Að efna loforð
Þing var rofið í vikunni og með því hófst í raun kosningabaráttan fyrir alþingiskosningarnar þann 25. september. Þær munu marka nýtt upphaf, annað hvort endurnýjað umboð sitjandi ríkisstjórnar eða færa þjóðinni nýja.
Fleiri flokkar en áður munu bjóða fram. Aukinn áhugi fólks á stjórnmálaþátttöku er gleðilegur, enda eiga frambjóðendur það sameiginlegt að vilja bæta samfélagið. Við höfum ólíkar skoðanir á leiðum og aðgerðum, en takmark okkar allra er að vinna til góðs.
Í upphafi kjörtímabilsins setti ríkisstjórnin sér metnaðarfull markmið. Þau hafa meira og minna náðst, hvort sem horft er til mýkri eða harðari mála. Kerfisbreytingar hafa orðið í mikilvægum málaflokkum og ekki síður löngu tímabærar viðhorfsbreytingar. Málaflokkar Framsóknarráðherranna hafa blómstrað á kjörtímabilinu og með umhyggju fyrir fólki í farteskinu hefur tekist að efna svo til öll loforð okkar úr stjórnarsáttmálanum. Kjör og lífsgæði námsmanna hafa stórbreyst til batnaðar, menntuðum kennurum hefur fjölgað, réttindi og starfsþróunarmöguleikar auknir og samstarf stjórnvalda við lykilfólk í skólakerfinu aukist. Jafnvægi milli bók- og verknáms hefur stóraukist, háskólar hafa verið opnaðir fyrir iðnmenntuðum og grundvallarbreyting hefur orðið í viðhorfum til starfs- og tæknináms. Hola íslenskra fræða er nú hús, fjárveitingar í lista- og menningarsjóði hafa stóraukist, bókaútgáfa stendur í blóma vegna opinbers stuðnings við útgáfu bóka á íslensku og íslensk kvikmyndagerð hefur verið sett á viðeigandi stall, með skýrri stefnu og markvissum aðgerðum. Við höfum skapað spennandi umgjörð fyrir sviðslistir með nýjum lögum, tryggt betri fjármögnun framhalds- og háskóla, sett lög um lýðskóla, stækkað bókasafnssjóð rithöfunda, undirbúið menningarhús um allt land og framkvæmdir af ýmsum toga – nýjar skólabyggingar fyrir list-, verk- og bóknám, þjóðarleikvanga í íþróttum o.fl. Við höfum staðið vörð um skólastarf á tímum heimsfaraldurs og stutt markvisst við íþrótta- og menningarfélög, svo þau komi standandi út úr kófinu.
Afrekalistinn er sambærilegur í öðrum ráðuneytum Framsóknarflokksins – þar sem réttindi barna hafa t.d. fengið fordæmalausa athygli og margvíslegar kerfisbreytingar hafa skilað frábærum árangri og réttarbótum. Foreldraorlof hefur verið lengt, nýjar húsnæðislausnir kynntar til leiks og félagslega kerfið eflt. Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu hefur ráðherra leyst úr flóknum málum, komið langþráðum samgöngubótum til leiðar stuðlað að auknu jafnræði milli landsbyggðar og SV-hornsins, t.d. með Loftbrúnni svonefndu.
Efndir kosningaloforða er besta vísbendingin sem kjósendur geta fengið um framtíðina. Á þessu kjörtímabili hefur Framsóknarflokkurinn vökvað samfélagið með góðri samvinnu við aðra, opnum hug og hófsemd. Við höfum sýnt kjark í verki og samfélagið hefur notið góðs af. Við viljum halda áfram okkar góða starfi, í samvinnu við hvern þann sem deilir með okkur sýninni um gott samfélag.
-
Greinin birtist í Morgunblaðinu, 14. ágúst 2021