Hoppa yfir valmynd

Kærunefnd jafnréttismála

Úrskurðir nefndar
Dómsmálaráðuneytið

Kærunefnd jafnréttismála er starfrækt á grundvelli III. kafla laga um stjórnsýslu jafnréttismála nr. 151/2020 og reglugerðar um störf kærunefndar jafnréttismála nr. 1320/2024. Kærunefndin er sjálfstæð og óháð í störfum sínum og sæta úrskurðir hennar ekki kæru til æðra stjórnvalds. Úrskurðir nefndarinnar eru bindandi gagnvart málsaðilum en þeim er heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla.

Kærunefnd jafnréttismála hefur persónuverndarstefnu í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. 

Árlega vinnur kærunefnd jafnréttismála skýrslu um störf sín, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um stjórnsýslu jafnréttismála. Ársskýrslur nefndarinnar má finna hér að neðan:

Hvað er unnt að kæra til kærunefndar jafnréttismála?

Einstaklingar, fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök sem telja að ákvæði laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, og laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, hafi verið brotin gagnvart sér geta leitað atbeina kærunefndar jafnréttismála, sbr. lög nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála.

Kærufrestur

Kærur skulu berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að vitneskja um ætlað brot lá fyrir, frá því að ástandi sem talið er brot á hlutaðeigandi lögum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot. Sé leitað rökstuðnings á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga tekur fresturinn að líða þegar sá rökstuðningur liggur fyrir. Kærunefnd jafnréttismála getur þegar sérstaklega stendur á ákveðið að taka erindi til meðferðar þótt framangreindur frestur sé liðinn, þó aldrei ef liðið er meira en eitt ár. 

Málsmeðferð hjá nefndinni

Málsmeðferð fyrir kærunefnd jafnréttismála skal að jafnaði vera skrifleg en þó getur nefndin kallað málsaðila eða fulltrúa þeirra á sinn fund telji nefndin ástæðu til. Að öðru leyti fer um málsmeðferð hjá kærunefnd jafnréttismála samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og nánari reglum sem ráðherra er heimilt að setja að fenginni umsögn kærunefndar jafnréttismála.

Eyðublað

  • Rafræn kæra - Innskráning með rafrænum skilríkjum, skil á netinu. 
  • Eyðublað á PDF formi - Nauðsynlegt er að vista eyðublaðið áður en það er fyllt út. Það er síðan prentað út og sent til nefndarinnar (sjá aðsetur hér að neðan) eða sent með tölvupósti á netfang kærunefndarinnar [email protected]

Eyðublaðið auðveldar málatilbúnað fyrir nefndinni og tryggir að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir þegar í upphafi málsmeðferðar. Skilmerkilega skal greina hvert ágreiningsefnið er, hver er krafa aðila og rökstuðning fyrir henni. Ekki er skylt að nota eyðublaðið.

Fylgigögn

Æskilegt er að þau gögn fylgi með sem geta haft áhrif á úrlausn máls.

Kærunefnd jafnréttismála getur krafist frekari gagna frá málsaðilum telji hún málið ekki nægjanlega upplýst.

Aðsetur nefndarinnar er hjá:

Úrskurðarnefnd velferðarmála
Katrínartúni 2
105 Reykjavík
Netfang: [email protected]

Skipan nefndarinnar

Samkvæmt lögum nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála skipar ráðherra samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar þrjá fulltrúa í kærunefnd jafnréttismála til þriggja ára í senn. Þeir skulu allir hafa lokið embættis- eða meistaraprófi í lögfræði og a.m.k. tveir þeirra, þar á meðal formaður, hafa sérþekkingu á sviði jafnréttismála. A.m.k. einn þeirra skal hafa sérþekkingu á jafnrétti kynjanna og einn á jafnrétti í víðtækari merkingu. Formaður og varaformaður, sem jafnframt er aðalmaður, skulu uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara. Jafnmargir varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Kærunefnd jafnréttismála er heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila ef hún telur þörf á. 

Aðalmenn

  • Ari Karlsson, lögmaður, formaður
  • Andri Árnason, lögmaður, varaformaður
  • Maren Albertsdóttir, lögmaður

Varamenn

  • Anna Tryggvadóttir, skrifstofustjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu, varamaður Andra Árnasonar
  • Berglind Bára Sigurjónsdóttir, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, varamaður Ara Karlssonar
  • Sigurður Örn Hilmarsson, lögmaður, varamaður Marenar Albertsdóttur
Úrskurða- og kærunefndir
Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta