Hoppa yfir valmynd
6. febrúar 2019 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra fundaði með Ann Linde

Guðlaugur Þór Þórðarson og Ann Linde á fundi þeirra í dag.  - myndUtanríkisráðuneytið
Norrænt samstarf, útganga Bretlands úr Evrópusambandinu, öryggismál og alþjóðaviðskipti voru helstu umræðuefnin á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Ann Linde, utanríkisviðskiptaráðherra Svíþjóðar, nú síðdegis.

Ann Linde er stödd hér á landi í tengslum við fund samstarfsráðherra Norðurlanda sem fram fer á morgun en Linde fer með Norðurlandamálin í sænsku ríkisstjórninni, auk utanríkisviðskipta. Þau Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra áttu fund í utanríkisráðuneytinu í dag þar sem norræn samvinna var til umfjöllunar en um áramótin tók Ísland við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og í norrænu utanríkispólitísku samstarfi.  

„Norræna samvinnan skiptir Íslendinga afar miklu máli enda óumdeilt að vegna hennar hefur Ísland meiri slagkraft á alþjóðavísu en stærð okkar gefur til kynna,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson eftir fundinn. „Það er þess vegna ávallt tilefni til að efla tengslin við nánustu vinaþjóðir okkar, ekki síst nú þegar Ísland hefur tekið við formennskunni í norræna samstarfinu – af Svíum.“

Ráðherrarnir ræddu jafnframt stöðu og horfur í alþjóðaviðskiptum, meðal annars útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, viðskiptatengslin vestur yfir haf og í Asíu. Þá voru öryggismál til umræðu á fundi þeirra. 

Sem fyrr segir tók Ísland við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni um áramótin og af því tilefni funda samstarfsráðherrar Norðurlanda saman í Reykjavík á morgun. Sigurður Ingi Jóhannsson stýrir fundinum en hann gegnir embætti samstarfsráðherra Norðurlanda í ríkisstjórn Íslands.
  • Guðlaugur Þór Þórðarson og Ann Linde á fundi þeirra í dag.  - mynd
  • Guðlaugur Þór Þórðarson og Ann Linde á fundi þeirra í dag.  - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta