Hoppa yfir valmynd
2. nóvember 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Raddir unga fólksins á Norðurlöndum

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 2. nóvember 2018.

Ísland tekur við formennsku í Norðurlandaráði í byrjun næsta árs og á nýafstöðnu Norðurlandaráðsþingi í Osló fyrr í vikunni kynnti ég þær áherslur sem við munum leggja á sviði menningarmála. Þrjú áhersluatriði íslensku formennskunnar snúa að sjálfbærri ferðamennsku í norðri, hafinu og ungu fólki á Norðurlöndunum en viðfangsefni okkar á menningarsviðinu tengjast einkum hinu síðastnefnda.

Þannig eru verkefni okkar Menntun fyrir alla og Platform-Gátt umfangsmikil verkefni á sviðum menntunar og lista fyrir ungt fólk. Þar er sérstök áhersla lögð á þátttöku og samræðu þeirra um mennta- og menningarmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Á þessu ári förum við einnig með formennsku í norrænu barna- og ungmennanefndinni NORDBUK en eitt af markmiðum hennar er að efla samtakamátt og þátttöku ungs fólks á Norðurlöndunum í samfélagslegum verkefnum og lýðræðisferlum.

Ísland leggur áherslu á tungumálasamstarf í formennsku sinni og mun ég mæla fyrir því að kannað verði hvort tímabært sé að endurskoða málstefnu Norðurlanda í heild sinni. Á fundinum í Osló urðu þau tímamót að íslenska og finnska voru í fyrsta sinn formlega skilgreind sem opinber mál Norðurlandaráðs og er það mikið framfaraskref. Þá munum við skipuleggja tvær ráðstefnur þar sem málefni Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. UNESCO) um heimsminjar og menningarerfðir verða í brennidepli. Á vettvangi fjölmiðlunar munum við gera átak í að efla fjölmiðlun sem tæki gegn falsfréttum og upplýsingaóreiðu. Á sviði íþrótta- og æskulýðsmála er ráðgert að skipuleggja hliðarviðburði á stórri ráðstefnu íslensku formennskunnar um #églíka-byltinguna næsta haust.

Á fundi norrænu menningarmálaráðherranna í Osló var einnig tekin ákvörðun um sameiginlega menningarkynningu Norðurlandanna, hliðstæða Nordic Cool sem fram fór í Washington 2013 og Nordic Matters í Lundúnum 2017, og mun sendinefnd kynna tillögur sínar að staðsetningu þriðju menningarkynningarinnar um miðjan nóvember.

Ég vil að lokum óska verðlaunahöfum Norðurlandaráðs, sem veitt voru á þinginu, hjartanlega til hamingju. Það er sérlega ánægjulegt að tvenn verðlaun hlotnuðust íslensku listafólki að þessu sinni; rithöfundinum Auði Övu Ólafsdóttur sem hlaut bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Ör og aðstandendum kvikmyndarinnar Kona fer í stríð sem fengu kvikmyndaverðlaunin. Verðlaun þessi munu án efa auka hróður fyrrgreindra verka og listamanna enn frekar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta