Stýrihópur um innleiðingu nýs kjarasamnings lækna
Í framhaldi samþykktar kjarasamnings fjármálaráðherra f.h. ríkisins og Læknafélags Íslands dags. 27. nóvember 2024 skipar heilbrigðisráðherra stýrihóp sem starfar á gildistíma kjarasamningsins og hefur það hlutverk að tryggja innleiðingu og eftirfylgni þeirra umbóta og kerfisbreytinga sem kjarasamningurinn kallar á, á landsvísu.
Stýrihópurinn skal eiga í reglubundnu samráði við heilbrigðisráðherra um framgang verkefnisins. Stýrihópi ber að fylgja eftir ákvæðum og samþykktum í kjarasamningi aðila, þ.m.t. sértækum ákvörðunum á heilbrigðisstofnunum, í nánu samstarfi við yfirstjórn stofnunar.
Stýrihópurinn fylgist með framvindu verkefnisins til að tryggja að markmið náist og forsendur standist og hefur heimild til að bregðast við ef svo er ekki. Stýrihópurinn upplýsir ráðherra sérstaklega ef stefnir í þjónustuskerðingu eða að innleiðing leiði til kostnaðarauka umfram fjárveitingu. Þá ber hópurinn ábyrgð á að útbúnar verði miðlægar leiðbeiningar og stuðningsefni til nota fyrir stjórnendur, lækna og aðra haghafa. Nýta skal m.a. verkefnið Vinnuskipulag lækna sem grunn þess umbótastarfs sem vinna þarf á heilbrigðisstofnunum landsins í kjölfar nýs kjarasamnings aðila. Verkefnið á uppruna sinn í viljayfirlýsingu sem Læknafélag Íslands, Félag sjúkrahúslækna og Landspítali undirrituðu í nóvember 2022. Stýrihópurinn setur sér starfs- og vinnureglur og hittist reglulega eins og nauðsyn krefur á innleiðingartímabilinu.
Stýrihópinn skipa
- Tómas Þór Ágústsson, án tilnefningar, formaður stýrihópsins
- Steinunn Þórðardóttir, fulltrúi Læknafélags Íslands
- Halldóra Friðjónsdóttir, fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins
- Fríða Björg Leifsdóttir, er verkefnastjóri stýrihópsins.
Stýrihópurinn er skipaður af heilbrigðisráðherra 16. janúar 2025.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.