Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. febrúar 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Spennandi atvinnugrein - ein með öllu

Ástæður sumargleðinnar í minni barnæsku voru margar. Sumar voru þær sömu og gleðja börn nútímans, en sérstaklega þótti mörgum krökkum í mínu hverfi spennandi að komast í skólagarðana! Þar fengu börn að leika sér í mold og drullu, samhliða því að læra að rækta grænmeti sem þau færðu stolt heim til foreldra sinna þegar sumri tók að halla.

Einhverra hluta vegna þóttu skólagarðarnir samt ekki töff og matræktaráhuginn fjaraði jafnan út þegar unglingsárin nálguðust. Á fullorðinsárum kviknaði hann þó hjá mörgum á ný og á undanförnum árum hafa matjurtagarðar sprottið upp í húsagörðum um allt land.

Að sama skapi hefur neysla á grænmeti stóraukist í landinu. Mataræðið hefur orðið fjölbreyttara og sem betur fer hefur skilningur á mikilvægi þess að framleiða mat innanlands aukist. Þeir sem velja að gera matvælaframleiðslu að ævistarfi hafa átt á brattann að sækja. Hefðbundinn búskapur hefur víða dregist saman og orðræðan í garð innlendrar matvælaframleiðslu hefur stundum verið neikvæð. Sem betur fer hefur það snúist við og aukin innlend matvælaframleiðsla er nú talin lífsnauðsynleg og ómetanleg af mörgum ástæðum.

Raunar kallast hún á við mörg af helstu hagsmunamálum þjóðarinnar, og jafnvel alls heimsins. Þannig eru umhverfisáhrif innlendrar garðyrkju og annarrar matvælaframleiðslu jákvæð, í samanburði við áhrifin af innflutningi matvæla. Innlend matvælaframleiðsla stuðlar að fæðuöryggi þjóðarinnar, sem í eina tíð þóttu óþarfar áhyggjur en síðari tíma áföll hafa ótvírætt sýnt að fæðuöryggi er raunverulegt álitamál. Með aukinni og nútímalegri garðyrkju er umhverfisvænni íslenskri orku sáð í frjóan svörð, þar sem hugvit skiptir sífellt meira máli. Nýsköpun í garðyrkju hefur skapað áhugaverð störf, þar sem íslenskar aðstæður eru nýttar til að hámarka afraksturinn. Nýting á vatni og orku er margfalt skilvirkari og tækninýjungar fá að blómstra.

Aukinn áhugi neytenda á grænmeti hefur birst í auknum innflutningi. Íslenskir framleiðendur hafa aukið sína framleiðslu, en ekki haldið í við eftirspurnina og því hefur hlutdeild innlendrar framleiðslu minnkað. Hún er nú um 20% en með markvissum aðgerðum og nútímalegum framleiðsluaðferðum má auka hana til muna. Þannig er raunhæft að stefna á 40% hlutdeild árið 2030 og 50% innan fimmtán ára. Slíkur árangur hefði mikil samfélagsleg áhrif, myndi skapa fjölda starfa og spara gjaldeyri sem annars færi til kaupa á erlendu grænmeti.

Hugmyndir í þessa veru eru bæði raunhæfar og hagkvæmar. Stjórnvöld eiga að undirbúa jarðveginn og skapa góð rekstrarskilyrði. Íslenskir framleiðendur framleiða hágæðavöru og þess vegna er framtíðin björt!

-

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 13. febrúar 2021.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta