúðartækjum og umgjörðin öll er orðin styrkari en áður. Hagkerfið okkar hefur verið drifið áfram af útflutningi, heimili og fyrirtæki hafa styrka eiginfjárstöðu og þjóðhagslegur sparnaður hefur verið mikill. Gjaldeyrisforði þjóðarbúsins er tæpir þúsund milljarðar króna og hefur ekki verið eins stór í nútímahagsögunni. Þessi staða gerir þjóðinni mun betur kleift að fást við þær miklu áskoranir sem farsóttin leggur okkur til.
Við þurfum að sjálfsögðu að vanda til verks og hugsa hvernig við ætlum að koma sem sterkust út úr þessu. Við verðum öll að leggjast á árarnar til að örva hagkerfið, svo að ekki hljótist varanlegur skaði af farsóttinni. Atvinnuleysi hefur aukist mikið og vinna verður gegn því af öllum mætti. Örva verður einkaneyslu, velferðarhagkerfið okkar eykur samneysluna verulega og við verðum að hugsa stórt varðandi fjárfestingu. Þegar þessir þættir fara allir saman á skipulagðan og agaðan hátt, þá munum við yfirstíga erfiðleikana sem samfélag.

Fjárfest í mannauði
Við ætlum að sækja fram og efla alla menntun og menningu í landinu. Því hefur átt sér stað umfangsmikil vinna í mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að tryggja að menntakerfið geti tekið á móti sem flestum sem vilja auka þekkingu og menntun sína. Menningin verður efld og við reiðum okkur á skapandi greinar til framtíðar. Við ætlum að auka fjárveitingar til verk- og tæknigreina og tryggja að háskólastigið geti mætt þeirri eftirspurn sem verður til vegna stöðunnar. Mikill vöxtur hefur verið í iðngreinum og mikil vakning í þeim efnum. Það er sannkallað fagnaðarefni að sjá þennan mikla vöxt í verk- og tæknigreinum enda hefur það verið markmið í langan tíma að gera betur þar og það er að takast. Við munum leggja mikla áherslu á framhaldsfræðslu og styrkja íslenskunám fyrir innflytjendur. Grunnurinn að öflugu menntakerfi er að tryggja öflugt og framsækið kennaranám. Þar höfum við séð mikinn vöxt og grósku og stóraukningu í aðsókn í kennaranám. Þar höldum við áfram og viljum að Ísland sé í fremstu röð. Markmið þessara aðgerða er að styrkja færni íslensks efnahagslífs, sem lengi hefur einkennst af færnimisræmi á vinnumarkaði. Þessu ætlum við að breyta og styrkja vinnumarkaðinn. Menntastefna til ársins 2030 liggur fyrir í drögum og verður þingsályktun þess efnis lögð fyrir Alþingi Íslendinga á haustþingi. Menningin hefur sannarlega komið sterk inn í þær aðstæður sem uppi eru og veitt huggun og hughreyst. Ljóst er að þar er einn okkar mesti auður og viljum við rækta hann áfram. Ég er sannfærð um að tíminn mun nýtast vel á næstunni til að efla menntun og menningu.

Innviðafjárfestingar þurfa að vera miklar
Fjárfestingar eru einn af lykilþáttunum til að örva hagkerfið okkar. Mikill vöxtur hefur verið í opinberum fjárfestingum á síðustu misserum og ljóst að við þurfum að halda áfram á þeirri braut.
Í febrúar 1936 birtist byltingarkennd hagfræðikenning fyrst á prenti. John M. Keynes hafði legið undir feldi við rannsóknir á kreppunni miklu, þar sem neikvæður spírall dró kraftinn úr hagkerfum um allan heim. Niðursveifla og markaðsbrestur snarfækkaði störfum, minnkaði kaupmátt og í leiðinni tekjur hins opinbera. Stjórnvöld þess tíma dýpkuðu kreppuna og ollu óbætanlegu tjóni, þar var atvinnuleysi verst vegna þess að það dró úr þrótti fólksins. Keynes sagði að í þessari stöðu ætti hið opinbera að örva efnahagskerfið með öllum tiltækum ráðum, ráðast í opinberar framkvæmdir og eyða tímabundið um efni fram. Þannig væru ákveðin umsvif í hagkerfinu tryggð, þar til kerfið yrði sjálfbært að nýju. Þegar þeim áfanga yrði náð, ætti hið opinbera að draga saman seglin og safna í sjóði, svo hagkerfið ofhitnaði ekki. Stjórnvöld munu standa með fólkinu í landinu og vinna að því af öllu afli að minnka áhrif farsóttarinnar á hagkerfið. Leiðarljósið er ávallt að stuðla að heilbrigði þjóðarinnar til að hún geti svo tekið þátt í uppbyggingunni.

Til að ná tökum á stöðunni þarf fernt að gerast. COVID-kúrfan þarf að ná toppi sínum og verða niðurhallandi svo innlenda hagkerfið taki við sér, heilbrigðiskerfið þarf að vera nógu öflugt til að sinna vel veiku fólki, sóttvarnir þurfa áfram að vera til staðar þar til lækning finnst og, það sem mestu skiptir, við þurfum að ná vel utan um okkar viðkvæmustu þjóðfélagshópa. Nú stendur páskahátíðin og upprisan er framundan. Ég er sannfærð um að Ísland standi sterkt og rísi upp. Ég vil þakka öllum þeim sem komið hafa að því að vinna sleitulaust að því að sinna sjúkum, halda menntakerfinu okkar gangandi og lagt sig fram við að hlúa að okkar dýrmæta samfélagi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta