Vegabréf til framtíðar
Það er markmið mitt að tryggja börnum hér á landi menntun sem stenst alþjóðlegan samanburð. Það er skylda stjórnvalda að rýna vel mælingar og bregðast við, ef aðrar þjóðir búa sín börn betur undir framtíðina.
Námsframvinda ræðst af ýmsum þáttum. Góður námsorðaforði og hugtakaskilningur, ályktunarhæfni, færni í rökhugsun, ánægja af lestri og fjölbreytni lesefnis vega mjög þungt í því að nemendur nái tökum á námsefninu. Til að skilja vel og tileinka sér innihald námsefnis án aðstoðar þarf nemandi að þekkja 98% orða í texta. Ef hlutfallið lækkar í 95% þurfa flestir nemendur aðstoð, t.d. hjálp frá kennara, samnemendum eða úr orðabókum.
Alþjóðlegar samanburðarrannsóknir hafa leitt í ljós að íslenskir nemendur virðast ekki hafa sömu færni og nemendur annars staðar á Norðurlöndunum hvort sem litið er til lesskilnings, stærðfræði eða náttúrulæsis. Það kallar á menntaumbætur sem felast meðal annars í því að rýna námskrár, námsgögn og viðmiðunarstundaskrár. Slík rýni hefur meðal annars leitt í ljós, að móðurmálstímar á miðstigi í Svíþjóð eru 35% fleiri en á Íslandi. M.a. þess vegna stendur nú til að auka vægi móðurmálskennslu hérlendis. Markmiðið með því er ekki að fjölga málfræðitímum á kostnað skapandi námsgreina, heldur skapa kennurum svigrúm til að vinna með tungumálið á skapandi og skemmtilegan hátt. Þeim treysti ég fullkomlega til að nýta svigrúmið vel, svo námsorðaforði íslenskra skólabarna og lesskilningur aukist. Það er forsenda alls náms og skapandi hugsunar, enda er gott tungutak nauðsynlegt öllum sem vilja koma hugmyndum sínum í orð. Með aukinni áherslu á móðurmálsnotkun er því verið að horfa til framtíðar.
Á undanförnum þremur árum hafa stoðir menntakerfisins verið styrktar með ýmsum hætti. Ný lög um menntun og hæfi kennara og skólastjórnenda hafa orðið að veruleika og við höfum ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til að fjölga kennurum. Við höfum stutt við útgáfu bóka á íslensku með mjög góðum árangri, þar sem aukningin hefur verið mest í flokki barna- og ungmennabóka. Þá samþykkti Alþingi þingsályktun um eflingu íslenskunnar, sem felur í sér 10 aðgerðir sem snúa að umbótum í menntakerfinu. Margar eru þegar komnar í framkvæmd og ég er sannarlega vongóð um góðan afrakstur.
Íslenskt skólakerfi er til fyrirmyndar og hefur unnið þrekvirki á tímum kórónuveirunnar. Mikill metnaður einkennir allt skólastarf og viljum við stuðla að frekari gæðum þess. Markmið stjórnvalda er að veita framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan og þrautseigju. Allir nemendur skipta máli og ég hef þá trú að allir geti lært. Góð menntun er helsta hreyfiafl samtímans og hún er verðmætasta vegabréf barnanna okkar inn í framtíðina.