Menntun fyrir alla
Grein Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra sem birtist í Morgunblaðinu 25. ágúst 2020.
Fyrsti skóladagur vetrarins markar nýtt upphaf. Veturinn sem leið einkenndist af viljaþreki og samhug þeirra sem bera ábyrgð á skólastarfi. Menntakerfið bar árangur sem erfiði, og það tókst að útskrifa alla árganga í vor. Ég er fullviss um að það sem meðal annars tryggði góðan árangur síðasta vetur var samráð og gott upplýsingaflæði. Á annan tug samráðsfunda voru haldnir með lykilaðilum menntakerfisins, allir sýndu mikla ábyrgð og lögðu hart að sér við að takast á við áskoranir með faglegum hætti.
Það er mikilvægt að halda áfram góðu samráði til að tryggja árangur. Fyrir helgi skrifuðu fulltrúar lykilaðila í starfsemi grunnskólanna undir sameiginlega yfirlýsingu um leiðarljós skólanna. Þar lofum við að gera allt hvað við getum til að tryggja áfram skólastarf með umhyggju, sveigjanleika og þrautseigju að leiðarljósi.
Markmiðið er að tryggja menntun en ekki síður öryggi. Því voru gefnar út leiðbeiningar til skóla og fræðsluaðila, með það að markmiði að auðvelda skipulagningu skólastarfs og sameiginlegan skilning á reglum sem gilda. Með þeim er ítrekuð sú ábyrgð sem hvílir nú á skólum og fræðsluaðilum; eftirfylgni við sóttvarnareglur með öryggi og velferð nemenda, kennara og starfsfólks að leiðarljósi. Ábyrgð sem hvílir á framhalds- og háskólanemendum er ekki síður mikil. Einstaklingsbundnar sóttvarnir vega þungt í baráttunni og jafnframt þurfum við að sýna hvert öðru tillitssemi og virðingu.
Vissulega urðu truflanir á skólastarfi í vetur. Áskoranir mæta okkur á nýju skólaári en munu þó ekki slá tóninn fyrir komandi vetur. Reynslunni ríkari ætlum við að láta skólastarfið ganga eins vel og hægt er. Vellíðan nemenda, félagsleg virkni og velferð þeirra til lengri tíma er efst á forgangslista samfélagsins. Víða um heim hafa börn ekki komist í skóla í hálft ár og margir óttast varanleg áhrif á samfélög. Því er það sett í forgang á Íslandi að hlúa að velferð nemenda. Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins eiga öll börn rétt á menntun.
Ljóst er að íslenska menntakerfið vann afrek síðastliðinn vetur; skólar héldust opnir og nemendur náðu flestir sínum markmiðum. Nú höfum við öll eitt sameiginlegt markmið; að standa vörð um skólakerfið okkar og sækja fram til að tryggja framúrskarandi menntun á öllum skólastigum. Kynnt verður tillaga til þingsályktunar um menntastefnu til ársins 2030 á haustþingi, þar sem menntun landsmanna er í öndvegi. Menntastefnan er afrakstur mikillar samvinnu allra helstu hagaðila. Það er tilhlökkun að kynna hana og ég fullyrði að öflugt menntakerfi mun vera lykilþáttur í því að efla samkeppnishæfni þjóðarinnar. Til að menntakerfið sé öflugt, þarf það að vera fjölbreytt og hafa í boði nám við hæfi hvers og eins.