Stórsókn í menntamálum í verki
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar var lögð rík áhersla á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Efla bæri nýsköpun og þróun enda er menntun kjarninn í nýsköpun til framtíðar. Mikilvægt væri að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum. Bregðast þurfti við kennaraskorti og tryggja þurfti framhaldsskólum meira frelsi og fjármagn. Sérstök áhersla var lögð á listnám og aukna tækniþekkingu sem gerði íslenskt samfélag samkeppnishæfara á alþjóðavísu. Iðnnám og verk- og starfsnám yrði einnig eflt í þágu fjölbreytni og öflugra samfélags.
Meginmarkmið ríkisstjórnarinnar voru jafnt aðgengi að námi óháð búsetu og öðrum aðstæðum. Lögð var áhersla á framhaldsfræðslu, að Ísland nái meðaltali OECD-ríkjanna og Norðurlanda varðandi fjármögnun háskólastigsins, efling Vísinda- og tækniráðs og ráðist í uppbyggingar skólabygginga. Auk þess yrði ráðist í heildarendurskoðun námslánakerfisins. Það má með sanni segja að þau fyrirheit hafi raungerst á undanförum árum.
Sumar tækifæranna
Skráning í sumarnám framhaldsskólanna og háskólanna hefur slegið öll met. Rúmlega 5.100 nemendur hafa skráð sig í slíkt nám og 330 í sumarnám framhaldsskólanna. Markhópur sumarnáms á háskólastigi er mjög fjölbreyttur, í þeim hópi eru m.a. nemendur sem ljúka námi úr framhaldsskóla á vorönn og vilja undirbúa sig fyrir háskólanám, aðrir framtíðarháskólanemar, núverandi háskólanemar og einstaklingar sem vilja styrkja stöðu sína á vinnumarkaði, brúa færnibil eða skipta um starfsvettvang. Háskólarnir bjóða upp á yfir 200 námsleiðir sem mæta þessum markhópum með fjölbreyttum hætti. Alls var 800 milljónum kr. varið til að efla sumarnámið.
Aðsóknin er vonum framar enda margir spennandi námskostir í boði hjá framhalds- og háskólum. Það gleður mig sérstaklega hversu mikil aðsókn er í íslenskunámskeið hjá Háskóla Íslands. Íslenska sem annað mál er orðið vinsælasta einstaka fagið þar, nú þegar eru yfir 400 nemendur skráðir. Búist er við allt að 70% aukningu frá fyrri árum. Þetta er afar ánægjuleg þróun!
Nám á næstu mánuðum
Aðsóknin í sumarnám gaf okkur vísbendingar um hvernig haustnámið myndi líta út. Háskóla Íslands barst til að mynda metfjöldi umsókna í grunnnám, eða um 6.720 umsóknir sem er tæplega 21% aukning frá síðasta ári. Umsóknir í framhaldsnám eru tæplega 5.000 og heildarfjöldi umsókna því vel á tólfta þúsund. Á sama tíma hafa aldrei fleiri sótt um nám við Háskólann í Reykjavík. Skólanum bárust 3.900 umsóknir um skólavist fyrir næsta skólaár. Það er um 13% fjölgun frá síðasta ári. Umsóknum um meistaranám fjölgar í öllum deildum háskólans, um þriðjung að jafnaði. Mest er fjölgun í umsóknum um grunnnám, annað árið í röð, í iðn- og tæknifræðideild og sálfræðideild, eða um 34%.
Nýir tímar í starfs- og tækninámi: Mikil aðsókn í iðnnám
Okkur hefur jafnframt tekist að efla iðnnám ásamt verk- og starfsnámi. Aðsókn í iðn- og starfsnám í Tækniskólanum hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár, bæði úr grunnskóla og frá eldri nemendum. Sérstök aukning er í byggingargreinum og skera pípulagnir sig þar úr með 84% aukningu á umsóknafjölda í dagskóla milli ára. Aðgerðaáætlun mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Samtaka iðnaðarins og Sambands íslenskra sveitarfélaga var hrundið af stað með það að markmiði að auka áhuga ungmenna á starfs- og tæknimenntun og þar með fjölga einstaklingum með slíka menntun á vinnumarkaði. Aðgerðaáætlunin leggur meðal annars áherslu á að efla kennslu grunnskólanema í verk-, tækni og listgreinum; jafna stöðu iðnmenntaðra í framhaldsnámi; einfalda skipulag starfs- og tæknináms; bæta aðgengi á landsbyggðinni og styrkja náms- og starfsráðgjöf.
Það er mikilvægt að hver og einn nemandi geti fundið nám við sitt hæfi. Slíkt eykur ekki aðeins ánægju nemenda heldur styrkir samfélagið okkar til langs tíma.
Kennarar í sókn
Til að mæta áskorunum framtíðar þurfum við fjölhæfa og drífandi kennara. Aðgerðir voru kynntar til að fjölga kennurum, í þeim fólust meðal annars launað starfsnám leik- og grunnskólakennaranema á lokaári. Þessar aðgerðir skiluðu strax árangri en umsóknum fjölgaði um 30% milli ára. Við sjáum enn meiri fjölgun í haust. Menntavísindasvið Háskóla Íslands fékk 980 umsóknir í grunnnám eða hátt í 200 fleiri en í fyrra, eða um 26% fleiri. Umsóknir um grunnnám í leikskólakennarafræði og diplómanám í leikskólafræði nærri tvöfaldast á milli ára, fara úr tæplega 100 í rúmlega 190. Umsóknum í grunnskólakennaranám og kennslufræði eru um 340 í ár eða um fimmtungi fleiri en í fyrra. Íþrótta- og heilsufræði nýtur einnig mikilla vinsælda og þar hafa um 150 sóst eftir því að hefja nám eða um fimmtungi fleiri en í fyrra. Sömuleiðis hefur Háskólinn á Akureyri aldrei fengið eins margar umsóknir í leik- og grunnskólakennaranám. Þetta eru afar góðar fréttir, enda er öflugt menntakerfi borið upp af öflugum kennurum.
Menntasjóður og nýsköpun
Það er frábært að sjá hve vel hefur tekist að styrkja rannsóknarinnviði og efla allt vísindastarf. Aukið fjármagn í samkeppnissjóði í rannsóknum nær til mannauðs, með auknum styrkjum og atvinnutækifærum. Nýsköpunarsjóður námsmanna styrkir verkefni þar sem ungir vísindamenn fá sín fyrstu kynni af þátttöku í vísindastarfi sem kveikt hefur áhuga til framtíðar. Nýsköpunarsjóður námsmanna hefur vaxið úr 55 milljónum í 455 milljónir í ár. Þetta er gert til að búa til ný tækifæri og virkja þekkingarsköpun. Mesta framfaraskref í þágu námsmanna sem hefur verið kallað eftir í mörg ár er Menntasjóður námsmanna! Sjóðurinn er bylting fyrir fjölbreyttan hóp fólks sem stundar háskólanám hér á landi og fjölskyldur þessa lands. Með nýju kerfi verður fjárhagsstaða námsmanna betri og skuldastaða þeirra að námi loknu ræðst síður af fjölskylduaðstæðum. Auk þessa nýja kerfis höfum við unnið að því síðustu ár að bæta hag námsmanna með því að auka ráðstöfunartekjur þeirra með hækkun framfærslu og tekjuviðmiða.
Það er því engum ofsögnum sagt að stórsókn sé hafin í menntamálum!