Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. júní 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Besta sumargjöfin

Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 19. júní 2020.

Reynsl­an sýn­ir að mörg börn missa niður les­færni sína á sumr­in, og þurfa að verja vik­um í upp­hafi nýs skóla­árs til að ná upp fyrri getu. Það er slæm nýt­ing á tíma, hún dreg­ur úr sjálfs­ör­yggi skóla­barna og ár­angri þeirra í námi. Aft­ur­för­in get­ur numið ein­um til þrem­ur mánuðum í náms­fram­vindu, því get­ur upp­söfnuð aft­ur­för hjá barni í 6. bekk numið allt að einu og hálfu skóla­ári. Besta sum­ar­gjöf­in sem for­eldr­ar geta gefið börn­um sín­um er lesstuðning­ur og hvatn­ing, í hvaða formi sem er.

Börn í 1.-4. bekk eru sér­stak­lega viðkvæm fyr­ir lestr­ar­hlé­um á sumr­in. Góðu frétt­irn­ar eru hins veg­ar þær, að ekki þarf mikið til að börn viðhaldi les­færn­inni og taki fram­förum. Með því að lesa í 15 mín­út­ur tvisvar til þris­var í viku má koma í veg fyr­ir aft­ur­för, en með dag­leg­um lestri á hæfi­lega krefj­andi texta taka börn stór­stíg­um fram­förum. Skemmti­leg­ar bæk­ur og hæfi­lega flók­inn texti er besta hvatn­ing­in fyr­ir unga les­end­ur, hvort sem hann er í bók, á blaði eða skjá. Raun­ar má segja að sum­arið sé sér­stak­lega skemmti­leg­ur tími til að lesa, því þá má flétta lest­ur sam­an við frí og ferðalög, áhuga­mál og uppá­tæki. Það er til dæm­is gam­an að lesa um fugla og pödd­ur í miðnæt­ur­sól í Þórs­mörk, eða fót­bolta­sög­ur á leiðinni á íþrótta­mót. Hvort sem ferðinni er heitið á fjall eða í fjöru, er viðeig­andi að stinga bók í bak­pok­ann og næra sál­ina með lestri hvenær sem tæki­færi gefst til.

Hvorki for­eldr­ar né börn þurfa að finna upp hjólið í þessu sam­hengi, held­ur geta þau nýtt leiðir sem öll­um eru aðgengi­leg­ar. Mennta­mála­stofn­un býður til dæm­is upp á skemmti­leg­an sum­ar­leik fyr­ir börn, Lestr­ar­landa­kortið, sem miðar að því að kynna börn­um ólík­ar teg­und­ir bóka og hvetja þau til lestr­ar. Um er að ræða Íslands­kort fyr­ir tvo ald­urs­hópa, þar sem veg­ir tákna ákveðna teg­und bóka sem börn eru hvött til að lesa. Á bak­hliðinni geta þau skrifa niður titla bók­anna sem þau lesa og smám sam­an fyllt út í kortið, eft­ir því sem líður á sum­arið. Sjálf­ar bæk­urn­ar má nálg­ast víða, bæði í bóka­búðum og -söfn­um, sem eru yf­ir­full af spenn­andi og áhuga­verðum fjár­sjóðum fyr­ir alla ald­urs­hópa.

Börn­in læra það sem fyr­ir þeim er haft. Ver­um þeim góð fyr­ir­mynd í sum­ar­frí­inu, gef­um okk­ur tíma til að lesa og njóta, með bók í hönd eða hljóðbók við eyrað. Les­um blöð og bæk­ur, í bíl­um og bát­um. Höld­um æv­in­týra­heimi bók­anna að börn­um, sem styrkja með lestri orðaforða sinn og auka þannig skiln­ing sinn á heim­in­um og eig­in hugs­un­um. Ég hvet ykk­ur til að aðstoða börn­in við að finna lestr­ar­efni sem hent­ar þeim og knýr rann­sókn­ar­vilj­ann áfram. Betra vega­nesti inn í framtíðina er vand­fundið.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta