Takk, Vigdís!
Vorið 1980 sat 6 ára stúlka í kjöltu langömmu sinnar og ræddi stóru mál lífsins. Langamman spurði hvern stúlkan ætlaði að styðja í forsetakosningunum sem voru þá á næsta leiti. Stúlkan sagðist halda með Alberti Guðmundssyni, enda hefði hún mikinn áhuga á íþróttum. Langamman brást ókvæða við og sagði sögulegt tækifæri blasa við Íslendingum, sem gætu orðið fyrstir í sögunni til að velja konu sem þjóðhöfðingja. Við stelpurnar ættum að standa saman, ekkert annað kæmi til greina.
Þá væri einnig frambjóðandinn, Vigdís Finnbogadóttir, einstök hæfileikakona og myndi sóma sér vel á Bessastöðum. Langamman var svo sannfærandi og ákveðin að stúlkan ákvað að fylgja langömmu sinni að máli, eins og svo oft áður.
Langamma reyndist sannspá og forsetatíð frú Vigdísar Finnbogadóttur varð söguleg. Framlag Vigdísar til jafnréttismála var ómetanlegt, bæði á Íslandi og heimsvísu. Með sigri í lýðræðislegum kosningum braut hún glerþak sem engin kona hafði áður gert. Þá hefur ástríða Vigdísar fyrir íslenskri tungu verið afar dýrmæt, enda kenndi hún okkur betur en aðrir að meta samspil tungumáls og menningar. Jafnframt jók hún mjög hróður Íslands á alþjóðavettvangi, því þar sem Vigdís talaði var hlustað. Fleira mætti telja til, svo sem baráttu hennar fyrir skógrækt og umhverfismálum og að tengja saman kynslóðir með framsýni.
Langamma mín hefði orðið 110 ára í ár. Hún rak matstofu í Aðalstræti 12 og var virk í verkalýðsbaráttunni, alla sína tíð. Hún hafði mikil áhrif á mig og alla fjölskylduna. Ég á henni mikið að þakka fyrir að halda mér stöðugt við efnið og sjá samhengi hlutanna. Þær Vigdís eiga það sameiginlegt að hafa gert kraftverk í lífi fólksins í kringum þær, jafnvel við aðstæður sem virtust óyfirstíganlegar. Þessi kynslóð formæðra okkar einkenndist af viljastyrk og þrautseigju sem fleytti henni yfir skerin og heilli í höfn.
Frú Vigdís Finnbogadóttir, til hamingju með daginn! Ég vil þakka þér fyrir ómetanlegt starf, forystu og að hafa vísað okkur veginn.