Stýrihópur til að fylgja eftir tillögum vinnuhóps um endurskoðun á mats- og greiðslukerfi hjúkrunarheimila
Heilbrigðisráðherra skipaði í ágúst 2022 vinnuhóp sem falið var að endurskoða mats- og greiðslukerfi hjúkrunarheimila. Skipun hópsins var í samræmi við viljayfirlýsingu ráðherra í tengslum við samninga Sjúkratrygginga, Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu (SFV) og Sambands íslenskra sveitarfélaga um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila, sem undirritaður var í mars 2022. Vinnuhópurinn skilaði heilbrigðisráðherra skýrslu í desember 2023 sem síðan var fylgt eftir með kynningu í maí 2024.
Stýrihópnum er falið að vinna frekar að eftirtöldum tillögum vinnuhópsins:
- Setja í gang og hafa yfirumsjón með þróunarverkefni sem fæli í sér að samið yrði við þrjú til fjögur hjúkrunarheimili um að íbúar yrðu metnir samhliða í tveimur matskerfum þ.e. 34 flokka InterRAI og 44 flokka InterRAI sem notað er á öllum hjúkrunarheimilum utan Sóltúns, sem notar 34 flokka kerfið. Þannig fengist samanburður á hvort kerfið nær betur utan um þá umfangsmiklu og oft sérhæfðu hjúkrun sem veitt er nú á hjúkrunarheimilum.
- Útfæra tillögu vinnuhópsins um að færa InterRAI matstímabil sem tengjast greiðslum daggjalda nær í tíma. Nú miða greiðslur daggjalda við mat á þjónustuþörf íbúa allt að 18 mánuði aftur í tímann. Í ljósi þess að meðal dvalartími íbúa hjúkrunarheimila er nú um 1,9 ár má ljóst vera að allt að 18 mánaða gamalt mat endurspeglar varla hjúkrunarþarfir íbúa á hverjum tíma.
- Koma í framkvæmd skilvirkri þjálfunar- og kennsluáætlun á InterRAI mælitækin en fram kom í störfum vinnuhópsins að þjálfun og kennslu á mælitækið væri ábótavant.
- Koma á starfsvettvangi notenda InterRAI mælitækjanna sem stuðlar að aukinni þekkingu þeirra sem meta hjúkrunarþarfir íbúa og að niðurstöður úr matskerfunum séu samanburðarhæfar.
Stýrihópinn skipa
- Helga Atladóttir, án tilnefningar, formaður
- Ólöf Elsa Björnsdóttir, tilnefnd af Embætti landlæknis
- Sigurjón Norberg Kjærnested, tilnefndur af Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu
- Ásgerður Kristín Gylfadóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
- Anna Kristrún Einarsdóttir, tilnefnd af Sjúkratryggingum
Starfsmaður hópsins er Unnur Gunnarsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu.
Stýrihópurinn er skipaður af heilbrigðisráðherra frá 7. október 2024 til eins árs.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.