Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. ágúst 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Menntakerfið sett í forgang í samfélaginu

Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 24. ágúst 2020.

Góð menntun er grundvöllur velsældar þjóða. Á mánudag gengur nýtt skólaár í garð og metaðsókn er í nám. Það er þjóðhagslega mikilvægt að skólarnir komi sterkir inn í haustið. Um allan heim eru skólar ekki að opna með hefðbundnum hætti í haust, og í sumum löndum hafa börn ekki farið í skólann síðan í febrúar. Skaðinn sem hlýst af því til lengri tíma er ómetanlegur.

Enn er með öllu óvíst hvenær faraldurinn gengur yfir. Nú, þegar við erum stödd í annarri bylgju faraldursins hafa stjórnvöld skerpt aftur á sóttvörnum og hert aðgerðir. Eflaust eru það vonbrigði í huga margra en reynslan sýnir okkur að samtaka náum við miklum árangri. Í vetur tókum við höndum saman til að tryggja menntun og velferð nemenda. Og það tókst! Allir árgangar náðu að útskrifast í vor og Ísland var eitt af fáum ríkjum í heiminum sem hélt skólum opnum á meðan faraldurinn stóð sem hæst.

Sameiginleg yfirlýsing: Umhyggja, sveigjanleiki og þrautseigja

Rétt viðbrögð ráða mestu um áhrif áfalla. Við sjáum fram á annan skólavetur þar sem veiran mun hafa áhrif á skólastarf. Því hefur umfangsmikið samráð átt sér stað á síðustu vikum. Kennaraforystan, á annað hundrað skólastjórnendur, kennarar og sérfræðingar hafa fjarfundað með mér og sóttvarnaryfirvöldum. Á fundunum var rætt um skipulag framhalds- og háskólastarfs í upphafi nýs skólaárs en einnig hvernig skólar geta uppfyllt skyldur sínar gagnvart nemendum, í samræmi við sóttvarnarreglur.

Framhalds- og háskólar eru þegar byrjaðir að skipuleggja starf sitt og blanda saman fjar- og staðkennslu. Fjölmargir munu leggja áherslu á að taka vel á móti nýnemum, enda er mikilvægt að nýnemar geti kynnst og lært inn á nýja skóla og námskerfi. Allir eru samstíga í því að nú sé tækifæri fyrir skóla og kennara að efla sig í tækninni og auka þekkingu og gæði fjarkennslu.

Ég fann strax mikla samstöðu og vilja hjá öllum sem tengjast menntakerfinu að standa saman í þessu verkefni. Því ákváðum við, Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands og Félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, að gefa út sameiginlega yfirlýsingu um skólastarfi á tímum kórónuveirunnar. Umhyggja, sveigjanleiki og þrautseigja verða leiðarljósið okkar í haust. Við teljum mikilvægt að allir nemendur njóti menntunar óháð félags- og menningarlegum bakgrunni og þarf sérstaklega að huga að nemendum í viðkvæmri námsstöðu, nýjum nemendum og framkvæmd kennslu í list- og verkgreinum.

Leiðbeiningar: Framhalds- og háskólar
Markmið okkar allra er að tryggja menntun en ekki síður öryggi og velferð nemenda, kennara og starfsfólks skólanna. Það var því einnig ákveðið að gefa út leiðbeiningar til skóla og fræðsluaðila, með það að markmiði að auðvelda skipulagningu skólastarfs og sameiginlegan skilning á reglum sem gilda. Með þeim er ítrekuð sú ábyrgð sem hvílir nú á skólum og fræðsluaðilum; eftirfylgni við sóttvarnarreglur með öryggi og velferð nemenda, kennara og starfsfólks að leiðarljósi. Þar er einnig ítrekað að framkvæmd náms og skipulag geti breyst með áhættustigum og takmörkunum, en mikilvægt sé að fylgjast með líðan allra nemenda. Þá er lögð áhersla er lögð á gott upplýsingaflæði til nemenda, forráðamanna, kennara og starfsfólks um stöðu mála, úrræði og stuðning sem í boði er.

Þingsályktun: Menntastefna til framtíðar
Með nýrri heilstæðri menntastefnu til ársins 2030 munum við standa vörð um og efla skólakerfið okkar. Tillaga að þingsályktun um menntastefnuna verður lögð fyrir Alþingi í haust. Markmið stjórnvalda með þessari menntastefnu er að veita framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og árangur í umhverfi þar sem allir skipta máli og allir geta lært. Menntastefnan er mótuð í breiðu samstarfi, meðal annars með aðkomu fjölmargra fulltrúa skólasamfélagsins sem tóku þátt í fundarröð ráðuneytisins um menntun fyrir alla, svo og fulltrúum sveitarfélaga, foreldra, nemenda, skólastjórnenda og atvinnulífsins.

Mikil áhersla er lögð á að kennsla og stjórnun menntastofnana verði framúrskarandi og að allir hafi jöfn tækifæri til menntunar. Námskrá, námsumhverfi og námsmat þarf að styðji við hæfni til framtíðar og menntastefna tryggir framkvæmd og gæði skóla- og fræðslustarfs.
Þessir óvissutímar sem við lifum nú sýna að allt menntakerfið hefur getu til að standa saman með samtakamátt að leiðarljósi. Það er mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr að móta menntastefnu, sem veitir von um betri framtíð.

Ég tel að menntun og hæfni sé lykilforsenda þess að Ísland geti mætt áskorunum framtíðarinnar, sem felast meðal annars í örum breytingum á samfélagi, náttúru og tækni. Það er því okkar brýnasta velferðarmál til framtíðar, að tryggja aðgang að góðu og sterku menntakerfi. Næstu fjárlög og fjármálastefna mun einkennast af því grundvallarsjónarmiði að setja menntun þjóðarinnar í forgang.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta