Stórsókn í nýsköpun, rannsóknum og þekkingargreinum
Það er tilefni til að vera bjartsýn. Ljós er við enda ganganna með tilkomu bóluefnis og við vitum að betri tímar eru í vændum. Það eru uppi vonir um að hagvöxtur á heimsvísu muni taka verulega við sér vegna tækniframfara. Á Íslandi hafa framlög til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina aldrei verið umfangsmeiri en á þessu ári. Markmið stefnunnar eru skýr: Skapa fleiri störf í þekkingargreinum. Meginástæða þess að stjórnvöld fara í þessa vegferð er að við höfum trú á framtíðinni og viljum fjárfesta í henni. Fjárfestingin er arðbær, fjöldi nýrra starfa verður til og fjölbreytni atvinnulífsins eykst. Samvinna sveitarfélaga, menntastofnana, vísindasamfélags og atvinnulífsins verður kjarninn í nýrri klasastefnu til framtíðar og tryggir betri nýtingu fjármuna.
Fjárfestingin nær 3% af landsframleiðslu
Aukning ríkisframlaga til nýsköpunar, rannsókna og þekkingargreina hefur hækkað um 78% frá 2019. Hér fer saman kraftur hins opinbera og atvinnulífsins, þar sem endurgreiðslur hafa verið auknar til muna og fyrirtæki í þessum geira, sem stunda öflugar rannsóknir og þróunarstarf, hafa þegar nýtt. Tímasetningin á þessari stefnumörkun er rétt og eykur líkurnar á því að hlutfall starfa í þekkingargreinum fari vaxandi á komandi árum. Mestur vöxtur hefur verið í tæknifyrirtækjum á heimsvísu og mun hann halda áfram sökum þess að tækninotkun hefur aukist mikið á tímum kórónuveirunnar, hvort sem á við um fjarkennslu, netverslun eða fjarfundi. Ljóst er að margir eru að nýta tíma sinn betur vegna tækninnar og þróa nýjar aðferðir við störf sín. Sumir ganga svo langt að segja að á aðeins nokkrum mánuðum hafi stafræn þekking aukist meira en nokkur hafi gert sér vonir um á 10 árum og kalla það „10-ára tæknistökkbreytinguna“. Afar líklegt er að markmiðið um framlag hins opinbera til rannsóknar og þróunar verði 3% af landsframleiðslu í ár. Þetta markmið þótti draumkennt fyrir ekki svo löngu.
Rannsóknasjóður aldrei stærri
Tilkynnt hefur verið um úthlutun styrkja Rannsóknasjóðs fyrir árið 2021. Alls hljóta 82 ný verkefni styrk sem er mesti fjöldi frá upphafi og jafnframt hefur heildarupphæð sem úthlutað er aldrei verið hærri. Framlög til Rannsóknasjóðs hafa hækkað en hann er leiðandi samkeppnissjóður hér á landi sem hefur verið starfræktur frá árinu 2004. Hlutverk sjóðsins er að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknartengt framhaldsnám á Íslandi. Síðustu ár hafa fjárframlög til sjóðsins verið um 2,5 milljarðar kr. en í samræmi við stefnu Vísinda- og tækniráðs sem samþykkt var á síðasta ári voru fjárveitingar til sjóðsins hækkaðar í 3,7 milljarða kr. fyrir þetta ár. Árið 2020 var einnig veitt aukaframlag til sjóðsins vegna áhrifa Covid-19, alls 775,6 milljónir kr. Styrkveitingar til nýrra verkefna nema á þessu ári 1,3 milljörðum kr., en þar sem verkefnin eru almennt til þriggja ára verður heildarframlag vegna þeirra um 4 milljarðar kr. á árunum 2021-2023. Auk nýrra verkefna koma tæplega 2 milljarðar kr. til greiðslu á árinu vegna styrkja til eldri verkefna. Rannsóknasjóður styrkir einnig þátttöku íslenskra aðila í mörgum alþjóðlega samfjármögnuðum verkefnum. Það er afar ánægjulegt að fylgjast með verkefnunum og eru þau fjölbreytt; hátíðnikerfi; náttúruvá, mergæxli, utangenaerfðir og samlífi manna og örvera. Við lifum sannarlega á áhugaverðum tímum og það er að birta til!
Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Willum Þór Þórsso
Höfundar eru mennta- og menningarmálaráðherra og formaður fjárlaganefndar og þingflokksformaður Framsóknarflokksins.
-
Birt í Morgunblaðinu 23. janúar 2021