Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. september 2021 Mennta- og barnamálaráðuneytiðLilja Alfreðsdóttir

Fjárfesting í fólki er líka efnahagsmál

Skila­boðin sem kjós­end­ur sendu stjórn­völd­um um liðna helgi voru skýr. Þjóðin valdi ann­ars veg­ar áfram­hald­andi stöðug­leika í efna­hags­mál­um og hins veg­ar að fjár­festa í fólki. Rík­is­stjórn­in jók þingstyrk sinn og fékk umboð til að end­ur­nýja sam­starfið. Sam­ræður þar að lút­andi eru hafn­ar og á næstu dög­um ættu lín­ur að skýr­ast. Í samn­ingaviðræðum geng­ur eng­inn að neinu vísu og fólk mæt­ir til leiks með opn­um hug, en mark­miðið er skýrt; að vinna þjóðinni gagn og auka vel­sæld í land­inu.

Efna­hags­horf­urn­ar fyr­ir árið hafa styrkst, eft­ir því sem hjól at­vinnu­lífs­ins snú­ast hraðar og áhrif heims­far­ald­urs minnka. Gert er ráð fyr­ir 4% hag­vexti í ár og at­vinnu­leysi hef­ur minnkað hratt. At­vinnuþátt­taka nálg­ast það sem hún var fyr­ir Covid og horf­ur eru góðar.

Mót­vægisaðgerðir vegna áhrifa heims­far­ald­urs kostuðu sitt, en í sam­an­b­urði við önn­ur lönd er staða rík­is­sjóðs góð. Vissu­lega er halli á rík­is­sjóði um þess­ar mund­ir, en sterk staða fyr­ir Covid og mark­viss niður­greiðsla skulda á und­an­förn­um ára­tug skap­ar góða viðspyrnu sem stjórn­völd munu nýta til að snúa við tíma­bundn­um halla­rekstri. Rétt er að minna á, að rík­is­út­gjöld­um vegna Covid var fyrst og fremst ætlað að verja af­komu fólks og sam­fé­lags­lega innviði svo áhrif heims­far­ald­urs yrðu ekki var­an­leg.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn legg­ur ríka áherslu á stöðug­leika í efna­hags­mál­um. Að sam­spil pen­inga­stefnu, rík­is­fjár­mála og vinnu­markaðar­ins sé gott og sjálf­bært til langs tíma. Þá er mik­il­væg að vaxta­stig í land­inu sé hag­stætt, en með eðlis­breyt­ingu á lána­markaði eru stý­ritæki Seðlabank­ans nú skil­virk­ari en áður. Stór hluti hús­næðislána er nú óverðtryggður og fyr­ir vikið skil­ar stýri­vaxta­hækk­un sér miklu hraðar en áður inn í neysl­una. Það er fagnaðarefni, enda betra til að halda niðri verðbólgu sem er eitt helsta hags­muna­mál al­menn­ings.

Á und­an­förn­um árum hef­ur Fram­sókn lagt áherslu á að fjár­festa í fólki. Þeirri stefnu héld­um við til streitu í aðdrag­anda kosn­inga, og það mun­um við gera í viðræðum um mynd­un rík­is­stjórn­ar. Í mennta­mál­um eru spenn­andi tím­ar fram und­an, þar sem fyr­ir ligg­ur aðgerðaáætl­un til þriggja ára sem mun efla mennt­un í land­inu, ár­ang­ur og skil­virkni í skóla­starfi, læsi ung­menna og sköp­un­ar­kraft þeirra. Allt miðar að því tryggja heild­stæða skólaþjón­ustu, með viðeig­andi stuðningi við þá sem þurfa og inn­grip strax í upp­hafi skóla­göngu til að bæta nám og far­sæld barna. Sam­hliða er mik­il­vægt að kerf­is­breyt­ing­ar í mál­efn­um barna nái fram að ganga, en barna­málaráðherra hef­ur verið óþreyt­andi í bar­áttu sinni fyr­ir auk­inni vel­sæld barna og mun fyr­ir hönd Fram­sókn­ar leiða vinnu til hags­bóta fyr­ir eldri borg­ara. Staða þeirra er mis­jöfn, því á meðan sum­ir hafa það gott eru aðrir illa stadd­ir. Brýnt er að leysa þann vanda, í góðri sam­vinnu við alla helstu hagaðila svo eng­inn verði út und­an.
  • Fjárfesting í fólki er líka efnahagsmál - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta