Hoppa yfir valmynd
27.02.2025 13:05 Utanríkisráðuneytið

Ræða Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra á málþingi Varðbergs 26. febrúar 2025

Ég vil byrja á því að þakka fyrir þetta málþing og það góða starf sem Varðberg hefur unnið á síðustu áratugum með því að halda á lofti umræðu um öryggis og varnarmál, stundum eins og hrópandinn í eyðimörkinni. Þetta er þó blessunarlega að breytast, þó það komi ekki til af góðu.

Síðastliðinn mánudag voru þrjú ár frá því að allsherjarinnrás Rússlands hófst í Úkraínu. Við munum líklega flest hvar við vorum stödd 24. febrúar 2022, þegar fréttirnar af innrásinni bárust frá Úkraínu. Þær virtust í fyrstu ótrúlegar og fjarlægar, og úr takti við nútímann - landvinningastríð, skriðdrekar og stórskotalið í hjarta Evrópu. Þetta breytti okkar heimsmynd.

Síðustu vikur höfum við svo horft upp á okkar mikilvægasta bandalagsríki þegar kemur að öryggi og vörnum breyta algjörlega um utanríkisstefnu. Skyndilega stendur Evrópa eftir í ákveðinni óvissu um stöðu Bandaríkjanna í alþjóðasamstarfi og að hvaða marki hægt er að treysta á varnartengdan stuðning þeirra. Þetta breytir líka okkar heimsmynd og veruleika.

Allt þetta þýðir að ríki Evrópu verða að þétta raðirnar og standa saman. Þær raddir heyrum við nú skýrar en áður. Það er gíðarlega mikilvægt að íslenskir stjórnmálamenn skyni og skilji þessar breytingar og mikilvægi samstöðunnar. Við Íslendingar verðum að axla ábyrgð og getum ekki leyft okkur að vera óvirkir áhorfendur – slíkt getur reynst okkur ansi dýrkeypt.

Innrásarstríð Rússlands kristallar um margt þróun síðustu áratuga sem hefur einkennst af umbrotaskeiði í alþjóðasamskiptum. Valdamikil ríki ganga nú lengra og lengra í því að túlka, sveigja og brjóta á bak aftur frelsi, lýðræði og mannréttindi, bæði heima fyrir og í alþjóðasamskiptum. Alræðisríkin vinna líka þéttar saman, eins og við sjáum í Úkraínu þar sem Norður-Kórea, Íran og Kína fóðra stríðsvél Pútíns.

Og átök eru víðar. Það sjáum við sömuleiðis með skelfilegum hætti fyrir botni Miðjarðarhafs, í Afríku og Asíu. Á sama tíma sjáum við innan ríkja, lýðræðisríkja, öfl sem vilja ala á sundurlyndi og tala fyrir einföldum lausnum á flóknum viðfangsefnum til að slá pólitískar keilur, jafnvel í umræðunni hér heima. Ísland þarf að standa vörð um samstöðu vestrænna ríkja, tala fyrir mannréttindum og lýðræði gegn ofríki og alræði.

Á síðustu þremur árum hafa Bandaríkin og ríki Evrópu staðið þétt að baki Úkraínu í þessu ólöglega innrásarstríði til að standa vörð um alþjóðalög, tryggja öryggi álfunnar og senda skýr skilaboð til annarra ríkja um að landvinningastríð verði ekki liðin. Við höfum unnið þétt saman að því að styðja við Úkraínu pólitískt, með mannúðaraðstoð og varnartengdum stuðningi eins og að leiða sprengjuleit í Úkraínu. Allt er þetta á grundvelli stefnu Alþingis um stuðning við Úkraínu.

Það er ágætt að hafa í huga að síðastliðinn þriðjudag voru líka 3 ár frá því að síðustu hömlum vegna Covid var aflétt hér á landi eftir tveggja ára sóttvarnastreð. Stóri lærdómurinn af öllu þessu fyrir Ísland – bæði Covid og Úkraínustríðinu, er að við getum reynt að láta sem umheimurinn og hvað í honum gerist komi okkur lítið við, en umheimurinn er á öðru máli.

Og staða alþjóðamálanna hefur líklega aldrei verið jafn viðkvæm og brothætt og í dag.

Í ástandi sem þessu dugar ekki skeytingaleysi eða von um að hlutirnir reddist. Við þurfum að taka stöðu, meta og ákveða með hvaða hætti við hyggjumst mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð.

Við getum ekki treyst á guð og lukkuna – á ótakmarkaða velvild annarra. Við verðum að gera meira sjálf, við verðum að gera betur og við verðum að taka frumkvæði. Við þurfum að sýna í verki að við erum verðugir bandamenn, vinir í raun og reiðubúin að axla byrðar í því samfélagi þjóða sem við viljum geta treyst á.

Eins og einhver orðaði það, við getum ekki lengur ferðast um farseðilslaus á fyrsta farrými.

Við getum öll verið sammála um að vilja frið. Friður er heitasta ósk íbúa Úkraínu, sem hafa þurft að þola linnulausar árásir í þrjú, en friður án réttlætis á sér enga framtíð. Við erum ekki ein um þá skoðun eins og nýleg atkvæðagreiðsla í Sameinuðu þjóðunum staðfestir. Þótt það sé meira en skringilegt að sjá Bandaríkin í hópi Rússa, Kínverja og Írana í atvæðagreiðslunni.

Þetta hefur alveg verið skýrt í málflutningi Íslands. Ekkert um Úkraínu án Úkraínu. Það segir sig sjálft að Úkraína og Evrópuríkin þurfa að eiga sæti við borðið þegar ræða á um öryggishagmuni álfunnar.

Við höfum allt að vinna og öllu að tapa þegar kemur að því að standa vörð um grundvallargildi, alþjóðalög og friðsamleg samskipti ríkja.

Góðir gestir

Það dylst engum að við stöndum á krossgötum, hvað varðar öryggismál Evrópu og þá um leið í okkar eigin öryggis- og varnarmálum.

Atlantshafsbandalagið hefur verið hryggjarstykkið í sambandi Bandaríkjanna og Evrópu síðustu 76 árin. Þetta er lifandi samband sem hefur þróast og staðið af sér pólitíska sviptivinda. Bandalagið hefur á hernaðarsviðinu aldrei staðið eins sterkt frá lokum kalda stríðsins. Útgjöld til varnarmála hafa verið stóraukin, hernaðargeta styrkt, fjölgað í liðsafla og aðgerðir sem miða að því að auka stöðuvitund, fælingarmátt og varnir hafa verið virkjaðar.

Það sem við þurfum að tryggja er að pólitíska sambandið sé lifandi, öflugt og virkt.

Við deilum ríkum hagsmunum með Evrópu. Sterk Evrópa þýðir í mínum huga sterkt Atlantshafsbandalag og rennir styrkari stoðum undir samband Evrópu og Bandaríkjanna.

En hvert er okkar hlutverk og hvað eigum við sjálf að gera?

Nú eru bráðum 20 ár frá brotthvarfi varnarliðsins, þegar Ísland þurfti á skömmum tíma að taka ábyrgð á eigin vörnum. Sá rammi er enn í dag næstum óbreyttur, þó heimurinn hafi gerbreyst, verkefnin vaxið og þátttaka okkar í fjölþjóðlegu varnarsamstarfi tekið stórstíga breytingum.

Ég er sannfærð um að við stöndum nú aftur á sögulegum tímamótum, sem kalla á að við tökum sjálf okkar eigin öryggis- og varnarmál fastari tökum, í samvinnu við okkar bandamenn. Þessi ríkisstjórn er ekki hrædd við að setja þessi mál á oddinn og við ræddum þau í þaula í stjórnarmyndunarviðræðunum. Það væri með öllu ábyrgðalaust að sitja með hendur í skauti, bíða og vona.

Viðfangsefnin eru mörg en ég vil setja niður nokkur leiðarljós sem við þurfum að huga að þegar við horfum til þess hvert skal haldið í öryggis- og varnarmálum, og í þeirri vinnu sem framundan er við mótun stefnu á þessu sviði.

Í fyrsta lagi, eigum við að vera verðugur, ábyrgur og virkur bandamaður annarra ríkja þar sem við tryggjum öryggi okkar í þéttu samstarfi við okkar bandalagsríki.

Grunnstoðirnar í vörnum landsins eru að mínu mati óbreyttar, en krefjast aukinnar virkni og ræktarsemi. Þar skipta aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin mestu máli. Landfræðileg lega Íslands fyrir öryggi- og varnir Norður-Ameríku og Evrópu vegur hér þungt. Það þýðir þó ekki að við getum alfarið treyst á aðra. Það er ekki valkostur. En við þurfum að endurmeta stöðu okkar. Við viljum að sjálfsögðu hafa áhrif með virkri þátttöku og samstarfi, hvort heldur innan Atlantshafsbandalagsins eða gagnvart Bandaríkjunum. Þannig gætum við best að okkar varnarhagsmunum. Mikilvægasta framlag Íslands er auðvitað stuðningur við eftirlit og aðgerðir okkar samstarfsríkja hér á Íslandi, rekstur íslenska loftvarnarkerfisins og líka þátttaka í verkefnum bandalagsins.

Við eigum að stórefla samstarf við okkar grannríki, sérstaklega Norðurlöndin, innan norræna varnarsamstarfsins, JEF-sameiginlegu viðbragðssveitarinnar í samstarfi við Breta en einnig efla tvíhliða samstarf við Þýskaland, Frakkland, og Pólland sem eru lykilríki í Evrópu. Þá hefur samstarf bandalagsríkjanna sjö á norðurslóðum verið sett í forgang, til að mæta vaxandi öryggisáskorunum á svæðinu.

Vægi Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum mun aukast, hvað sem hverjum finnst. Þetta sjá okkar nánustu samstarfsríki í Evrópu, Noregur og Bretland, og við eigum að horfa til þess líka.

Því þannig vinnum við með ríkjum sem hafa getu og þekkingu til að bregðast við á okkar nærsvæði með skömmum fyrirvara, sérstaklega í óvissu- og spennuástandi, þar sem ríður á að árétta fælingu og varnir til að afstýra átökum.

Í öðru lagi, þurfum við að horfa á hvað við getum gert sjálf til að tryggja stöðuvitund, öryggi, varnir og áfallaþol. Þar höfum við verulegt svigrúm til að gera betur sjálf og með öðrum.

Ég hef talað fyrir því að við þurfum að horfa fordómalaust á stofnana- og lagaumgjörð öryggis- og varnarmála, sem hefur verið næstum óbreytt í að verða 20 ár. Þá á ég við að horfa þurfi til þess hvernig við nýtum mannauð, fjármagn og getu með skilvirkum og hagkvæmum hætti, samhliða auknum umsvifum. Okkur hefur tekist að styrkja samstarf þvert á stofnanir. Á varnarmálaskrifstofu ráðuneytisins starfa í dag, hlið við hlið, fulltrúar frá ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslunni og netöryggisteymi stjórnvalda við áætlanagerð og greiningar.

Þetta samstarf þarf að styrkja enn frekar í sessi m.a. með því að færa netöryggisteymið inn í ráðuneytið. Við þurfum að horfa á öryggisáskoranir með heildstæðari hætti núna þegar við stöndum frammi fyrir margvíslegum fjölþáttaógnum, sem oft eru sniðnar að okkar veikleikum og skorti á sameiginlegri stöðuvitund og viðbragði.

Í þriðja lagi, þarf að huga að undirstöðunum, samfélaginu sjálfu og getu þess til að verjast áföllum og standa þau af sér.

Ísland stendur öðrum framar í glímunni við náttúruöflin en við þurfum að huga betur að öryggi okkar hvað varðar ógnir af mannavöldum. Við þurfum líka að vera vakandi fyrir tilraunum ríkja til að hafa óeðlileg áhrif á opinbera umræðu, fjárfestingar og vísindasamstarf.

Í fjórða lagi, þurfum við að vera raunsæ og gera okkur grein fyrir því að við þurfum að leggja til aukið fjármagn og mannskap.

Við fjárfestum í dag miklu minna en okkar helstu grannríki í öryggismálum, hvort heldur horft er til varna eða almenns öryggis. Því þarf að breyta. Það er skilningur á sérstöðu Íslands sem herlausrar þjóðar en ef við viljum hafa áhrif á okkar hagsmuni og huga að öryggi okkar gagnvart þeim hraðfara breytingum sem nú eru að eiga sér stað þá þurfum við að gera meira.

En hvað þýðir þetta - er spurning sem ég fæ núna gjarnan. Efling varna okkar felst m.a. í að styrkja þyrluflota LHG, efling löggæslu, sérþekkingar innanlands á varnarmálum, sterkara netöryggi, gervihnetti, geta lifað af sundurklippta neðansjávarkapla, Við þurfum að efla samstarf við atvinnulífið, fyrirtækin í landinu sem gegna mikilvægu hlutverki fyrir öryggi okkar, bæði þegar kemur að áfallaþoli en einnig með sínu hugviti og framleiðslugetu, sem skiptir máli þegar við fjárfestum meira í eigin öryggi.

Mannauðurinn er okkar mikilvægasta auðlind. Nú starfa um 100 manns að varnartengdum verkefnum hér heima og erlendis. Sá fjöldi mun líklega tvöfaldast á næstu fimm árum. Það þarf því að leggja rækt við fólkið okkar, þjálfun, fræðslu og rannsóknir.

Síðast en ekki síst þarf að dýpka pólitíska samtalið og almenna umræðu hér heima.

Ég mun beita mér fyrir því að efla samtal og samstarf á pólitíska sviðinu um varnarmálin, bæði innan þingsins, í stjórnkerfinu og við almenning. Við þokumst lítt áfram nema það verði gert og skilningur almennings á mikilvægi varnarmála aukist.

Innan þingsins verður lögð áhersla á reglubundið samráð og upplýsingagjöf og opna umræðu á borð við þá sem fram fór í síðustu viku, sem var afar gagnleg. Ríkisstjórnin hefur nú sett á fót ráðherranefnd um öryggis- og varnarmál sem mun vera vettvangur upplýsingaskipta milli ráðherra. Sömuleiðis mun ég leggja mig fram um að eiga virk samtöl við formenn allra flokka – í stjórn og stjórnarandstöðu. Ég boðaði fyrsta slíka fundinn einmitt í morgun . Ég vil undirstrika hér hversu brýnt það er fyrir okkar kjörnu fulltrúa og þau sem standa í stafni niðri í þingi að taka þessi mál alvarlega.

Þegar þingið vann að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar fyrir tveimur árum lagði ég til að innan stefnunnar yrði áskilað að vinna sérstaka varnarstefnu fyrir Ísland. Sú tillaga hlaut ekki brautargengi, en í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar er kveðið á um að mótuð verði ný öryggis- og varnarmálastefna. Sú vinna er þegar hafin og ekki vanþörf á. Ég mun leggja fram skýrslu um öryggis- og varnarmál í vor og í haust hyggst ég svo leggja fram stefnuna.

Þær sviptingar á alþjóðavettvangi sem við höfum orðið vitni af síðustu vikur undirstrika enn frekar mikilvægi þessarar vinnu.

Kæru fundargestir.

Ég er stolt af því að tilheyra þeim sterka kvennahópi sem verður hér í pallborði á eftir. Það er ekki langt síðan svona viðburðir voru haldnir og einungis karlar mættu til að taka þátt í umræðum. Nú erum við fjórar konur og það er ekkert tiltökumál.

En við erum ekki hér vegna þess að við erum konur. Við erum hér vegna þess að við höfum þekkingu og reynslu á sviði utanríkis-, öryggis- og varnarmála. Við hefðum getað setið hér og rætt um hvernig það er að vera kona í þessum geira en þegar heimsmyndin breytist eins hratt og hún hefur verið að gera síðustu daga og vikur þá er ekki hægt að setja fókusinn annað en á stöðuna eins og hún blasir við. Og til þess erum við hér. Þó það sé líka mjög mikilvægt að raddir kvenna heyrist þegar kemur að þessum málum.

Ég vonast til þess að samtalið í dag getið verið aflvaki fyrir þá vinnu sem senn fer í hönd og hlakka til þess að taka þátt í umræðunni hér á eftir.

Takk fyrir mig.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta