Besta sumargjöfin
Reynslan sýnir að mörg börn missa niður lesfærni sína á sumrin, og þurfa að verja vikum í upphafi nýs skólaárs til að ná upp fyrri getu. Það er slæm nýting á tíma, hún dregur úr sjálfsöryggi skólabarna og árangri þeirra í námi. Afturförin getur numið einum til þremur mánuðum í námsframvindu, því getur uppsöfnuð afturför hjá barni í 6. bekk numið allt að einu og hálfu skólaári. Besta sumargjöfin sem foreldrar geta gefið börnum sínum er lesstuðningur og hvatning, í hvaða formi sem er.
Börn í 1.-4. bekk eru sérstaklega viðkvæm fyrir lestrarhléum á sumrin. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær, að ekki þarf mikið til að börn viðhaldi lesfærninni og taki framförum. Með því að lesa í 15 mínútur tvisvar til þrisvar í viku má koma í veg fyrir afturför, en með daglegum lestri á hæfilega krefjandi texta taka börn stórstígum framförum. Skemmtilegar bækur og hæfilega flókinn texti er besta hvatningin fyrir unga lesendur, hvort sem hann er í bók, á blaði eða skjá. Raunar má segja að sumarið sé sérstaklega skemmtilegur tími til að lesa, því þá má flétta lestur saman við frí og ferðalög, áhugamál og uppátæki. Það er til dæmis gaman að lesa um fugla og pöddur í miðnætursól í Þórsmörk, eða fótboltasögur á leiðinni á íþróttamót. Hvort sem ferðinni er heitið á fjall eða í fjöru, er viðeigandi að stinga bók í bakpokann og næra sálina með lestri hvenær sem tækifæri gefst til.
Hvorki foreldrar né börn þurfa að finna upp hjólið í þessu samhengi, heldur geta þau nýtt leiðir sem öllum eru aðgengilegar. Menntamálastofnun býður til dæmis upp á skemmtilegan sumarleik fyrir börn, Lestrarlandakortið, sem miðar að því að kynna börnum ólíkar tegundir bóka og hvetja þau til lestrar. Um er að ræða Íslandskort fyrir tvo aldurshópa, þar sem vegir tákna ákveðna tegund bóka sem börn eru hvött til að lesa. Á bakhliðinni geta þau skrifa niður titla bókanna sem þau lesa og smám saman fyllt út í kortið, eftir því sem líður á sumarið. Sjálfar bækurnar má nálgast víða, bæði í bókabúðum og -söfnum, sem eru yfirfull af spennandi og áhugaverðum fjársjóðum fyrir alla aldurshópa.
Börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Verum þeim góð fyrirmynd í sumarfríinu, gefum okkur tíma til að lesa og njóta, með bók í hönd eða hljóðbók við eyrað. Lesum blöð og bækur, í bílum og bátum. Höldum ævintýraheimi bókanna að börnum, sem styrkja með lestri orðaforða sinn og auka þannig skilning sinn á heiminum og eigin hugsunum. Ég hvet ykkur til að aðstoða börnin við að finna lestrarefni sem hentar þeim og knýr rannsóknarviljann áfram. Betra veganesti inn í framtíðina er vandfundið.