Draugagangur
Gömul óværa hefur minnt á sig á undanförnum misserum. Samkvæmt gamalli þjóðtrú er ekki hægt að drepa drauga, en hins vegar má kveða þá niður svo ekki spyrjist til þeirra um styttri eða lengri tíma. Sú lýsing virðist eiga við um verðbólgudrauginn, sem reglulega er vakinn upp og getur svifið um hagkerfið allt ef ekki er haldið fast um stjórnartaumana.
Nú ber reyndar svo við, að verðbólga hefur aukist um allan heim en ekki aðeins á Íslandi. Önnur óværa er a.m.k. að hluta ábyrg fyrir þessari alþjóðlegu þróun, því verðbólga virðist vera fylgifiskur Covid-19 í mörgum löndum heims – ekki síst í Bandaríkjunum, þar sem verðbólga hefur fimmfaldast frá ársbyrjun. Skýringa er einkum að leita í miklum og snörpum efnahagsbata, hækkun olíu- og hrávöruverðs, vöruskorti og hærri framleiðslu- og flutningskostnaði. Eftirspurn hefur aukist hratt og á mörgum mörkuðum hefur virðiskeðjan rofnað, með tilheyrandi raski á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Fyrir vikið hefur innflutt verðbólga aukist á Íslandi og mældist verðbólga í september 4,4% ásamt því að verðbólguvæntingar hafa aukist á ný. Þar spilar inn í hækkandi verðlag á nauðsynjavörum og svo auðvitað húsnæðisliðurinn, en ört hækkandi húsnæðisverð er aðkallandi vandi sem verður að leysa. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær, að undirliggjandi verðbólga hélt áfram að hjaðna, þótt hún sé enn nokkur. Greiningadeildir búast við því að hámarki verði náð í kringum áramótin, en þaðan í frá muni verðbólga lækka og verða um 2,5% á seinni hluta næsta árs.
Þetta þarf að hafa í huga við hagstjórnina og brýnt er að grípa til mótvægisaðgerða svo langtíma-verðbólgan verði hófleg. Nú þegar hefur Seðlabankinn gripið til aðgerða, hækkað vexti ásamt því að setja þak á hlutfall veðlána og greiðslubyrði húsnæðislána. Stefnan í ríkisfjármálum þarf að taka mið af þessari þróun og leggja sitt lóð á vogarskálarnar, en hér skiptir tímasetningin miklu máli. Ekki má draga úr efnahagslegum aðgerðum og stuðningi vegna Covid-19 of snemma, en heldur ekki of seint.
Þrátt fyrir allt eru þó góð teikn á lofti. Mikilvægar atvinnugreinar eru smám saman að styrkjast, með jákvæðum áhrifum á íslenska hagkerfið. Þannig má ætla að aukinn fjöldi erlendra ferðamanna styrki gengi krónunnar, auk þess sem útlit er fyrir óvenju góða loðnuvertíð. Ef væntingar í þá veru raungerast mun útflutningur aukast og gengið styrkjast, sem myndi leiða til verðlækkana á innfluttum vörum. Þá er rétt að rifja upp eðlisbreytingu á íslenskum lánamarkaði, en vegna aukins áhuga á óverðtryggðum lánum eru stýritæki Seðlabankans skilvirkari en áður. Stýrivaxtahækkanir, sem áður þóttu bitlausar á verðtryggðum húsnæðislánamarkaði, hafa nú mun meiri áhrif á efnahag heimilanna og eru líklegri til að slá á þenslu. Fréttir af viðræðum formanna ríkisstjórnarflokkanna um endurnýjað samstarf gefa líka tilefni til bjartsýni. Við erum á réttri leið.
-
Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. október, 2021.