Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. mars 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Handverk þjóðanna

Lilja Alfreðsdóttir - mynd

Ef hand­verk iðnmenntaðra væri fjar­lægt úr ís­lensku sam­fé­lagi væri tóm­legt um að lit­ast. Sem mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra hef ég lagt ríka áherslu á iðnnám og rétt­indi þeirra sem velja þá náms­leið. Þess vegna hef ég gert grund­vall­ar­breyt­ing­ar á skipu­lagi iðnnáms. Umræða um iðnnám hef­ur breyst og ásókn­in stór­auk­ist á ör­fá­um árum. Fag­stétt­ir sem glímdu við mikla mann­eklu horfa fram á breytt­an veru­leika og færniþarf­ir sam­fé­lags­ins eru bet­ur upp­fyllt­ar en áður.

Íslenskt iðnnám stend­ur mjög vel í sam­an­b­urði við er­lent, enda kenn­ar­ar vel menntaðir, þeir búa að fjöl­breyttri reynslu og náms­braut­irn­ar metnaðarfull­ar. Gerðar eru rík­ar kröf­ur til nema um aga, iðni og fag­mennsku í vinnu­brögðum og tengsl iðnnáms­ins við at­vinnu­lífið hafa ávallt verið sterk.

Hingað til hafa þeir ein­ir lokið iðnnámi sem hafa út­vegað sér náms­samn­ing hjá meist­ara í sínu fagi. Fyr­ir­komu­lagið hef­ur um margt gengið vel, en hitt er ein­kenni­legt að skól­inn hafi ekki ábyrgst að all­ir iðnnem­ar hafi jöfn tæki­færi til að ljúka námi. Ótal dæmi eru til um nem­end­ur sem hafa horfið frá iðnnámi að lokn­um bók­lega hlut­an­um, þar sem þeir hafa ekki kom­ist á samn­ing, og leitað á önn­ur mið þótt hjartað hafi slegið með iðninni.

Slíkt er óviðun­andi og því hef ég gefið út nýja reglu­gerð sem fær­ir ábyrgðina á vinnustaðanámi yfir á skól­ana sjálfa. Nem­end­um verður að sjálf­sögðu áfram heim­ilt að leita sér að samn­ingi, í sam­ráði við sinn skóla, en skól­inn mun tryggja að all­ir nem­end­ur hljóti þjálf­un og leiðsögn við raunaðstæður, ým­ist á ein­um vinnustað eða mörg­um og í skól­an­um sjálf­um ef ekki tekst að bjóða hefðbundið vinnustaðanám. Sam­hliða hætt­ir skól­inn að meta nem­end­ur út frá samn­ings­tíma þeirra, og horf­ir fyrst og fremst til skil­greindra hæfniþátta við mat á færni þeirra og hand­bragði. Með þeim hætti verður námið mark­viss­ara og nem­end­ur hafa mögu­leika á að út­skrif­ast fyrr.

Önnur stór kerf­is­breyt­ing er til meðferðar á Alþingi, en þar mælti ég ný­verið fyr­ir frum­varpi um breyt­ing­ar á aðgangs­skil­yrðum í há­skóla. Minn vilji er sá, að í stað þess að hand­haf­ar stúd­ents­prófa fái ein­ir aðgang að há­skól­um standi þeir opn­ir fyr­ir öll­um sem lokið hafa prófi á þriðja hæfniþrepi í fram­halds­skóla – þ.m.t. þeim sem hafa tekið loka­próf í iðnnámi. Slík breyt­ing er ekki bara rétt­læt­is­mál, held­ur lík­leg til að efla há­skól­ana, sem fá til sín nem­end­ur með frá­bær­an und­ir­bún­ing fyr­ir há­skóla­nám.

Breyt­ing­in mun von­andi líka hafa já­kvæð áhrif á viðhorf for­eldra sem áður hvöttu frek­ar börn­in sín í hefðbundið bók­nám, ekki síst vegna þess að bók­námið tryggði aðgang að fjöl­breytt­ari mögu­leik­um en hand­verkið. Þess­ar breyt­ing­ar munu verða til þess að all­ir fái tæki­færi til að fylgja hjart­anu þegar kem­ur að námsvali.

-

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. mars 2021.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta