Þörf á metnaðarfullum markmiðum fyrir náttúruna
Á fundi sínum í Reykjavík í dag ræddu norrænu umhverfisráðherrarnir mikilvægi þess að sett verði metnaðarfull markmið í baráttunni gegn hnignun náttúrunnar í gegnum samning Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegrar fjölbreytni. Þeir leggja áherslu á að nýta aðferðir náttúrunnar við að takast á við loftslagsmálin, svo sem með endurheimt skóga og votlendis og landgræðslu. Enn fremur vilja ráðherrarnir tryggja að ungt fólk fái tækifæri til að taka þátt í vinnu Sameinuðu þjóðanna við að setja þessi markmið.
„Unga fólkið á að erfa jörðina. Það er því sjálfgefið að það hafi áhrif á hvernig við förum með hana og gætum hennar,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra sem stýrði fundi ráðherranna í dag þar sem Ísland er nú í formennsku í Norrænu ráðherranefndinni.
Tegundum lífvera og búsvæðum þeirra í náttúrunni fækkar ört og vistkerfum hnignar á hraða sem ógnar lífsskilyrðum núlifandi og komandi kynslóða. Innan ramma samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (Convention on Biological Diversity, CBD) er unnið að því að stemma stigu við þessari hnignun náttúrunnar bæði með því að friða svæði og breyta nýtingu atvinnugreina á náttúruauðlindum, einkum landbúnaði, fiskveiðum, skógrækt og ferðaþjónustu.
Guðmundur Ingi segir samning SÞ um líffræðilega fjölbreytni afar mikilvægan. „Nú þegar markmið hans verða endurskoðuð skiptir öllu máli að þau verði metnaðarfull og ekki síður að við vinnum markvissara en áður að því að ná þeim. Við þurfum einnig að leggja áherslu á að ná samlegðaráhrifum milli aðgerða vegna hnignunar lífbreytileika og annarra áskorana í umhverfismálum, s.s. vegna loftslagsvandans og jarðvegseyðingar,“ segir hann.
Á fundi sínum í Reykjavík í dag sammæltust norrænu umhverfisráðherrarnir um að senda sameiginlegt bréf til Sameinuðu þjóðanna þar sem lögð er áhersla á að sýna metnað og stórhug við setningu markmiðanna sem taka við eftir árið 2020.
Ráðherrarnir ákváðu einnig að deila góðum dæmum frá Norðurlöndunum af aðgerðum og reglusetningu sem gagnast bæði loftslaginu og líffræðilegri fjölbreytni á sérstökum loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna 23. september næstkomandi, en þar koma stjórnvöld, atvinnulíf og almenningur saman til að ræða m.a. „náttúrulegar lausnir“ á loftslagsvandanum.
Friðlýsingar náttúrusvæða og þjóðgarðar eru meðal mikilvægustu stjórntækja sem stjórnvöld hafa til að varðveita lífbreytileika. Friðlýsingar ýta einnig undir varðveislu landslagsheilda, víðerna, jarðminja, menningarminja og menningarsögu. Að auki eru þær mikilvægar fyrir ferðaþjónustu, útivist og tengsl manns og náttúru. Vegna þessa er náttúruvernd meðal forgangsverkefna í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni í ár.
Á fundinum í dag var einnig rætt um eftirfylgni við Helsinki-yfirlýsinguna um kolefnishlutleysi en í janúar undirrituðu forsætisráðherrar Norðurlandanna yfirlýsingu þess efnis að Norðurlöndin vildu vera leiðandi í loftslagsmálum og þau ætluðu sér að efla samvinnu á fjölmörgum sviðum, til dæmis hvað varðar kolefnishlutleysi. Á fundinum í dag var meðal annars ákveðið að setja af stað greiningu á markmiðum Norðurlandanna um kolefnishlutleysi, m.a. um hvað er líkt og ólíkt í þeirra áætlunum, til hvaða geira þau ná og hvaða aðferðir ríkin velja. Áætlanir Norðurlanda geta þannig nýst öðrum ríkjum sem vilja setja sér metnaðarfull markmið.