Tók þátt í málþingi á Grænlandi um norrænt samstarf
Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda, tók þátt í málþingi um norrænt samstarf sem skipulagt var af grænlenskum stjórnvöldum og fram fór í Nuuk síðastliðinn miðvikudag. Þá átti ráðherra einnig fundi með grænlenskum ráðherrum og borgarstjóra Nuuk.
Í ræðu sinni á málþinginu fjallaði Sigurður Ingi um hvernig norrænt samstarf hefur nýst Íslandi í tímans rás, pólitískt, efnahagslega og menningarlega, en Norðurlöndin eru nánustu samherjar og samstarfsríki Íslands á alþjóðavettvangi. Hann reifaði einnig undirbúning að formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni á næsta ári 2019 og sagði Ísland taka við formennskunni á spennandi tímum. Norrænt samstarf væri kraftmeira og nútímalegra en oft áður, mikilvægi þess fyrir íbúa Norðurlandanna ótvírætt og spurn eftir norrænum lausnum færi vaxandi á alþjóðavettvangi.
Á málþinginu var sjónum beint að sjálfbærri þróun með sérstakri áherslu á framkvæmd heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Öll Norðurlöndin, auk Grænlands, Færeyja og Álandseyja, hafa skuldbundið sig til að hrinda heimsmarkmiðunum í framkvæmd og þar er meðal annars unnið samkvæmt samnorrænni áætlun sem heitir Agenda 2030. Samkvæmt henni á öll norræn samvinna að taka mið af og styðja við heimsmarkmiðin og Norðurlöndin að styðja hvert annað í því tilliti, deila þekkingu og bestu lausnum við sameiginlegar áskoranir. Árið 2020 munu Norðurlöndin meta sameiginlega hvernig þeim hefur tekist til við framkvæmdina.
Fundaði með grænlenskum ráðherrum
Í heimsókn sinni til Nuuk átti Sigurður Ingi jafnframt fundi með Agöthu Fontain, samstarfsráðherra Norðurlanda í grænlensku heimastjórninni, þar sem rætt var um mögulegt aukið vestnorrænt samstarf á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni. Hann fundaði einnig með Erik Jensen, samgönguráðherra Grænlands, þar sem rætt var um sameiginleg hagsmunamál Íslands og Grænlands á sviði flugmála og ferðaþjónustu. Sigurður Ingi hitti einnig Asii Chemnitz Narup, borgarstjóra Nuuk, og Suke K. Fredriksen, ráðherra sjálfstæðismála og utanríkismála, og sat kvöldverð með Kim Kielsen, formanni landstjórnar Grænlands.
Sigurður Ingi Jóhannsson og Asii Chemnitz Narup, borgarstjóri Nuuk.