Teymi sérfræðinga um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni
Samkvæmt 13. gr. laga um kynrænt sjálfræði nr. 80/2019 ber ráðherra sem fer með málefni heilbrigðisþjónustu að skipa teymi sérfræðinga um börn sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Teymið skal vera þverfaglegt og skipað fagfólki með viðeigandi þekkingu og reynslu. Teyminu er heimilt að kalla aðra sérfræðinga til ráðgjafar og samstarfs, m.a. svo að tryggja megi aðgreiningu heilsufarslegra ástæðna frá félagslegum, sálfélagslegum og útlitslegum þáttum sem kunna að koma til skoðunar við mat á því hvort breyta eigi kyneinkennum varanlega.
Teymið veitir börnum yngri en 16 ára sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, og aðstandendum þeirra, upplýsingar, ráðgjöf og meðferð í samræmi við þarfir hvers og eins og sinnir að öðru leyti þeim skyldum sem kveðið er á um í 11. gr. a. sömu laga. Teymið skal m.a. benda skjólstæðingum á viðeigandi jafningjafræðslu fólks með ódæmigerð kyneinkenni og hagsmunasamtaka þeirra. Teymið veitir þjónustu í þeim tilvikum þar sem ódæmigerðum kyneinkennum er breytt varanlega svo og þegar engar breytingar eru gerðar eða þeim frestað. Teymið setur sér verklagsreglur og skulu þær vera í samræmi við viðurkenndar vinnureglur á alþjóðlegum vettvangi. Heilbrigðisáðherra getur sett nánari ákvæði um verkefni og þjónustu teymisins í reglugerð.
Teymið skipa
- Berglind Jónsdóttir, sérfræðingur í innkirtlalækningum barna og unglinga
- Ragnar Bjarnason, yfirlæknir og sérfræðingur í innkirtlalækningum barna og unglinga
- Soffía Guðrún Jónasdóttir, sérfræðingur í innkirtlalækningum barna og unglinga
- Kristján Óskarsson, yfirlæknir og sérfræðingur í skurðlækningum barna og unglinga
- Þóra Sif Ólafsdóttir, sérfræðingur í þvagfæraskurðlækningum barna og unglinga
Teymið er skipað af heilbrigðisráðherra 21. október 2022.
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.