Staðan hefur aldrei verið betri
Hlutverk stjórnmálamanna er að bæta samfélagið. Styrkja innviðina og skapa grundvöll fyrir einstaklinginn að blómstra á eigin forsendum og uppfylla drauma sína í leik og starfi.
Þegar stjórnarsáttmálinn var undirritaður í nóvemberlok 2017 voru markmiðin háleit og metnaðarfull. Núna, 1.267 dögum síðar, er verkefnalistinn svo til tæmdur þrátt fyrir orkuna, tímann og peningana sem hafa farið í baráttuna við Covid-19.
Í mennta- og menningarmálum hafa kerfis- og réttindabætur verið áberandi. Við höfum aukið faglegt sjálfstæði kennara, fjölgað starfstækifærum með einföldun leyfisbréfakerfis, fjölgað kennaranemum og sýnt stéttinni þá virðingu sem hún á skilið, m.a. með ómældu samráði í öllu helstu málum.
Við höfum lagt aukna áherslu á læsi, gefið út ný matsviðmið í 4. og 7. bekk og lagt grunninn að nýju námsmati í stað samræmdra prófa. Við höfum sett af stað verkefni sem miða að þörfum drengja í skólakerfinu og hafið vinnu við aðalnámskrá leikskóla.
Grundvallarbreytingar hafa verið gerðar á verknámskerfinu. Iðnmenntaðir hafa nú sama rétt og bókmenntaðir til háskólanáms og skipulagi vinnustaðanáms hefur verið breytt. Jákvæðari viðhorf, grundvallarkerfisbreytingar og markvisst kynningarstarf hefur aukið mjög áhuga fólks á starfsnámi af ýmsu tagi og aðsóknin er fordæmalaus!
Við höfum aukið jafnrétti til náms með nýjum Menntasjóði námsmanna, hækkun á framfærsluviðmiðum, beinum fjárstuðningi við foreldra í námi, 30% afskrift höfuðstóls námslána við námslok og afnámi ábyrgðarmannakerfisins. Breytingarnar leiða til miklu betri fjárhagsstöðu að námi loknu, sem auðveldar fólki skrefin út í hefðbundið fjölskyldulíf.
Við fjölguðum starfslaunum listamanna, veittum fleiri verkefnastyrki, rekstrarstuðning við sjálfstætt starfandi og menningartengd fyrirtæki. Fyrstu sviðslistalögin eru orðin að veruleika og Sviðslistamiðstöð er að komast á laggirnar. Við lögfestum starfsemi Íslenska dansflokksins, stofnuðum listdansráð, breyttum skipan og hlutverki Þjóðleikhúsráðs og erum að móta framtíðarumgjörð um óperustarf í landinu. Við mótuðum fyrstu kvikmyndastefnuna, stækkuðum kvikmyndasjóð og veittum fé til sjónvarpsþáttagerðar. Við settum lög um stuðning við útgáfu bóka á íslensku, sem hefur nú aukist um tugi prósenta.
Fjárveitingar til háskóla og framhaldsskóla hafa aldrei verið hærri, tækjakostur verkmenntaskóla hefur verið endurnýjaður og stuðningur við símenntunarmiðstöðvar aukinn. Vísinda- og rannsóknasjóðir hafa stækkað um helming og vinna vegna máltækniáætlunar er á fleygiferð.
Verkefnin úr stjórnarsáttmálanum eru flest afgreidd, en ný taka við innan skamms. Róttækar umbætur hafa átt sér stað og meginmarkmiðið er að bæta samfélagið okkar.