Starfshópur um þátttöku íslenskra fyrirtækja og ríkisins á mörkuðum með kolefniseiningar
Skipaður 18. apríl 2023.
Hér á landi hefur til skamms tíma verið virkur valkvæður markaður með kolefniseiningar, þar sem fyrirtæki og stofnanir hafa getað keypt kolefniseiningar frá skógrækt og endurheimt votlendis, til að sýna fram á kolefnisjöfnun á starfsemi sinni. Fram til þessa hafa engar vottaðar heimildir verið á markaði hérlendis, þ.e. seljendur hafa ekki getað sýnt fram á það með afgerandi hætti að kolefnisbinding eða samdráttur í losun hafi átt sér stað.
Víða erlendis eru starfræktir kolefnismarkaðir og eru einingar á þeim mörkuðum í flestum tilfellum vottaðar af þar til bærum aðilum. Íslensk fyrirtæki hafa getað keypt kolefniseiningar á þeim mörkuðum.
Á grundvelli 6. gr. Parísarsamningsins er unnið að því að setja á laggirnar tvenns konar kerfi. Annars vegar er um að ræða alþjóðlegan markað með kolefniseiningar (gr. 6.4). Verkefni og einingar sem frá þeim koma munu lúta ströngu eftirliti/vottunaarferli. Einingar sem til verða á þeim markaði geta ríki nýtt til að standa við skuldbindingar sínar gagnvart loftslagssamningum um samdrátt í losun, að því gefnu að sett hafi verið fram áform um slíkt í landsmarkmiðum (NDC) viðkomandi ríkis. Þau ríki sem hýsa verkefni þurfa að gefa heimild fyrir því að slík verkefni séu starfrækt innan þeirra lögsögu. Hins vegar er um um að ræða kerfi sem byggir á tvíhliða samstarfi ríkja um verkefni sem leiða til samdráttar í losun eða stuðla að bindingu kolefnis (gr. 6.2). Nokkur ríki hafa þegar sett á laggirnar verkefni á grundvelli greinar 6.2, þar sem árangur verður nýttur gagnvart alþjóðlegum skuldbindingum. Forsenda er að sérstakur samningur milli liggi fyrir milli viðkomandi ríkja. Þess má geta að stjórnvöld í Sviss hafa sýnt því mikinn áhuga að koma á laggirnar slíku tvíhliða samstarfi við Ísland, með það í huga að hingað til lands verði fluttur koltvísýringur frá svissneskri starfsemi, sem fyrirtækið Carbfix myndi dæla niður. Í gangi er tilraunaverkefni, sem felst í innflutningi lítils magns koltvísýrings frá Sviss, sem Carbfix dælir niður.
Starfshópnum er falið það hlutverk að kortleggja stöðu og tækifæri til viðskipta með kolefniseiningar hér á land, sem og horfa til ávinnings af verkefnum sem framleitt geta slíkar einingar. Í vinnunni þarf að horfa bæði til möguleika íslenskra fyrirtækja á slíkum markaði sem mögulegir framleiðendur eininga sem og kosti þess og galla að íslensk stjórnvöld nýti slíka markaði til að uppfylla skuldbindingar í loftslagsmálum. Í því samhengi þarf að horfa sérstaklega til loftslagsskuldbindinga á grundvelli samstarfs við ESB og hvaða möguleikar eru innan þess kerfis til að nýta einingar, t.d. frá landnýtingarverkefnum (LULUCF). Rétt er að hafa í huga að ESB hefur gefið það út að ekki verði nýttar alþjóðlegar kolefniseiningar til að ná markmiðum um 55% heildarsamdrátt í losun. Hins vegar má ætla að slíkar einingar verði nýttar inna Corsia-flugkerfisins.
Gert er ráð fyrir að lokaafurð starfshópsins verði tillögur að stefnumörkun stjórnvalda varðandi viðskipti með kolefniseiningar.
Starfshópurinn fær heimild til að leita til sérfræðinga á þessu sviði, bæði innlendra og erlendra, sérstaklega hvað varðar útfærslu lausna sem byggjast á 6. gr. Parísarsamningsins.
Í vinnunni verð m.a. lagt mat á eftirfarandi þætti í íslensku samhengi:
- Kolefnismarkaðir á grundvelli 6. gr. Parísarsamningsins, bæði tvíhliðasamstarf á grundvelli greinar 6.2 og um alþjóðlega kolefnismarkaði á grundvelli greinar 6.4.
- Valkvæður kolefnismarkaður – kolefnisjöfnun – þátttaka íslenskra fyrirtækja, framleiðsla, vottun o.fl.
- Kolefnismarkaðir og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum svo sem gagnvart Loftslagssamningi Sameinuð þjóðanna (UNFCC) og ESB.
- Verkefni á sviði föngunar og förgunar kolefnis og tenging við alþjóðlega kolefnismarkaði.
Skal starfshópurinn afla sjónarmiða lykilaðila á þessu sviði innan og utan stjórnkerfisins.
Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili niðurstöðum sínum til ráðuneytisins eigi síðar en 1. febrúar 2024
Starfshópurinn er þannig skipaður:
Án tilnefningar
Jónas Friðrik Jónsson, formaður,
Helga Barðadóttir
Samkvæmt tilnefningu matvælaráðuneytis
Björn Helgi Barkarson
Með hópnum mun starfa sérfræðingur á vegum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.