Hoppa yfir valmynd

Ávarp ráðherra

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherraÁ árinu 2022 tók nýtt ráðuneyti mennta- og barnamála á sig mynd. Nýtt skipulag var innleitt í ráðuneytinu með nýjum skrifstofum, opnum vinnurýmum, áherslu á teymisvinnu og að öll kerfi vinni í takt í átt að farsæld barna. Innleiðing farsældarlaga fór formlega af stað, sem og undirbúningur að viðamiklum breytingum á menntakerfinu með bætta þjónustu og samþættingu að leiðarljósi. Þá var áhersla lögð á eflingu íþrótta- og tómstundastarfs.

Farsæld barna

Árið 2022 var fyrsta gildisár nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Unnið var að innleiðingunni með sveitarfélögum og undirstofnunum. Fjármögnun var nánar útfærð með framlögum á vegum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að mæta kostnaði sveitarfélaga og hlutverk, hæfisskilyrði og menntunarkröfur tengiliða og málstjóra skilgreind.

Nýtt diplómanám á sviði farsældar barna hófst um haustið sem ætlað er að styðja við innleiðingu laganna með því að veita nemendum þekkingu á barnamiðaðri nálgun, samþættingu þjónustu o.fl. Aðsókn var vonum framar með alls 127 nemendum víðs vegar að af landinu.
Skipuð var þingmannanefnd um málefni barna fyrir árin 2022-2025. Hún vinnur að endurskoðun lagaumhverfis og stefnumótun í málefnum barna og innleiðingu laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.

Áherslan var á fjölbreytta þjónustu við börn. Gerðir voru styrktarsamningar við ýmis félagasamtök til að tryggja úrræði fyrir börn sem verða fyrir ofbeldi, börn sem beita ofbeldi, börn sem búa við krefjandi heimilisaðstæður og foreldra þeirra, börn í áhættuhegðun og ungt fólk í leit að ráðgjöf. Kynferðisofbeldi í framhaldsskólum var í brennidepli og tímabundið fagráð skipað til að aðstoða skólana við meðferð slíkra mála. Þá var stutt við framleiðslu sjónvarpsþátta um skaðsemi hatursorðræðu.

Meðferðarheimilið Bjargey í Eyjafirði var opnað sem liður í að fjölga úrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda. Meðferðarheimilið er ríkisrekið langtímameðferðarheimili á vegum Barna- og fjölskyldustofu ætlað stúlkum og kynsegin.

Meðal áherslna nýs ráðuneytis er lýðræðisleg þátttaka barna um málefni þeirra. Kappkostað var að bjóða börnum þátttöku í viðburðum og samráði ráðuneytisins á árinu. Gerður var samningur við alþjóðlegu samtökin Child Rights Connect um réttindamiðaða nálgun í málefnum barna á Íslandi og innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá gaf ráðuneytið út sína fyrstu stefnu um tómstunda- og félagsstarf barna og ungmenna.

Stríðið í Úkraínu setti mark sitt á starfsemi ráðuneytisins á árinu. Viðamikil vinna fór fram í við að liðka fyrir móttöku, aðlögun og skólagöngu flóttabarna frá Úkraínu og víðar í samstarfi við sveitarfélögin og stofnanir með leiðbeiningum og styrkveitingum. Undirrituð varsameiginleg yfirlýsing ráðherra íþróttamála 37 ríkja um aðgerðir gegn Rússlandi og Belarús á sviði íþrótta.

Viðamiklar breytingar á menntakerfinu

Á árinu voru kynntar voru viðamiklar breytingar á menntakerfinu í samræmi við menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030 með höfuðáherslu á eflingu skólaþjónusta þvert á skólastig. Tilkynnt var um ný heildarlög um skólaþjónustu og umfangsmikið samráðsferli sett í gang til að móta framtíðarskipan skólaþjónustu hérlendis. Samhliða var tilkynnt um niðurlagningu Menntamálastofnunar og stofnun nýrrar mennta- og skólaþjónustustofnunar með nýjum áherslum og forstöðu.

Nýr Matsferill var kynntur til leiks sem koma á í staðinn fyrir samræmd könnunarpróf. Um nýja verkfærakistu er að ræða fyrir kennara og skóla sem mun innihalda fjölbreytt og hnitmiðuð rafræn próf og verkefni fyrir grunnskólanemendur og kennara til að fylgjast með námsframvindu nemenda og bæta nám þeirra og námsárangur. Umfangsmikil kynning á matsferli átti sér stað um allt land þar sem safnað var endurgjöf frá nemendum, forsjáraðilum, starfsfólki skóla og öðrum áhugasömum sem innlegg í áframhaldandi þróun námsmatsins.

Kynntar voru aðgerðir til að fjölga nemum í starfsnámi og stækka starfsnámsaðstöðu skóla í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þá var áframhaldandi rekstur starfsmenntanáms í garðyrkju á vegum Garðyrkjuskólans á Reykjum tryggður og færður undir Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Öflugt íþróttastarf

Í febrúar tilkynnti ráðuneytið um afléttingu allra takmarkana á skólastarfi vegna COVID-19. Lauk þar með umfangsmikilli vinnu undanfarinna mánaða við að halda skólastarfi gangandi eftir fremsta megni í heimsfaraldri. Íþróttahreyfingin fékk veitta styrki til að bæta upp tekjutap og viðhalda öflugu íþróttastarfi hérlendis.

Stærsta verkefnið til eflingar íþrótta sem unnið var að á árinu var undirbúningur byggingar nýrrar þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir í Laugardal. Viljayfirlýsing þess efnis milli ríkis og borgar var undirrituð í maí og hóf framkvæmdanefnd í kjölfarið störf. Laugardalshöll, sem þjónað hefur þjóðinni vel sem þjóðarleikvangur, er komin til ára sinna og þörfin á bættri aðstöðu sem uppfyllir alþjóðakröfur brýn.

Nýtt embætti Samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsmála hefur gefið góða raun. Mikil eftirspurn er eftir þjónustunni, bæði af hálfu íþróttafólks og -félaga, sem ætlað er að stuðla að vellíðan og öryggi iðkenda í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Greinileg þörf er á úrræðinu og var stutt frekar við starfsemina á árinu til að mæta aukinni eftirspurn.

Árið 2022 markaði 50 ára afmælishátíð „einvígis aldarinnar“ milli Bobby Fischer og Boris Spassky í skák. Heimsmeistaramót í Fischer-slembiskák með bestu skákmönnum heims auk fjölda annarra viðburða voru haldnir á árinu í tilefni afmælisins með fjárstuðningi stjórnvalda.
Verkefni stjórnvalda „Farsælt samfélag fyrir öll – brúum bilið“ var sett af stað en það miðar að því að efla íþróttaástundun fatlaðs fólks, ekki síst fatlaðra barna og ungmenna.

Þá hófst undirbúningur að eflingu afreksíþróttastarfs með betri umgjörð og réttindi fyrir afreksíþróttafólk.

Loks má ekki gleyma sjálfboðaliðanum sem er lykillinn að því að viðhafa öflugt íþróttastarf hérlendis. Framlag hans má ekki taka sem sjálfsagðan hlut og var kynningarátakið Alveg sjálfsagt sett í loftið og ráðstefna haldin til að draga fram þetta veigamikla framtak sem knýr áfram allt íþróttastarf.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta