Hoppa yfir valmynd
03.09.2024 16:07 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ofbeldið skal stöðvað

Þjóðin er harmi slegin eftir að fréttir bárust af því að eitt okkar, Bryndís Klara Birgisdóttir, 17 ára, lést í kjölfar alvarlegra áverka sem henni voru veittir. Það er þyngra en tárum taki að þetta hafi gerst í okkar samfélagi. Sorgin er enn erfiðari þar sem um er að ræða unga manneskju sem átti bjarta framtíð fyrir sér. Öll þjóðin finnur fyrir missinum og sársaukanum í svona harmleik.

Í gegnum tíðina höfum við búið í samfélagi þar sem tíðni alvarlegra glæpa er lág í alþjóðlegum samanburði. Hins vegar hafa á undanförnum árum reglulega borist fréttir af alvarlegum atvikum hjá ungu fólki þar sem gróft ofbeldi hefur fengið lausan tauminn og vopnum er beitt, hvort sem það er innan veggja skóla, skemmtistaða eða á almannafæri. Það gefur augaleið að þessi þróun er algjörlega óviðunandi og við verðum öll að stöðva hana. Að sama skapi verðum við að skilja hvað veldur þessari breytingu til að geta breytt samfélaginu til betri vegar. Að undanförnu hafa stjórnvöld í auknum mæli sett þunga í að mæta þessum nýja veruleika og munu gera það sem þarf til að stöðva þessa þróun. Þetta er eitt stærsta samfélagsverkefni okkar og er ég sannfærð um að þjóðarátak gegn ofbeldi muni skila okkur árangri og gera samfélagið öruggara. Ísland er sterkt samfélag og hefur tekist á við miklar áskoranir í gegnum tíðina. Við ætlum okkur að vinna bug á þessari þróun og snúa henni við – og það getum við. Slíkt hefur tekist í öðrum löndum og þangað þurfum við meðal annars að líta. Öll finnum við hvernig harmleikur sem þessi slær okkur og við viljum ekki að slíkt endurtaki sig. Samvinna fjölmarga aðila mun skipta máli á þeirri vegferð sem er fram undan. Hvort sem um er að ræða lögregluyfirvöld, frístundaheimili, skólasamfélagið í víðu samhengi, foreldra, félagsmiðstöðvarnar, heilbrigðiskerfið, félagsþjónustuna, barnamálayfirvöld, íþróttafélög, listafólkið okkar og síðast en ekki síst unga fólkið sjálft.

Tökum höndum saman og snúum þessari þróun við sem samfélag. Að því sögðu sendi ég fjölskyldu og vinum Bryndísar mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta