Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. maí 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Þrekvirki íslenska menntakerfisins á tímum COVID-19

Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu á mánudaginn 4. maí 2020.

Hinn 16. mars tóku gildi takmarkanir á samkomum og skólahaldi til að hægja á útbreiðslu COVID-19 hér á landi. Frá því að auglýsingar um þessar takmarkanir voru birtar hefur ráðuneytið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband Íslands fylgst náið með skipulagi og framkvæmd skólastarfs í leik- og grunnskólum.
Í leik- og grunnskólum landsins eru um 64.650 nemendur og 11.450 starfsmenn. Í framhalds- og háskólum eru um 41.000 nemendur. Það varð því strax ljóst að fram undan væri mikil brekka. Staðan var vissulega óljós um tíma og skiptar skoðanir um hver viðbrögð skólakerfisins ættu að vera, við veirunni sem olli miklum samfélagsskjálfta. Nú, sjö vikum síðar, gefst okkur tækifæri til að líta um öxl og skoða hvernig til tókst.

Leikskólar
Almennt hefur leikskólastarf gengið vel og hlúð hefur verið að börnum með velferð þeirra að leiðarljósi. Skólastjórnendur höfðu frelsi til að skipuleggja og útfæra starfsemi hvers skóla, þar sem aðstæður voru ólíkar milli skóla, jafnvel innan sama sveitarfélags. Þetta krafðist mikillar útsjónarsemi og reyndist eflaust mörgum erfitt. Mikil ábyrgð hvíldi á herðum allra hlutaðeigandi við að tryggja öryggi kennara og nemenda og það er aðdáunarvert að þetta hafi tekist eins vel og raun ber vitni. Tækifærin í menntun framtíðarinnar liggja á leikskólastiginu. Sífellt fleiri rannsóknir sýna fram á mikilvægi fyrstu æviáranna fyrir allan þroska einstaklinga síðar á lífsleiðinni og því hefur áherslan á snemmtæka íhlutun í málefnum barna verið sífellt fyrirferðarmeiri. Tengsl eru á milli taugaþroska og umhverfisáhrifa hjá ungum börnum og því er afar mikilvægt að tryggja að menntun barna á leikskólaaldri sé sem allra best úr garði gerð. Ég skipaði því starfshóp um styrkingu leikskólastigsins sem er ætlað að finna leiðir til að styrkja leikskólastigið og fjölga leikskólakennurum. Starfshópurinn er hvattur til að víla sér ekki við að koma með róttækar breytingatillögur á t.d. núverandi lögum, reglugerðum og starfsumhverfi ef það er talið mikilvægt til að styrkja leikskólastigið.

Grunnskólar
Grunnskólar hafa haldið úti kennslu fyrir nemendur þó skóladagurinn hafi oft verið styttri en venjulega og fjarnám algengt í unglingadeildum. Skólastarf hefur gengið vel og fólk var samstíga í þeim aðstæðum sem ríktu; kennarar, skólastjórnendur, starfsfólk, foreldrar og nemendur. Vikurnar voru lærdómsríkar, skipulagið breytist hratt og daglega voru aðstæður rýndar með tilliti til mögulegra breytinga. Nýir kennsluhættir og fjarkennsla urðu stærri þáttur en áður og tæknin vel nýtt í samskiptum við nemendur. Samband Íslenskra sveitarfélaga aflaði reglulega upplýsinga um skipulag skólastarfs frá fræðsluumdæmum og skólum. Meginniðurstöður bentu til þess að vel væri hugað að öryggisatriðum, svo sem skiptingu nemenda í fámenna hópa og að enginn óviðkomandi kæmi inn í skólabygginguna.
Eins og gefur að skilja voru útfærslur á skólastarfi ólíkar. Í einhverjum tilfellum mættu nemendur heilan skóladag á meðan aðrir studdust við fjarkennslu eingöngu. Allt gekk þetta þó vonum framar. Undirbúningur að næstu vikum er í fullum gangi hjá skólum sem eru að leggja lokahönd á þetta skólaár og undirbúa útskriftir nemenda úr 10. bekk.
Við þessar óvenjulegu aðstæður hefur mikið verið rætt um annarlok og námsmat í grunnskólum en framkvæmd og útfærsla þess er á ábyrgð hvers skóla að uppfylltum ákveðnum viðmiðum. Námsmatið getur því verið með mismunandi hætti, en framkvæmd á birtingu lokamats úr grunnskóla þarf engu að síður að vera eins samræmd og mögulegt er til að tryggja eins og unnt er jafnræði nemenda við innritun í framhaldsskóla. Við leggjum okkur öll fram við að tryggja sem farsælasta innritun nemenda í framhaldsskóla fyrir haustönn 2020 í góðri samvinnu við kennaraforystuna, Skólastjórafélag Íslands, Skólameistarafélag Íslands og Samband íslenskra sveitarfélaga.

Framhaldsskólar
Við gildistöku samkomubanns var skólabyggingum framhalds- og háskóla lokað fyrir nemendum, sem stunduðu þó fjarnám af fullum krafti. Strax komu upp á yfirborðið áhyggjur af nemendum í brotthvarfshættu og því var hafist handa við að halda þétt utan um þann hóp. Margvíslegar aðferðir voru notaðar til að styðja nemendur áfram í námi. Jafnframt var kastljósinu beint að nemendum í starfsnámi, enda áttu þeir á hættu að vera sagt upp námssamningi eða missa af sveinsprófi á réttum tíma. Það voru því mikil gleðitíðindi þegar ráðuneytið, skólameistarar starfsmenntaskóla og umsýsluaðilar sveinsprófa tóku höndum saman og fundu leiðir til að tryggja náms- og próflok með sveinsprófum.
Allt kallaði þetta á mikla vinnu og gott samstarf ólíkra aðila í framhaldsskólasamfélaginu. Það tókst svo sannarlega, því áskoranirnar hafa þétt mjög raðirnar og samráð á framhaldsskólastiginu efldist mjög á þessum erfiða tíma. Stjórnendur skiptust á góðum ráðum og hvatningu, sem blés öllum byr undir báða vængi. Ég bind miklar vonir við að þetta góða samstarf muni fylgja okkur áfram eftir að líf kemst í eðlilegt horf.

Háskólar
Aðstæðurnar höfðu óneitanlega áhrif á annarlok í háskólum og framhaldsskólum, sem höfðu búið sig vel undir þá staðreynd. Í mörgum skólum var upphaflegum kennsluáætlunum fylgt og annarlok og útskriftir verða því á réttum tíma. Skólarnir fengu frelsi til að útfæra námsmat að aðstæðunum, enda varð fljótt ljóst að prófahald yrði óhefðbundið og vinna við einkunnagjöf flóknari. Sumir ákváðu að halda sig við hefðbundna einkunnagjöf, en aðrir staðfesta að nemandi hafi staðist eða ekki staðist kröfur sem gerðar eru í hverri grein.
Staða háskólanema er mér mjög hugleikin. Stofnaður var samhæfingarhópur fjölmargra hagaðila sem vinnur nú hörðum höndum að því að skoða stöðu atvinnuleitenda og ekki síður námsmanna. Ljóst er að bregðast þarf hratt við. Markmiðið er að styðja markvisst við námsmenn ásamt því að nýta menntakerfið til þess að efla og styrkja nám og þjálfun í þeim atvinnugreinum sem mögulega verða hvað verst úti.

Fram hefur komið að álag er mikið á nemendur og margir þeirra hafa áhyggjur af framfærslu, þar sem þeir hafa misst störf til að framfleyta sér. Háskólarnir brugðu á það ráð að auka við ráðgjöf og þjónusta við nemendur. Stjórn Lánasjóðs námsmanna ákvað einnig að koma til móts við námsmenn og greiðendur námslána með ýmsum aðgerðum.
Mikilvægt er að allt sé gert til að hlúa að gæðum náms en nemendum verður að vera mætt með auknum sveigjanleika. Vellíðan og öryggi nemenda skiptir afar miklu.

Heimspekingurinn John Stuart Mill sagði: „Öll efling menntunar stuðlar að jöfnuði, því að menntunin veitir aðgang að sama sjóði þekkingar og skoðana.“ Ljóst er að íslenskt samfélag stendur frammi fyrir verulegum breytingum á vinnumarkaðnum. Mikilvægt er að forgangsraða í þágu gæða menntunar. Til að mæta þeim áskorunum þurfum við að huga vel að sveigjanleika og samspili vinnumarkaðarins og menntakerfisins, nálgast þau mál heildrænt og í virku samhengi við þróun þeirra annars staðar í heiminum. Kæra skólafólk og nemendur. Hafið þið miklar þakkir fyrir þrekvirkið sem þið hafið unnið, sem er einstakt á heimsvísu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta