NATA auglýsir styrki til ferðaþjónustuverkefna á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrki frá NATA, samstarfssamningi Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála. Styrkirnir eru af tvennum toga; annars vegar til þróunar í ferðaþjónustu og hins vegar ferðastyrkir, t.d. vegna skólahópa, íþróttahópa eða menningarverkefna.
Umsóknarfrestur rennur út á miðnætti 25. ágúst.
Styrkir til þróunar og samstarfsverkefna í ferðaþjónustu
Allir sem starfa að eflingu ferðaþjónustu í samstarfi landanna þriggja geta sótt um styrk að hámarki 100.000 danskar krónur, eða að hámarki 50% þeirra kostnaðarliða sem styrktir eru. Skulu umsóknir fela í sér samstarf milli einstaklinga, stofnana eða fyrirtækja í tveimur af löndunum þremur hið minnsta. Vakin er athygli á að stjórn NATA leggur sérstaka áherslu á umsóknir sem tengjast sjálfbærri ferðamennsku. Ekki eru veittir styrkir vegna launakostnaðar, ráðgjafar, útgáfu efnis eða vefsíðugerðar.
Styrkir vegna kynnis- og námsferða
Eitt af markmiðum NATA er að auka samskipti og fjölga heimsóknum á milli landanna þriggja. Veittir eru ferðastyrkir, t.d. vegna skólahópa, íþróttahópa eða menningarverkefna og er hámarksstyrkur á hvern einstakling 1.000 danskar krónur. Styrkjunum er einvörðungu ætlað að standa straum af ferðakostnaði, ekki gistingu eða uppihaldi.
Nánari upplýsingar gefur starfsmaður NATA, Birita Johansen, sími 00 298 30 9900 eða í gegnum netfangið [email protected]