Sól hækkar á lofti
Menntaárið 2020 fer í sögubækurnar. Ekki aðeins vegna óvenjulegra aðstæðna, heldur miklu frekar vegna viðbragðanna og þess ótrúlega árangurs sem skólasamfélagið náði í sameiningu. Nemendur sýndu elju, kennarar fagmennsku og skólastjórnendur úthald ásamt öðrum sem starfa í menntakerfinu. Fjölskyldur þeirra allra stóðu á hliðarlínunni og hvöttu sitt fólk áfram, í baráttunni við sterkan andstæðing.
Auðvitað markaðist skólastarf af aðstæðunum. Grunnskólabörn hafa mætt í skólann frá upphafi faraldurs og námsárangur framhaldsskólanema er í mörgum tilvikum betri en á hefðbundnu skólaári. Í sumum skólum þurfa mun færri að endurtaka próf eða áfanga nú en á sama tíma og í fyrra og það lítur út fyrir að brotthvarf sé minna en vanalega. Ekki verður þó litið fram hjá þeirri staðreynd, að unga fólkið hefur ekki fengið félagsþörfinni fullnægt og þannig farið á mis við mikilvægan þátt á sínum mótunarárum. Við það verður að una í bili, en með órjúfa samstöðu þjóðarinnar allrar getum við sigrast á aðstæðunum á nýju ári og tryggt aukið félagslíf fyrir okkur öll.
Frá því heimsfaraldurinn tók skólastarf í gíslingu hafa kennarar og skólastjórnendur hugsað í lausnum. Lagað kennsluefni og -aðferðir að nýjum veruleika og láta ekkert stöðva sig á menntaveginum. Þetta sást greinilega um liðna helgi, þegar útskriftir fóru fram í fjölmörgum skólum. Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum hélt rafræna útskrift, Kvennaskólinn í Reykjavík bauð útskriftarnemum til sín og streymdi útskriftarathöfninni til aðstandenda, á meðan Tækniskólinn færði útskriftarnemum sín prófskírteini heim að dyrum – þaðan sem nemendur tóku spariklæddir þátt í rafrænni athöfn. Þetta eru aðeins örfá dæmi af mörgum þar sem hugsað er í lausnum en ekki vandamálum. Slíkan þankagang þakka ég af heilum hug.
Vetrarsólstöður voru í gær. Þá hætti sól að lækka á lofti og nú tekur hún að hækka á ný. Það er táknrænt fyrir tímamótin sem við erum að upplifa. Það er bjart framundan og við eigum að vera stolt yfir því sem hefur áunnist.
-
Greinin birtist í Fréttablaðinu 22. desember 2020