Hoppa yfir valmynd
13. nóvember 2018 Utanríkisráðuneytið

Stefnuyfirlýsing um NORDEFCO-samstarf undirrituð

Utanríkisráðherra undirritar NORDEFCO Vision 2025 í Ósló í dag - myndNorska varnarmálaráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sótti fund varnarmálaráðherra Norðurlanda um NORDEFCO-samstarfið og fund varnarmálaráðherra norrænu ríkjanna og Eystrasaltsríkja sem haldnir voru í Ósló í dag. Norrænu ráðherrarnir undirrituðu á sínum fundi stefnuyfirlýsingu um öryggis- og varnarmálasamstarf ríkjanna.

Árangur af samstarfi norrænu ríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála, ástand og horfur í öryggismálum svæðisins og viðbragðsgeta norrænu ríkjanna á neyðartímum var á meðal þess sem var efst á baugi á fundinum. Þá var stefnuyfirlýsing norrænu ríkjanna í varnarmálasamstarfi, NORDEFCO Vision 2025, jafnframt til umræðu en þar lýsa ríkin því yfir að halda áfram að þróa og bæta samvinnu sína á þessu sviði. Að fundinum loknum undirrituðu ráðherrarnir yfirlýsinguna.

 „Ástand öryggismála á norðurslóðum er bæði flóknara og erfiðara viðfangs en það hefur verið um langt skeið, bæði vegna vaxandi hernaðarumsvifa en líka óhefðbundinna ógna eins og netárása. Það er því rökrétt að norrænu ríkin auki samstarf sitt á þessu sviði, auk þess sem það er í samræmi við þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland þar sem kveðið er á um efla og þróa enn frekar norræna samvinnu um öryggis- og varnarmál,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Norrænt samstarf í öryggis- og varnarmálum hefur vaxið jafnt og þétt á síðastliðnum árum, allt frá sögulegri yfirlýsingu Thorvalds Stoltenberg sem hann setti fram í skýrslu til utanríkisráðherra Norðurlandanna árið 2009 um aukið samstarf Norðurlandanna á þessu sviði.

Noregur hefur farið með formennsku í NORDEFO-samstarfinu undanfarið ár. Fundurinn í Ósló í dag var sá síðasti undir stjórn Norðmanna en Svíar taka á næsta ári við formennskunni í þessu samstarfi.

Utanríkisráðherra undirritar NORDEFCO Vision 2025 í Ósló í dag

Frá undirrituninni í dag. Mynd: Utanríkisráðuneytið. 

Síðdegis sótti utanríkisráðherra sameiginlegan fund varnarmálaráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Á meðal dagskrárefna á fundinum voru varnaræfingin Trident Juncture 2018 sem nú stendur yfir í Noregi, samskipti ríkjanna við Rússland og nánara samstarf ESB-ríkja í varnar- og öryggismálum. Þar hefur Ísland lagt áherslu á að slík samvinna megi ekki vera á kostnað varnarsamstarfs á vettvangi Atlantshafsbandalagsins.

Á morgun tekur utanríkisráðherra svo þátt í fundi Norðurhópsins svonefnda en auk varnarmálaráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja sækja fundinn varnarmálaráðherrar Þýskalands, Póllands, Hollands og Bretlands. Á meðal dagskrárefna eru umræður um yfirstandandi umbætur á Sameinuðu þjóðunum og friðargæsluverkefni en í þeim hluta fundarins tekur þátt Jean-Pierre Lacroix, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sviði friðargæslu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta