Prófnefnd verðbréfaréttinda
-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Þeim sem eru með endurmenntunartímabil til 31.12.2024 hefur verið veittur frestur til 1. júlí 2025 til að ljúka endurmenntun sinni og skrá hana inn á island.is skv. reglugerð um breytingu á reglugerð um verðbréfaréttindi, nr. 1401/2024.
-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------
Prófnefnd verðbréfaréttinda hefur umsjón með verðbréfaréttindaprófi skv. 41. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
Eftirtaldir aðilar skulu hafa verðbréfaréttindi:
- Starfsmenn verðbréfafyrirtækis sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við fjárfestingarþjónustu og fjárfestingarstarfsemi skv. 40. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
- Starfsmenn verðbréfafyrirtækis sem veita fjárfestingarráðgjöf skv. 40. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga.
- Einkaumboðsmenn sem starfa hér á landi skv. skv. 5. mgr. 50. gr. laga nr. 115/2021 um markaði fyrir fjármálagerninga
- Sjóðstjórar skv. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2021 um verðbréfasjóði
- Aðilar sem sinna eignastýringu verðbréfasafna lífeyrissjóðs skv. 4. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða
- Sjóðstjórar sérhæfðra sjóða fyrir almenna fjárfesta skv. 4. mgr. 80. gr. laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða, nr. 45/2020.
Verðbréfaréttindi nýtast einnig öðrum þeim sem starfa á fjármálamarkaði og er öllum heimilt að skrá sig í prófið.
Ráðherra ákveður prófgjöld og skal greiða þau fyrir þau tímamörk sem prófnefnd ákveður. Um verðbréfaréttindi gildir reglugerð nr. 1125/2021 um verðbréfaréttindi.
Prófnefnd verðbréfaréttinda
c/o Fjármála- og efnahagsráðuneyti
Arnarhvoli
150 Reykjavík
[email protected]
Efni til prófs, framkvæmd prófa o.fl.
- Prófefnislýsing 27. útgáfa október 2024
- Auglýsing 2024-2025
- Skráning í prófin fer fram á vefsíðu Opna háskólans í Háskólanum í Reykjavík, verðbréfaréttindapróf
- Prófgjald fyrir hvort próf verður kr. 47.500
Helstu verkefni prófnefndar verðbréfaréttinda
Prófnefnd sér um að halda árlega próf til öflunar verðbréfaréttinda.
Prófnefnd er heimilt að semja við utanaðkomandi aðila um framkvæmd prófa. Á hendi framkvæmdaraðila verðbréfaréttindaprófs er m.a. að annast skráningu í próf, innheimtu prófgjalda, útvegun húsnæðis vegna prófahalds, tilkynningar og upplýsingagjöf til próftaka vegna prófahalds, sending einkunna til próftaka og umsjón með prófsýningum í samráði við prófnefnd.
Prófnefnd er jafnframt heimilt að semja sérstaklega við óháða aðila um gerð og yfirferð prófa, en prófnefnd staðfestir að próftaki hafi staðist verðbréfaréttindapróf.
Prófnefnd tekur ákvörðun um efni sem prófað er úr og gefur út prófsefnislýsingu, sem birt er á vefsíðu prófnefndar.
Prófnefnd ákveður fjölda prófa og skulu þau að jafnaði vera skrifleg.
Verðbréfaréttindapróf
Próf til öflunar verðbréfaréttinda skiptist í tvo hluta:
- Lögfræði, og
- Viðskiptafræði.
Próf eru haldin á tímabilinu nóvember til júní (þ.m.t upptöku-/veikindapróf). Ekki er skylt að halda sérstakt sjúkra- eða upptökupróf nema að lágmarki fimm einstaklingar hafi skráð sig í próf.
Einkunnir á prófum eru gefnar í heilum og hálfum tölum frá 0-10. Próftaki telst ekki hafa staðist einstök próf hljóti hann lægri einkunn en 5,0.
Til þess að standast verðbréfaréttindapróf þarf próftaki að hljóta a.m.k. 7,0 í meðaleinkunn úr þeim prófum er hann hefur þreytt og skal próftaki hafa lokið öllum nauðsynlegum prófum með fullnægjandi árangri innan þriggja ára frá því að hann tók fyrsta prófið. Meðaleinkunn (lokaeinkunn) er gefin með tveimur aukastöfum.
Leyfileg hjálpargögn
Kveðið er á um leyfileg hjálpargögn í prófsefnislýsingu.
Prófsýningar
Próftaki á rétt á að sjá prófúrlausn sína ef hann æskir þess innan fimmtán daga frá birtingu einkunnar. Framkvæmdaraðili verðbréfaréttindaprófs hverju sinni annast skráningu á prófsýningar og skipuleggur þær í samráði við prófnefnd verðbréfaréttinda.
Próftaka er heimilt að skjóta mati á úrlausn til prófnefndar til endurmats innan tveggja mánaða frá birtingu einkunnar. Prófnefnd getur skipað prófdómara til að endurskoða úrlausn próftaka á ábyrgð nefndarinnar.
Undanþágur frá töku prófa
Hér er umfjöllun um undarþágur frá töku prófa skv. 5. gr. reglugerðar nr. 1125/2022 um verðbréfaréttindi.
Þeir sem lokið hafa prófi, eða öðlast réttindi á Evrópska efnahagssvæðinu sem krafist er í viðkomandi ríki til að hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við fjárfestingarþjónustu og fjárfestingarstarfsemi eða veita fjárfestingarráðgjöf, eiga rétt á að ráðherra veiti þeim verðbréfaréttindi, sbr. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og 2. gr. laga nr. 26/2010 um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi til starfa hér á landi. Verðbréfaréttindi sem veitt eru á þessum grunni geta verið afmörkuð við heimild til að hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við fjárfestingarþjónustu og fjárfestingarstarfsemi eða heimild til veitingar fjárfestingarráðgjafar.
Sýna þarf fram á að próftaki uppfylli skilyrði til undanþágu frá próftöku á þessum grundvelli.
Erindi vegna undanþágu frá töku prófa á þessum grundvelli skal beint til prófnefndar verðbréfaréttinda á netfangið [email protected] ásamt nauðsynlegum fylgigögnum og staðfestingum.
Námskeiðahald
Öllum er heimilt að skrá sig í verðbréfaréttindapróf. Ekki er gerð krafa um að próftakar sitji námskeið til undirbúnings prófi til öflunar verðbréfaréttinda.
Opni háskólinn í Háskólanum í Reykjavík býður upp á námskeið til undirbúnings prófi til öflunar verðbréfaréttinda og annast jafnframt framkvæmd prófsins.
Upplýsingar og skráning í próf fara fram á vef Opna háskólans.
Hvað með þá sem tóku próf í verðbréfaviðskiptum?
Hinn 1. september 2021 tóku gildi ný lög um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021. Við gildistökuna breyttist heiti verðbréfaviðskiptaprófs í verðbréfaréttindapróf.
Við gildistöku laganna öðluðust þeir einstaklingar sem höfðu staðist próf í verðbréfaviðskiptum sjálfkrafa verðbréfaréttindi. Þessir einstaklingar geta fengið skriflega staðfestingu frá prófnefnd verðbréfaréttinda á því að þeir hafi verðbréfaréttindi óski þeir eftir því. En vert er að benda á að prófnefnd heldur úti lista yfir þá aðila sem hafa verðbréfaréttindi (sjá neðst á síðunni).
Endurmenntun
Þeim sem öðlast hafa verðbréfaréttindi er skylt að sækja reglulega endurmenntun sem tryggir að þeir viðhaldi fræðilegri þekkingu, faglegri hæfni og gildum.
Endurmenntun vegna verðbréfaréttinda skal að lágmarki svara til sex klukkustunda á hverju þriggja ára tímabili sem skulu vera staðfestar, t.d. með skriflegri staðfestingu námskeiðshaldara eða frá viðkomandi háskóla ef um er að ræða kennslustörf eða fyrirlestrahald á háskólastigi.
Endurmenntunin skal ná til einhverra þeirra greina sem verðbréfaréttindaprófið prófar úr og skal að lágmarki tveimur klukkustundum varið í endurmenntun um lög og reglur á fjármálamarkaði
Endurmenntunartímabil þeirra sem öðlast hafa réttindi hefst 1. janúar árið eftir að þau voru veitt.
Þeir sem hafa verðbréfaréttindi skulu skrá upplýsingar um endurmenntun sína á Ísland.is, sjá nánar hér.
Í 8. og 9. gr. reglugerðar um verðbréfaréttindi,nr. 1125/2021, er nánar fjallað um endurmenntun vegna verðbréfaréttindaprófs.
Staðfest námskeið/ráðstefnur sem teljast til endurmenntunar
Skv. 4 máls. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar um verðbréfaréttindi geta þeir sem standa fyrir endurmenntun óskað eftir staðfestingu frá prófnefnd verðbréfaréttinda á því að viðkomandi námskeið og/eða ráðstefna teljist til endurmenntunar. Námskeiðishaldara ber að láta fylgja með beiðni um staðfestingu, heimfærslu á skörun við prófefnislýsingu.
Listi yfir námskeið fram undan sem prófnefnd verðbréfaréttinda hefur staðfest að teljist til endurmenntunar.
- Áhættustýring og afleiðuvarnir
- Áhættustýring og sviðsmyndagerð
- Fjárfestavernd: Flokkun og mat á hæfi og tilhlýðileika
- Námskeið | Leiðtogi í fjármögnun og fjárfestingum (akademias.is)
- Námskeið um fjárfestingaferli
- Skuldabréf og vextir í Excel
- Breytingar á löggjöf verðbréfamarkaðsréttar
- Lögmæt miðlun innherjaupplýsinga og markaðsþreifingar
- Sjálfbærni og fjármál - helstu aðferðir og reglur
- Verðmat fyrirtækja: Ávöxtunarkrafa og sjóðstreymisverðmat
Listi yfir einstaklinga sem hafa verðbréfaréttindi á Ísland.is
Prófnefnd verðbréfaréttinda
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.