Forsætisráðherra fundar með aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, átti fund með António Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, í tengslum við kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í New York í Bandaríkjunum. Á fundinum var rætt um áskoranir í jafnréttismálum og vakti Katrín sérstaklega athygli á árangri Norðurlandanna á því sviði en Ísland fer nú með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Þá ræddu forsætisráðherra og framkvæmdastjórinn um aðgerðir í loftslagsmálum og komandi loftslagsfund í haust og mikilvægi þess að öll ríki leggi sitt af mörkum við lausn loftslagsvandans.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Þetta var góður og hreinskiptinn fundur. Guterres er afar reynslumikill á sviði alþjóðamála, og þá ekki síst mannréttindamála, og ég veit að hann er með djúpa sannfæringu fyrir því að hægt sé að byggja réttlátari og sjálfbærari heim. Það er gott að vita af slíkri leiðsögn innan Sameinuðu þjóðanna á þessum tímum sem við lifum.“
Forsætisráðherra átti einnig tvíhliða fundi með Mörtu Ramirez, varaforseta Kólumbíu, Julie Anne Genter, ráðherra jafnréttismála í Nýja Sjálandi og Nathaliu Kanem, framkvæmdastjóra mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna. Þá tók hún jafnframt þátt í viðburði á vegum EPIC, Equal Pay International Coalition, í gær þar sem fjallað var um jafnlaunamál og jafnrétti á vinnumarkaði. Í umræðum var því velt upp hvort ásættanlegt geti talist að launajafnrétti kynjanna nái ekki fram að ganga fyrr en eftir rúmar tvær aldir en það er sá tími sem Alþjóðaefnahagsráðið hefur áætlað. Í innleggi sínu fjallaði forsætisráðherra meðal annars um jafnlaunavottun en lög um hana tóku gildi á Íslandi 2018. „Eitt af því mikilvægasta við jafnlaunavottunina er að hún veltir ábyrgðinni á launamuni kynjanna af herðum einstaklinga og yfir á vinnuveitendur. Vinnuveitendur þurfa að geta réttlætt launamun milli fólks í sambærilegum störfum. En þetta er auðvitað bara eitt af mörgum tækjum sem við þurfum að nota til að uppræta kynbundinn launamun,“ sagði Katrín.