Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. október 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Hamingjan

Hæstvirtur forseti, góðir landsmenn.

Líklega er ekkert í heiminum fegurra en hamingjusöm börn. Börn sem njóta umhyggju og ástar, búa að sjálfstrausti og bjartsýni, börn sem vita beint eða óbeint að þeirra bíða tækifæri í góðu og fjölskylduvænu samfélagi, menntun og velsæld. Stærsta verkefni okkar þingmanna, er að gera allt hvað við getum til að auka þessa hamingju. Tryggja að börn njóti menntunar frá unga aldri og upp á fullorðinsár, skapa umgjörð sem laðar fram það besta í hverju barni og búa þannig í haginn fyrir framtíðina.

Víða um heim hefur yfirstandandi heimsfaraldur sett skólastarf úr skorðum. Dæmi eru um, að börn hafi ekki komist í skólann síðan í febrúar … og séu ekki á leiðinni þangað á næstunni. Hérlendis hafa innviðir samfélagsins staðist hið fordæmalausa álagspróf, því þrátt fyrir erfiðleika í hagkerfinu og á fjölda heimila, þá er samfélagið að stærstum hluta virkt.

Mikilvægi skólakerfisins er ómælt í því samhengi.  Bæði fyrir menntun og hamingju barna, og atvinnulífið í heild .. sem í raun stendur og fellur með skólastarfinu. Viðbrögð kennara og skólastjórnenda á öllum skólastigum við mjög krefjandi aðstæðum sl. vor og í haust, verða seint fullþökkuð, sem og samhugurinn sem ennþá einkennir nemendur og fjölskyldur þeirra.

Árangurinn af samhentu skólastarfi er margvíslegur – til dæmis hefur það ótrúlega gerst, að brottfall í framhaldsskólum hefur verið lægra en í venjulegu árferði. Kennarar og námsráðgjafar hafa sinnt þeim sérstaklega vel sem eru í mestri brotthvarfshættu og tekist að halda þeim við efnið. Og það hlýtur að vera markmiðið; að ekkert barn sé skilið eftir í skólakerfinu – hvort sem horft er til leik-, grunn- eða framhaldsskólanna. Öll börn búa yfir styrkleikum, sem skólakerfið á að mæta ef þörf krefur og sjá til þess að viðkomandi fái notið tækifæranna sem það á rétt á.

Auðvitað setur ástandið mark sitt á skólahald, þar sem félagslegt hlutverk skólanna er ómælt og það er áhugavert að sjá unga fólkið okkar upplifa mikilvægi þess að mæta í skólann. Í þeirra huga, er skólasókn ekki lengur kvöð, heldur mikilvæg réttindi sem þau vilja nýta. Í vikunni hitti ég efnilegan framhaldsskólanema á Selfossi sem sagði, með leyfi forseta; „Það eru allir æstir að komast í skólann!“ Einhvern tímann hefði slík fullyrðing komið á óvart ... en ekki nú.

Skólarnir skipta líka sköpum fyrir marga sem nú upplifa atvinnumissi, því margir hafa ákveðið að nýta tímann til að mennta sig – jafnvel á nýjum vettvangi. Slíkt er til marks um nýja tíma, þar sem fólk er sífellt að læra nýja hluti, mennta sig .. og leita hamingjunnar. Sögur af bankastarfsmönnum sem snúa við blaðinu til að læra bólstrun, eða flugmönnum sem fara í trésmíðanám eru innblástur fyrir alla sem standa frammi fyrir miklum áskorunum, eða einfaldlega langar að breyta til.

Þau viðhorf til menntunar sem birtast í fjárlagafrumvarpinu eru fagnaðarefni. Aukin fjárfesting í menntun mun skila góðri ávöxtun, bæði fyrir einstaklinga og samfélagið allt.

Það sama má segja um auknar fjárveitingar til menningarmála, því sannarlega lifir maðurinn ekki á brauðinu einu saman. Við erum menningarverur. Þurfum andlega næringu jafnt sem líkamlega og það er gleðilegt að geta færst meira í fang á sviði menningarmála á nýju ári. Við eigum glæsileg söfn og listamenn, sem bera hróður Íslands um allan heim – leikara, myndlistarmenn og tónlistarfólk sem komist hefur til æðstu metorða. Og við skulum muna, að fólk sem fær óskarsverðlaun fyrir list sína ávinnur sér ekki bara virðingu, heldur fylgja því tækifæri fyrir land og þjóð. Beinhörð veraldleg verðmæti, sem við getum svo notað til að bæta samfélagið okkar.

Slík margföldunaráhrif höfum við séð af árangri íþróttafólks, einstaklinga og liða sem hafa blásið okkur bjartsýni í brjóst. Það eiga lista- og íþróttmenn sameiginlegt – að hafa sýnt með elju og dugnaði að allt er mögulegt.

Þann lærdóm tökum við með okkur inn í síðasta þing kjörtímabilsins – þing sem ég trúi að muni einkennast af nútímalegum vinnubrögðum og samvinnu, til heilla fyrir fjölskyldurnar í landinu – stórar jafnt sem smáar. Fjölskylduflokkurinn … Framsóknarflokkurin hlakkar til samstarfsins og er búinn undir veturinn.

Með viljastyrk verður veröldin full af hamingju.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta