Vinnuhópur um yfirfærslu greiðsluflokks sjúkradagpeninga
Þann 23. júní sl. voru samþykkt á Alþingi lög nr. 104/2024, um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga. Með lögunum verða m.a. gerðar breytingar á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og mælt fyrir um sjúkra- og endurhæfingargreiðslur í þeim lögum. Breytingarnar taka gildi 1. september 2025. Í frumvarpi til laganna segir að stofnaður verði starfshópur sem hafi það hlutverk að skoða samspil hinna nýju greiðsluflokka og sjúkradagpeninga þar sem m.a. verði hugað að flutningi sjúkradagpeninga til Tryggingastofnunar. Eru sjúkradagpeningar nú greiddir af Sjúkratryggingum skv. 32. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.
Vinnuhópurinn hefur það hlutverk að meta áhrif breytinganna á sjúkradagpeninga skv. lögum um sjúkratryggingar og yfirfærslu réttindanna frá Sjúkratryggingum til Tryggingastofnunar. Yfirfærsla sjúkradagpeninga til Tryggingastofnunar, sem heyrir undir félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, fæli í sér mikla einföldun á framfærslu í veikindum þar sem einstaklingar þyrftu þá aðeins að leita til einnar stofnunar auk þess sem tækifæri gefst til að fella niður greiðsluflokk sem nær ekki lágmarksframfærslu. Sérfræðingar hlutaðeigandi ráðuneyta telja að standa þurfi vel að yfirfærslunni þar sem um viðkvæman markhóp er að ræða og mikilvægt að tryggja framfærslu hans.
Vinnuhópinn skipa
- Pétur Örn Pálmarsson, heilbrigðisráðuneyti, formaður
- Tryggvi Þórhallsson, tilnefndur af félags- og vinnumarkaðsráðuneyti
- Ingibjörg Sigríðar Elíasdóttir, tilnefnd af félags- og vinnumarkaðsráðuneyti
- Berglind Ýr Karlsdóttir, tilnefnd af Sjúkratryggingum Íslands
- Þórir Ólason, tilnefndur af Tryggingastofnun
- Agla K. Smith, tilnefnd af Tryggingastofnun
Vinnuhópurinn er skipaður af heilbrigðisráðherra 3. september 2024. Gert er ráð fyrir að hópurinn ljúki störfum fyrir 1. febrúar 2025 og skili niðurstöðum sínum til félags- og vinnumarkaðsráðherra og heilbrigðisráðherra.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.