Handverk þjóðanna
Ef handverk iðnmenntaðra væri fjarlægt úr íslensku samfélagi væri tómlegt um að litast. Sem mennta- og menningarmálaráðherra hef ég lagt ríka áherslu á iðnnám og réttindi þeirra sem velja þá námsleið. Þess vegna hef ég gert grundvallarbreytingar á skipulagi iðnnáms. Umræða um iðnnám hefur breyst og ásóknin stóraukist á örfáum árum. Fagstéttir sem glímdu við mikla manneklu horfa fram á breyttan veruleika og færniþarfir samfélagsins eru betur uppfylltar en áður.
Íslenskt iðnnám stendur mjög vel í samanburði við erlent, enda kennarar vel menntaðir, þeir búa að fjölbreyttri reynslu og námsbrautirnar metnaðarfullar. Gerðar eru ríkar kröfur til nema um aga, iðni og fagmennsku í vinnubrögðum og tengsl iðnnámsins við atvinnulífið hafa ávallt verið sterk.
Hingað til hafa þeir einir lokið iðnnámi sem hafa útvegað sér námssamning hjá meistara í sínu fagi. Fyrirkomulagið hefur um margt gengið vel, en hitt er einkennilegt að skólinn hafi ekki ábyrgst að allir iðnnemar hafi jöfn tækifæri til að ljúka námi. Ótal dæmi eru til um nemendur sem hafa horfið frá iðnnámi að loknum bóklega hlutanum, þar sem þeir hafa ekki komist á samning, og leitað á önnur mið þótt hjartað hafi slegið með iðninni.
Slíkt er óviðunandi og því hef ég gefið út nýja reglugerð sem færir ábyrgðina á vinnustaðanámi yfir á skólana sjálfa. Nemendum verður að sjálfsögðu áfram heimilt að leita sér að samningi, í samráði við sinn skóla, en skólinn mun tryggja að allir nemendur hljóti þjálfun og leiðsögn við raunaðstæður, ýmist á einum vinnustað eða mörgum og í skólanum sjálfum ef ekki tekst að bjóða hefðbundið vinnustaðanám. Samhliða hættir skólinn að meta nemendur út frá samningstíma þeirra, og horfir fyrst og fremst til skilgreindra hæfniþátta við mat á færni þeirra og handbragði. Með þeim hætti verður námið markvissara og nemendur hafa möguleika á að útskrifast fyrr.
Önnur stór kerfisbreyting er til meðferðar á Alþingi, en þar mælti ég nýverið fyrir frumvarpi um breytingar á aðgangsskilyrðum í háskóla. Minn vilji er sá, að í stað þess að handhafar stúdentsprófa fái einir aðgang að háskólum standi þeir opnir fyrir öllum sem lokið hafa prófi á þriðja hæfniþrepi í framhaldsskóla – þ.m.t. þeim sem hafa tekið lokapróf í iðnnámi. Slík breyting er ekki bara réttlætismál, heldur líkleg til að efla háskólana, sem fá til sín nemendur með frábæran undirbúning fyrir háskólanám.
Breytingin mun vonandi líka hafa jákvæð áhrif á viðhorf foreldra sem áður hvöttu frekar börnin sín í hefðbundið bóknám, ekki síst vegna þess að bóknámið tryggði aðgang að fjölbreyttari möguleikum en handverkið. Þessar breytingar munu verða til þess að allir fái tækifæri til að fylgja hjartanu þegar kemur að námsvali.
-
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. mars 2021.