Formennska Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2023
Norðurlönd – afl til friðar
Yfirskrift formennskuárs Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2023 er: Norðurlönd – afl til friðar.
Í formennskutíð Íslands verður unnið að áherslusviðunum þremur í framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Á sama tíma verður einnig varpað ljósi á mikilvægi friðar sem undirstöðu mannréttinda, velferðar, kvenfrelsis og umhverfis- og loftslagsverndar.
Friður
Friður gegnir lykilhlutverki í að gera Norðurlönd græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær. Norrænu ríkin hafa komið fram saman á alþjóðavettvangi sem boðberar friðar og hvatt til alþjóðlegra samninga um frið og afvopnun. Áhrifa innrásar Rússlands í Úkraínu gætir um alla Evrópu og víðar og staða öryggismála á Vesturlöndum er gjörbreytt. Við slíkar aðstæður er samstaða og samvinna norrænu þjóðanna afar mikilvæg.

Græn Norðurlönd
Á formennskuárinu er áhersla lögð á að efla samstarf um sjálfbæra þróun í loftslagsmálum, málefnum hafsins og við innleiðingu á hringrásarhagkerfinu. Reynsla og árangur Íslands á sviði kolefnisföngunar og endurnýjanlegrar orku er góður vegvísir.

Samkeppnishæf Norðurlönd
Á formennskuárinu er lögð áhersla á að allir íbúar Norðurlandanna eigi kost á að vera virkir þátttakendur í stafrænni þróun og geti nýtt möguleika hennar, sem og tekið þátt á vinnumarkaði, og þannig aukið viðnámsþol samfélaganna og grænan hagvöxt.

Félagslega sjálfbær Norðurlönd
Á formennskuárinu er lögð áhersla á norrænt samstarf í heilbrigðismálum, sérstakleg hvað varðar heilsuviðbúnað og afhendingaröryggi. Jafnrétti og réttindi hinsegin fólks eru áherslumál, sem og mat á samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða á tímum grænna umskipta, sem einnig verða að vera réttlát.
Fréttir
FORMENNSKUÁÆTLUN
VILTU FRÆÐAST UM ...
Formennska Íslands 2023
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.