Íslenska iðnbyltingin
Sætur ilmurinn af piparkökum, randalínum og smákökum er alltumlykjandi, enda jólin á næsta leiti. Ást Íslendinga á sætum kökum og brauði er þó ekki bundin við eina árstíð og fátt er betra en að vakna snemma um helgar til að skjótast í bakarí fyrir fjölskylduna. Bera fram nýbakað brauð, álegg og jafnvel leyfa börnunum að sökkva sér í kleinuhring eða volgan snúð.
Bakaraiðn á sér langa sögu hér á landi. Árið 1834 stóð kaupmaðurinn Peter C. Knudtson fyrir byggingu húsa á Torfunni svokölluðu, þar sem eitt húsanna var búið bakaraofni. Þangað réðst til starfa erlendi bakarameistarinn Tönnies Daniel Bernhöft og Berhöfts-bakarí varð til. Framan af voru einungis bakaðar nokkrar tegundir af brauði, svo sem rúgbrauð, franskbrauð, súr- og landbrauð, en smám saman jókst úrvalið og þótti fjölbreytt um aldamótin 1900. Þar með var grunnurinn lagður að bakarísmenningu sem er löngu rótgróin í samfélaginu. Formlegt nám í bakaraiðn hófst í Iðnskólanum í Reykjavík árið 1964 og greina mátti mikla ánægju yfir því að stórt baráttumál bakarastéttarinnar væri í höfn!
Enn má merkja mikla ánægju með íslensk bakarí, en ánægjan nær einnig til annarra iðngreina. Við erum stolt af fagmennsku þeirra sem lært hafa sína iðn í íslenskum skólum og loksins er okkur að takast að ryðja úr vegi kerfislægum hindrunum í starfsmenntakerfinu – nokkuð sem lengi hefur verið rætt, án sýnilegs árangurs fyrr en nú. Kerfisbreytingunum er ætlað að jafna stöðu iðnnáms og bóknáms, fjölga þeim sem mennta sig í takt við eigin áhuga, auka veg og virðingu iðngreina og uppfylla betur þarfir samfélagsins. Þetta er mín menntahugsjón.
Stefnt er að því að frá og með næsta skólaári fái iðnmenntaðir sem vilja aðgang að háskólum, rétt eins og bókmenntaðir framhaldsskólanemar. Í því felst bæði sjálfsögð og eðlileg grundvallarbreyting. Önnur slík felst í nýrri aðferðafræði við vinnustaðanám iðn- og starfsnema en framvegis mun skólakerfið tryggja námslok nemenda, sem ráðast ekki af aðstæðum nema til að komast á starfssamning. Reglugerð í þessa veru verður gefin út á næstu dögum, en þetta er líklega stærsta breytingin sem orðið hefur á starfsmenntakerfinu í áratugi. Auknum fjármunum hefur verið veitt til tækjakaupa og til að bæta kennsluaðstæður í starfsmenntaskólum. Við höfum ráðist í kynningarátak með hagaðilum til að vekja athygli á starfs- og tækninámi, skólahúsnæði verið stækkað og undirbúningur að nýjum Tækniskóla er hafinn.
Samhliða hefur ásókn í starfsnám aukist gríðarlega og nú komast færri að en vilja. Einhverjir kalla það lúxusvanda, en minn ásetningur er að tryggja öllum nám við hæfi, bæði hárgreiðslumönnum og smíðakonum. Með fjölbreytta menntun og ólíka færni byggjum við upp samfélag framtíðarinnar.