Starfshópur um útvíkkað starfssvið sérfræðinga í hjúkrun
Í aðgerðaáætlun með heilbrigðisstefnu 2024 til 2028 eru m.a. sett fram þau markmið að auka gæði heilbrigðisþjónustu, bæta heilsu notenda, hafa gott aðgengi að þjónustu og sem hagkvæmustu nýtingu fjármagns. Til að ná þeim markmiðum þarf að skoða ávinning af tilfærslu afmarkaðra verkefna milli fagstétta sem hafa forsendur til að taka að sér ný verkefni þó þannig að öryggi þjónustunnar sé tryggt.
Starfshópnum er ætlað að skoða hvernig hámarka megi nýtingu menntunar og þekkingar sérfræðinga í hjúkrun með mögulega víkkun á starfssviði þeirra í huga. Horfa skal sérstaklega til þjónustu þar sem skortur er á heilbrigðisþjónustu eins og t.d. fyrir aldraða, skjólstæðinga með langvinn heilsufarsvandamál eða geðrænan vanda, á heilsugæslustöðvum og í heimahjúkrun. Einnig skal greina þörf fyrir breytingar á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum þessu tengdu. Lögð skal áhersla á að ábyrgð og hlutverk sérfræðinga í hjúkrun byggist á þeirri menntun og hæfni sem sérfræðingar hafa. Starfshópurinn greini einnig þörf fyrir frekara viðbótarnám tengdu mögulega víkkuðu starfssviði. Starfshópurinn skal hafa öryggi sjúklinga og gæði heilbrigðisþjónustu að leiðarljósi í störfum sínum.
Í framhaldi af niðurstöðum starfshópsins mun heilbrigðisráðherra leggja fram tillögur að breytingum á reglugerð nr. 512/2013 um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðileyfi.
Starfshópinn skipa
- Gísli Kort Kristófersson, tilnefndur af Sjúkrahúsinu á Akureyri, formaður
- Guðbjörg Pálsdóttir, tilnefnd af Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga
- Þórgunnur Hjaltadóttir, tilnefnd af embætti landlæknis
- Ólafur Guðbjörn Skúlason, tilnefndur af Landspítala
- Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, tilnefnd af Heilsugæsu höfuðborgarsvæðisins
- Ester Petra Gunnarsdóttir, fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins, án tilnefningar
Starfsmaður hópsins er Andrea Jónsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.