Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. desember 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Hvert andartak er nýtt upphaf

Lilja Alfreðsdóttir - mynd

Margir geta vart beðið þess að árinu 2020 ljúki. Sjá fyrir sér táknræn tímamót þegar ártalið breytist á miðnætti þann 31. desember og nýja árið gengur í garð. Það er mín sannfæring að fram undan sé gott ár og okkur takist að skilja við erfiðleikana sem einkenna árið sem nú er að renna sitt skeið. Hins vegar skulum við muna, að breytingar ráðast ekki af væntingunum einum saman, voninni og óskhyggjunni. Breytingar verða þegar orðum fylgja efndir, þegar hugmynd fær vængi og verður að veruleika. Með öðrum orðum, þá er það okkar sjálfra að móta heiminn sem við lifum í, taka skóflu í hönd ef moka þarf skurð eða taka grunn að nýju húsi. „Reistu í verki, viljans merki,“ orti athafnaskáldið Einar Benediktsson í Íslandsljóði fyrir 120 árum – þegar þjóðin var ein sú fátækasta í Evrópu og horfði á franska fiskimenn moka upp fiski á miðum sem hún sótti ekki sjálf. Sat með hendur í skauti og fortíðarþrá sem hamlaði framförum.

Í dag er Ísland á öðrum stað, meðal þeirra þjóða sem búa við mesta velsæld. Framsóknin á sér margar skýringar, en líklega hefur engin ein breyta í jöfnunni meira vægi en kjarkurinn til framkvæmda. Viljinn til verka og draumurinn um bætt samfélag, þar sem fólk fær jöfn tækifæri. Sannfæring okkar um mikilvægi menntunar og samhygðin sem við sýnum þegar eitthvað bjátar á. Samhyggjan birtist síðast fyrir fáeinum dögum, þegar íbúar Seyðisfjarðar hröktust af heimilum sínum vegna náttúruvár og samfélagið á Austurlandi tók utan um þá. Það ætla stjórnvöld líka að gera, hjálpa til við uppbyggingu þess sem skemmdist og styðja með ráðum og dáð.

Sú viðleitni er besta veganestið inn í nýtt ár. Við ætlum að byggja aftur upp öflugt atvinnulíf. Styðja við mannlíf og menningu, stuðla að velsæld og hamingju. Skapa störf í stað þeirra sem glötuðust á árinu 2020 og snúa vörn í sókn. Framsókn fyrir þjóðina alla, þar sem við byggjum framfarir á traustum grunni án fortíðarþrár eða íhaldssemi sem hamlar grósku.

Þú sonur kappakyns!
Lít ei svo við með löngun yfir sæinn,
lút ei svo við gamla, fallna bæinn,
byggðu nýjan,
bjartan, hlýjan,
brjóttu tóftir hins.
Líttu út og lát þér segjast, góður,
líttu út, en gleym ei vorri móður.
Níð ei landið,
brjót ei bandið,
boðorð hjarta þíns.

-höf. Einar Benediktsson.

Áramót eru tímamót. Njótum þeirra í faðmi okkar nánustu og vinnum svo saman stóra sigra á nýju ári.

-

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 28. desember 2020.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta